Helga Möller (1957-)

Helga Möller

Helga Möller er allt í senn, trúbador, diskó- og jólalagadrottning og Eurovision-hetja en fyrst og fremst þó söngkona – framangreind hlutverk hennar hafa verið bundin tíðaranda og tímaramma hverju sinni nema jólalögin, þau hefur Helga sungið reglulega inn á plötur allt frá því um 1980 og hún hefur reyndar yfirleitt verið áberandi í jólavertíðinni með tónleikahaldi, bæði sjálf og með öðrum.

Helga Jóhannsdóttir Möller er fædd vorið 1957 og hóf snemma að syngja og leika á gítar. Hún var enn í Laugalækjarskóla þegar hún tróð upp á skemmtun í skólanum og söng þar við eigin gítarundirleik, fljótlega upp úr því var hún einnig farin að koma fram sem trúbador t.d. í Klúbbnum og í Tónabæ á vegum FÁLM (Félag áhugafólks um leiklist og músík) þar sem hún flutti lög Joni Mitchell, Janis Ian, Carol King o.fl. í bland við eigin tónsmíðar. Á þessum tíma var nokkur þjóðlagavakning í gangi og svo fór að Helga hóf að syngja með hljómsveitinni Melchior sem einnig kom fram á þessum FÁLM kvöldum en tónlist þeirra var einmitt þjóðlagaskotin, með Melchior söng hún inn á smáskífu sem kom út árið 1974 áður en hún hætti í sveitinni – hún kom svo eitthvað fram með sveitinni löngu síðar þegar hún var endurreist eftir langt hlé. Um þetta leyti starfaði hún um nokkurra mánaða skeið einnig með hljómsveitinni Moldrok og söng í uppfærslu á söngleiknum Tommy sem settur var á svið í Verzlunarskólanum þar sem Helga var við nám enda var hún þarna ennþá aðeins 17 ára gömul.

Helga Möller 1975

Á námsárum sínum hafði Helga feikinóg að gera í tónlistinni, hún hélt áfram að koma fram ein með gítar og meðal annars á þjóðlagahátíð í Austurbæjarbíói en einnig fékk hún hljóðversverkefni, söng t.d. inn á plötu með Róbert bangsa og á fyrstu sólóplötu Jakobs Frímanns Magnússonar – Horft í roðann. Haustið 1976 gekk hún til liðs við hljómsveitina Celsius en Jóhann Helgason var um það leyti einnig að ganga í sveitina, hún söng með þeirri sveit um veturinn og m.a. í hljóðveri en lag með sveitinni (Love your mother) átti eftir að koma út nokkrum árum síðar á safnplötu.

Vorið 1977 lauk Helga stúdentsprófi og hætti um leið í Celsius því hún hóf þá um sumarið að starfa sem flugfreyja en það átti hún eftir að gera næstu áratugina – með hléum þó. Hún hvarf því af sjónarsviði tónlistarinnar um skeið en reyndar má heyra rödd hennar á plötu Fjörefnis sem kom út 1978 – hér er sérstaklega bent á titillag þeirrar plötu Dansað á dekki þar sem hún er áberandi.

Það má kannski segja að Helga hafi flestum verið gleymd tveimur árum síðar en haustið 1979 kom út plata sem beðið hafði verið eftir með eftirvæntingu og hafði gengið undir nafninu „diskóplata Gunnars Þórðarsonar“, þar voru þau Helga Möller og Jóhann Helgason félagi hennar úr Celsius (Change o.fl.) söngvarar dúetts sem nú hafði hlotið nafnið Þú og ég. Platan – Ljúfa líf, sló samstundis í gegn eins og svo margt sem Gunnar kom að á þessum árum og á næstu þremur árum komu út þrjár breiðskífur með dúóinu. Hvorki Helga né Jóhann munu hafa verið sérlegt áhugafólk um diskótónlist þegar kom að þessu verkefni enda voru þau bæði vanari að koma fram með kassagítar heldur en að syngja diskólög við undirspil segulbands en platan fór vel í landsmenn og lög eins og Vegir liggja til allra átta, Þú og ég, Dans dans dans, Í Reykjavíkurborg og Villi og Lúlla nutu gríðarlegra vinsælda og því varð ekki aftur snúið, síðan þá hefur Helga jafnan gengið undir titlinum diskódrottning Íslands. Reyndar var sá galli á gjöf Njarðar að um það leyti sem platan kom út um haustið var hún komin á steypirinn og þegar kom að því að kynna plötuna var hún orðin léttari. Hún söng því í Hollywood (og víðar þar sem platan var kynnt) milli þess sem hún sinnti nýfæddu barni sínu.

