Helgi Pálsson (1899-1964)

Helgi Pálsson tónskáld

Helgi Pálsson tónskáld var ekki áberandi en samdi nokkuð af tónlist sem vakti athygli á sínum tíma, segja má að hann hafi flestum verið gleymdur þegar plata með tónlist hans var gefin út á 21. öldinni.

Helgi Pálsson var Norðfirðingur að uppruna, fæddist þar árið 1899 og mun hafa notið fyrst leiðsagnar í tónlist veturinn 1916-17 þegar hann dvaldi veturlangt í Reykjavík en þá nam hann hjá Þórarni Guðmundssyni og Sigfúsi Einarssyni, síðar lærði hann m.a. tónsmíðar hjá Franz Mixa og Victor Urbancic. Helgi var um tíma organisti Norðfjarðarkirkju og þar stjórnaði hann einnig kór sem gekk einfaldlega undir nafninu Kór Helga Pálssonar.

Helgi starfaði lengi sem kaupfélagsstjóri fyrir austan en flutti svo til Reykjavíkur árið 1937, þar starfaði hann sem skrifstofumaður og hafði tónlistina sem áhugamál. Það var ekki fyrr en hann var kominn til Reykjavíkur að hann fór að vekja athygli sem tónskáld en það var eftir Háskólatónleika árið 1942 sem verk eftir hann fyrir píanó og fiðlu var flutt opinberlega, hann samdi töluvert af kammertónlist en einnig kórlög og önnur sönglög sem hlutu svo nokkra athygli þegar þau voru flutt á tónleikum og í útvarpi en Helgi galt þess að hafa tónlistina sem aukabúgrein en ekki að aðalstarfi. Hann var hins vegar töluvert áberandi í félagsstarfi tónlistarmanna, var einn af stofnendum Tónskáldafélags Íslands og var lengi í stjórn félagsins auk þess að gegna þar formennsku um skeið, hann gegndi einnig stjórnarstörfum í Félagi íslenskra tónlistarmanna, STEFi og Bandalagi íslenskra listamanna auk þess sem hann starfaði innan Tónlistarfélagsins í Reykjavík.

Helgi lést vorið 1964, þá nýorðinn sextíu og fimm ára gamall en hann hafði þá átt í veikindum um nokkurra mánaða skeið. Smám saman fennti yfir nafn hans og tónsmíðar en þegar þær Gréta Guðnadóttir fiðluleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari gáfu út plötu árið 2009 með verkum hans undir titlinum Helgi Pálsson fyrir fiðlu og píanó, má segja að hann hafi verið dreginn fram í dagsljósið á nýjan leik. Nokkur verka hans má einnig heyra á fáeinum öðrum plötum í gegnum tíðina.

Efni á plötum