Gleðigjafar [1] (1991-2003)

Gleðigjafarnir 1994

André Bachmann starfrækti um árabil hljómsveit sem bar nafnið Gleðigjafar (einnig oft kölluð Gleðigjafarnir), sveitin hafði m.a. þá föstu punkta í starfsemi sinni að leika á dansleikjum fyrir fatlaða annars vegar og börn á Barnaspítala Hringsins hins vegar.

Upphaf sveitarinnar má líklega rekja allt til haustsins 1991 en þá mun hún hafa komið fyrst fram, svo virðist sem fyrst um sinn hafi verið um skemmtiflokk sem var með fjölbreytta dagskrá s.s. Jóhannes Kristjánsson eftirhermu og dansparið Sigrúnu Jónsdóttur og Sigurð Hjartarson, hljómsveitin hafi síðan leikið á dansleik á eftir en sveitin lék mikið á Hótel Sögu og viðlíka stöðum og stóð fyrir stórum dansleikjum einnig á landsbyggðinni þegar hún var þar á ferð, sem var reyndar oft en sveitin var um tíma afar virk. Gleðigjafar léku einnig í nokkur skipti á Íslendingaskemmtunum í Bandaríkjunum,

Margir komu við sögu Gleðigjafanna og sveitin var misfjölmenn. André Bachmann var eini fastur punktur hennar en hann var trommuleikari sveitarinnar í upphafi en söng einnig, árið 1992 voru Guðlaugur Sigurðsson hljómborðsleikari [?] og Tryggvi Hübner gítarleikari með honum sem og söngvarar eins og Bjarni Arason, Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason. Jón Ingólfsson [?] og Tryggvi Ingólfsson [?] komu einnig við sögu sveitarinnar 1992 en ári síðar var Carl Möller hljómborðsleikari genginn til liðs við hana og þá voru aðrir liðsmenn Árni Scheving bassa- og harmonikkuleikari og André, söngvarar voru einnig Bjarni Ara og Móeiður Júníusdóttir. Einar Valur Scheving tók við trommunum af André sem þá gat einbeitt sér að söngnum en einnig kom Einar Bragi Bragason saxófónleikari við sögu hennar, Jón Björgvinsson trommuleikari, Þórir Baldursson hljómborðsleikari, Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari og Finnbogi Kjartansson bassaleikari léku einnig með henni það árið svo varla er hægt að segja að Gleðigjafarnir hafi haft fasta liðsskipan.

Gleðigjafar 1999

Árið 1994 voru Gleðigjafar skipaðir þeim Einar Val, Carli, André og Elly en Hjördís Geirsdóttir og Hildur G. Þórhallsdóttir sungu einnig stundum með sveitinni, Helga Möller bættist í þann hóp 1995 en Elly var þá orðin veik af þeim veikindum sem drógu hana til dauða, aðrir meðlimir voru þá auk André, Carl, Finnbogi og Gunnar Jónsson trommuleikari [?].

Næstu árin var Helga Möller aðal söngkona sveitarinnar en óljóst er hverjir skipuðu sveitina að öðru leyti með þeim André, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari kom lítillega við sögu 1997 en síðan urðu Gleðigjafar að dúett þeirra André og Kjartans Baldurssonar [?] um tíma, ýmsar aðrar söngkonur eins og Ingibjörg Jónsdóttir og Sif Guðmundsdóttir sungu með þeim félögum og einnig söngvarinn Harold Burr.

Árið 1999 voru Gleðigjafarnir orðnir fullskipuð sveit að nýju en ekki liggja þó fyrir hverjir skipuðu sveitina með André, Helga Möller söng með sveitinni en hún var nú ekki orðin eins virk og aldamótaárið virðist sveitin ekki einu sinni vera starfandi. Og sveitin starfaði reyndar ekki lengi eftir það, snemma vors 2002 voru meðlimir hennar Árni Scheving, Alfreð Alfreðsson, Carl Möller og Tryggvi Hübner og síðar sama ár voru Gleðigjafarnir einungis tveir, André og Birgir Jóhann Birgisson hljómborðsleikari. Gleðigjafarnir störfuðu eitthvað fram eftir árinu 2003 en svo virðist hún hafa lagt upp laupana eftir rúmlega áratuga starf og fjöldann allan af meðlimum og söngvurum.