Helga Möller

Ljúfa líf varð söluhæsta plata ársins 1979 og seldist í um 13 þúsund eintökum, platan var ennfremur kjörin plata ársins á Stjörnumessu Dagblaðsins og Vikunnar og því var dúettnum varla stætt á öðru en að halda samstarfinu áfram – auk þess var róið að því öllum árum að koma tónlistinni á framfæri erlendis og í hönd fór átak þess efnis, nokkrar smáskífur voru gefnar út á ensku í nafni You & I og breiðskífa átti síðar eftir að koma út í Evrópu og einnig í Japan en þar naut Þú og ég nokkurra vinsælda og t.a.m. seldist smáskífa þeirra (We are the love / Blue) í um 70 þúsund eintökum árið 1981. Hér heima var hins vegar strax á nýju ári 1980 ráðist í gerð annarrar breiðskífu sem kom út um sumarið undir titlinum Sprengisandur, þar var róið á svipuð mið og á fyrri plötunni og lög eins og Á Sprengisandi, Í útilegu og Sveitin milli sanda urðu vinsæl en hún hlaut þó síðri viðtökur en frumburðurinn. Þú og ég fóru síðsumars í kynningargírinn fyrir erlendan markað og tóku t.a.m. þátt í Sopot söngvakeppninni svokölluðu í Póllandi þar sem þau höfnuðu í fjórða sæti keppninnar.

Gunnar var ekki af baki dottinn, staðráðinn í að hamra járnið heitt sendi hann frá sér jólaplötu um haustið, Í hátíðarskapi þar sem Þú og ég voru í stóru hlutverki, sungu þar fjögur lög og tvö þeirra Hátíðarskap og Aðfangadagskvöld urðu mjög vinsæl og teljast í dag til klassískra jólalaga. Helga átti síðan eftir að syngja á fjölda jólaplatna upp frá þessu og jafnframt að koma fram á hvers kyns jólaskemmtunum og -tónleikum, hún hefur því einnig hlotið þá upphefð ásamt diskódrottningartitlinum að kallast drottning jólalaganna og margir geta ekki hugsað sér jólin án þess að heyra hana syngja jólalög.

Helga var nú á skömmum tíma orðin ein allra vinsælasta söngkona landsins, hún var kjörin söngkona ársins á Stjörnumessunni en hafði þurft að láta sér lynda annað sætið árið á undan. Það þarf því ekki að koma á óvart að þegar Ríkissjónvarpið stóð fyrir sönglagakeppni snemma árs 1981 að Helga var meðal flytjenda þar. Í þeirri keppni sigraði lagið Af litlum neista sem Pálmi Gunnarsson söng en þau Helga og Pálmi áttu nokkrum árum síðar eftir að verða fulltrúar Íslands í Eurovision söngvakeppninni sem hávær krafa var nú komin upp um að Íslendingar tækju þátt í.

Þú og ég störfuðu eitthvað áfram samhliða því sem reynt var að koma þeim á alþjóðamarkað en einnig kom loks út lag með hljómsveitinni Celsius um sumarið á safnplötunni Flugur en sú sveit var þá löngu hætt, löngu síðar kom svo út plata með sveitinni sem hafði verið tilbúin til útgáfu. Um haustið 1981 kom svo út önnur jólaplata – Við jólatréð þar sem Helga söng í jólasyrpu sem naut nokkurra vinsælda og varð til að festa hana í sessi sem jólalagasöngkonu.

Haustið 1982 kom þriðja breiðskífa Þú og ég út, Aðeins eitt líf en sú plata hlaut ekki nándar nærri því eins mikla athygli og fyrri plöturnar, titillagið Aðeins eitt líf og svo gamli smellurinn Don‘t try to fool me nutu hvað mestrar hylli á plötunni en íslenska popplandslagið hafði tekið miklum breytingum og diskóið átti illa orðið upp á pallborðið.

Helga árið 1980

Helga söng inn á tvær plötur sem komu út það árið, annars vegar á safnplötunni Við djúkboxið en hins vegar á plötu Þorgeirs Ástvaldssonar – Á puttanum. Sjálf var hún nánast hætt að koma fram ein með gítarinn, hún hafði eitthvað troðið upp á SATT kvöldum og Vísnakvöldum en hætti því líklega alveg 1982. Hún kom hins vegar fram á ýmsum öðrum tónlistartengdum uppákomum og t.d. söng hún á stórtónleikum sem Haukur Morthens stóð fyrir.

Þú og ég hættu störfum fljótlega á árinu 1983, þá var ljóst að ekki yrði farið í tónleikaferð til Japan eins og ráðgert hafði verið og Helga var jafnframt að flytjast til Þýskalands þar sem hún átti eftir að búa næstu tvö árin ásamt Pétri Ormslev unnusta sínum sem þar var atvinnumaður í fótbolta. Það fór því eðlilega lítið fyrir Helgu næstu misserin hér heima, hún reyndi lítillega fyrir sér í söngnum í Þýskalandi undir nafninu Helga Helgason en fannst það ekki spennandi markaður.

Helga kom aftur heim til Íslands árið 1985, kom þá fyrst inn í sýningar á Litlu hryllingsbúðinni sem þá var sýndur í Íslensku óperunni en söng svo í tónlistarsýningu með lögum Gunnars Þórðarsonar á Broadway um veturinn, hún hafði einnig sungið á Broadway um tíma áður en hún fór utan.

Það var svo um svipað leyti að ljóst var að Ísland yrði meðal þátttökuþjóða í Eurovision söngvakeppninni og undankeppni var haldin í upphafi árs 1986, Helga var þar ekki meðal söngvara enda tiltölulega nýkomin til landsins eftir tveggja ára útlegð en þar var hins vegar áðurnefndur Pálmi Gunnarsson sem sigraði keppnina með lag Magnúsar Eiríkssonar – Gleðibankann sem þar með var fyrsta framlag Íslands í þessari vinsælu keppni. Fljótlega eftir keppnina var afráðið að Pálmi, Eiríkur Hauksson og svo Helga yrðu fulltrúar Íslands undir nafninu Icy-hópurinn. Í kjölfarið rann á þjóðina mikið Eurovision æði og spennan magnaðist sem og væntingarnar eftir þvi sem nær dró keppninni sem fram fór í Bergen í Noregi, þjóðin varð sigurviss og það var mikið áfall þegar talið hafði verið upp úr kössunum og Gleðibankinn lent í 16. sæti. Það var því nokkuð hnípinn Icy-hópur sem kom heim eftir vonbrigðin í Bergen.

Icy hópurinn við myndbandstökur

Icy-hópurinn starfaði eitthvað áfram um sumarið, kom fram á nokkrum skemmtunum og fór síðan ásamt hljómsveitinni Faraldi í stuttan balltúr um landið. Helga hafði jafnframt nóg að gera, hún var meðal söngvara í sönglagakeppni sem haldin var í tilefni af 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar þá um sumarið – söng þar lagið Breytir borg um svip, sem hlaut síðar töluverða spilun síðar í flutningi höfundarins, Kristínar Lilliendahl.

Helga hafði á þessum tíma fest sig í sessi sem ein fremsta söngkona landsins og nú hófst tímaskeið sem í raun hefur staðið yfir síðan þá. Hún hefur með reglulegu millibili minnt á sig á jólaplötum, fyrir jólin 1986 söng hún lagið Heima um jólin á jólaplötunni Jól alla daga, ári síðar kom hún við sögu á plötunum Jólastund og Jólagestir Björgvins, og á næstu áratugum söng hún inn á nokkrar slíkar jólaplötur s.s. Ómar finnur Gáttaþef, Senn koma jólin, Jólahátíð – söngvar og kvæði, Velkomin jól, Komdu um jólin og Gullkorn áður en hún sendi loks frá sér jólaplötu árið 2007 í eigin nafni sem jafnframt var hennar fyrsta sólóplata. Það var platan Hátíðarskap sem hún vann með Magnúsi Kjartanssyni en þau höfðu mikið starfað saman í jólavertíðinni gegnum árin og meðal annars skemmt á Loftleiðum í mörg ár. Platan hlaut prýðilegar viðtökur og seldist ágætlega, og það vakti einnig athygli að 14 ára dóttir hennar, Elísabet Ormslev söng með henni á plötunni. Hátíðarskap fékk jafnframt góða dóma í Morgunblaðinu. Helga hefur einnig starfað með André Bachmann í tengslum við jólavertíðina auk þess að koma fram á ýmsum öðrum jólatengdum tónleikum og skemmtunum í gegnum tíðina, m.a. á tónleikum Boney M, þá sendur Þú og ég einnig frá sér jólalag árið 2011. Þá má geta að það vakti mikla athygli þegar Helga kom fram á jólatónleikum útvarpsstöðvarinnar Radio X og söng lagið Hátíðarskap ásamt hljómsveitinni Maus, hún hefur einnig sjálf haldið jólatónleika í eigin nafni og það er því alveg eðlilegt að margir geti ekki hugsað sér jólahátíðina án þess að heyra Helgu syngja jólalög.

Helga Möller 1985

Helga hefur starfaði með miklum fjölda tónlistarfólks síðustu áratugina og samstarfið við Magnús Kjartansson og André Bachmann er einungis lítill hluti af því. Hún hefur t.a.m. sungið á flestum plötum Geirmundar Valtýssonar frá 1989 og gert nokkur laga hans ódauðleg, hér má nefna Ort í sandinn, Vertu, Þegar sólin er sest, Hvort ég vaki eða sef og Ég hef bara áhuga á þér. Helga hefur jafnframt margsinnis sungið með Geirmundi á tónlistarsýningum, tónleikum og dansleikjum, og í söngvakeppni Sæluvikunnar á Sauðárkróki, þar hefur Helga reyndar einnig sungið eigið lag. Um tíma starfaði hún heilmikið með tónlistarmanninum Hilmari Sverrissyni, bæði með hljómsveit hans og einnig komið fram með honum einum, hún söng líka um skeið með hljómsveitinni Hot‘n sweet sem starfaði mestmegnis á Kringlukránni. Þá hefur hún sungið fjölmörg lög á plötum Ómars Ragnarssonar í gegnum tíðina og sungið í skemmti- og tónlistardagskrám í hans nafni á Hótel Sögu og víðar, og einnig hefur hún verið í fremur stórum hlutverkum á plötum Óskars Guðnasonar, Harðar G. Ólafssonar, Hafsteins Reykjalín, Gunnars Ó. Kvaran, Bjarna Hafþórs Helgasonar og Snorra Evertssonar. Helga hefur jafnframt sungið raddir á plötum annarra tónlistarmanna s.s. Stefáns Hilmarssonar, Sverris Stormskers, Eyjólfs Kristjánssonar og Ragnars Bjarnasonar svo dæmi séu nefnd.

Helga hefur sungið í fjölmörgum tónlistarsýningum á Hótel Íslandi, Broadway og Hótel Sögu, áður hafa Gunnar Þórðarson og Ómar Ragnarsson verið nefndir í því samhengi en hér má einnig nefna sýningar og hátíðadagskrár helgaðar KK sextettnum, Gullaldarliðinu, Keflavíkurnóttum, Kántrýhátíð á Skagaströnd og áðurnefnda Sæluviku Sauðkrækinga. Þar fyrir utan hefur Helga almennt mikið komið fram og sungið sín þekktustu lög á skemmtunum og tónleikum, t.d. hvers kyns bæjarhátíðum, 17. júní hátíðarhöldum og í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins 1994 og styrktartónleikum auk jólatónleikum sem áður hafa verið nefndir. Þá hefur hún að sjálfsögðu margoft sungið í skemmtiþáttum í útvarpi og sjónvarpi.

Helga Möller

Landsmenn hafa síður en svo gleymt framlagi Helgu í Eurovision keppninni forðum og hafa fyrir löngu tekið Gleðibankann í sátt, hún hefur margsinnis komið fram á uppákomum tengdum keppninni og sungið Gleðibankann ýmist með félögum sínum úr Icy-hópnum (sem kom reyndar ekki aftur saman fyrr en 2005) eða öðrum, og hefur jafnframt verið meðal þátttakenda í undankeppninni hér heima í nokkur skipti, árið 1990 þegar hún söng lagið Eitt lítið lag (ásamt fleirum), árið 1991 þegar hún söng lagið Í dag (ásamt fleirum) og 1992 með lagið Einfalt mál (ásamt Karli Örvarssyni). Hún söng m.a.s. raddir á smáskífu Stjórnarinnar – Eitt lag enn sem hafnaði svo í fjórða sæti keppninnar í Júgóslavíu 1990. Helga hefur einnig verið álitsgjafi í Eurovision þáttunum Alla leið og í dómnefnd keppninnar hér heima sem og reyndar í dómnefnd Landslagsins einnig – þar var hún meðal keppenda árið 1990 í laginu Gluggaást sem hún söng ásamt Ívari Halldórssyni. Og e.t.v. mætti kalla hana drottningu dægurlagakeppnanna til viðbótar við aðra drottningartitla hér að framan því hún hefur sungið í Sæluvikukeppninni á Sauðárkróki sem fyrr er nefnt, dægurlagasamkeppni sem haldin var í tilefni af 100 ára afmæli Hafnar í Hornafirði og sjálfsagt fleiri slíkum keppnum.

Helga hefur stundum tekið eins konar U-beygjur á ferli sínum og t.d. leysti hún Guðrúnu Gunnarsdóttur af í Snörunum árið 1997, kántrískotnu söngtríói sem hún hefur starfað með síðan. Snörurnar hafa bæði sent frá sér plötur og starfaði í samstarfi við Geirmund Valtýsson og sungið á plötum hans, auk þess að koma víðs vegar fram á tónleikum og skemmtunum, þá hefur hún einnig komið fram með hljómsveitinni Klaufum í því samhengi. Helga hefur jafnframt fengist nokkuð við að syngja djass, t.d. með kvartett Reynis Sigurðssonar á Kringlukránni en einnig á RÚREK djasshátíðinni, hún hefur sungið nokkuð með Geir Ólafssyni og Furstunum sem er þó meira í ætt við stórsveitartónlist. Og sem dæmi um fjölbreytnina í verkefnum hennar má nefna að hún hefur sungið á barnaplötum (Barnabros, Tunglið tunglið taktu mig) og sjómannalagaplötum (Á frívaktinni) svo dæmi séu nefnd.

Þrátt fyrir öll þessi söngverkefni hefur Helga mest alla tíð verið í öðrum störfum samhliða þeim – sumum reyndar tónlistartengdum, hún starfaði lengi vel sem flugfreyja (með hléum þó) og verið fararstjóri í golfferðum o.fl. en hún hefur einnig starfað við fjölmiðla, var t.d. annar umsjónarmanna Stundarinnar okkar og hefur starfað við annars konar þáttagerð bæði í útvarpi og sjónvarpi, m.a. við Íslenska listann á Bylgjunni og Stöð 2. Helga hefur sinnt söngkennslu, kennt bæði við Söngskóla Maríu Bjarkar og Rokkskólann og á síðustu árum hefur hún sjálf verið í námi við Háskólann á Bifröst.

Helga sinnir ennþá margvíslegum söngtengdum verkefnum, Þú og ég koma enn reglulega saman og syngja sín þekktustu lög oft í tengslum við diskótengd þemu s.s. á Hinsegin dögum og slíkum hátíðum. Hún hefur einnig alla tíð (og gerir enn) komið fram í einkasamkvæmum eins og brúðkaupum og afmælisveislum, og jafnvel í jólaboðum í heimahúsum – svo samofin er Helga Möller jólahaldi hjá fólki, hún hefur jafnframt sungið nokkuð í jarðarförum.

Helga Möller

Af annars konar verkefnum má nefna að hún hefur sungið inn á auglýsingar, margir muna t.d. eftir Þykkvabæjar auglýsingunni sem hún söng ásamt Agli Ólafssyni en hér má einnig nefna samstarf sem hún átti við japanskan listamann (2016) sem gekk út á að breiða út boðskap um dauðleika mannverunnar – virðingu gagnvart eldri borgurum, með lagi sem hún flutti víða við þýddan texta Þorsteins Eggertssonar um efnið.

Nafn Helgu Möller er samofið sögu íslenskrar tónlistar hvort sem um er að ræða sögu diskósins, jólalaga eða þátttöku Íslands í Eurovision, og fjölmargir hafa reyndar notað nafn hennar hvort sem það er leyfi hennar og vitundar eða ekki – þannig gaf hljómsveitin Breiðbandið á sínum tíma út lag sem heitir Elsku Helga Möller og er á plötu sveitarinnar Léttir á sér (2006), þeir félagar í Memfísmafíunni vísa til hennar í fönkóperunni Diskóeyjunni í laginu Diskóherbergin þar sem Þú og ég eru geymd – þar mælir Prófessorinn (Óttarr Proppé) þessi fleygu orð: „Passaðu að hleypa ekki Möllunni út!“, og þá má geta þess um nokkurt skeið hefur verið starfandi útgáfufélagið Möller records, henni til heiðurs.

Lög Helgu hafa ratað inn á mikinn fjölda safnplatna í gegnum tíðina, bæði jólasafnplötur og almennar safnplötur og er af nógu að taka þar sem mörg laga hennar hafa notið vinsælda hvort sem hún er ein á ferð, með Icy-hópnum, Þú og ég, Geirmundi Valtýssyni eða Snörunum.

Helga er enn í fullu fjöri í söngnum þegar þetta er ritað og ekkert bendir til að hún sé neitt að slá af í þeim málum á næstunni.

Efni á plötum