Hemmi Gunn (1946-2013)

Hermann Gunnarsson

Allir þekkja nafn Hermanns Gunnarssonar sem iðulega var kallaður Hemmi Gunn. Þótt flestir tengi nafn hans við fjölmiðla kom hann víða við sögu en hann var upphaflega þekktastur sem íþróttamaður, landsliðsmaður í fótbolta, handbolta og blaki áður en hann gerðist vinsæll íþróttafréttamaður og -lýsandi – þá tók við bæði útvarps- og sjónvarpsþáttaferill sem stóð í áratugi en samhliða því starfaði hann sem skemmtikraftur á ýmsum sviðum og söng m.a. inn á nokkrar plötur, þeirra á meðal var ein sólóplata sem naut töluverðra vinsælda þrátt fyrir að Hermann væri langt frá því að vera söngvari – eins og hann reyndar grínaðist með sjálfur en hann gerði út á hressleika og smitaði flesta með sér hvar sem hann kom. Hermann hafði þó sinn djöful að draga en barátta hans við alkóhólisma var vel kunn enda talaði hann oft opinskátt um þann sjúkdóm.

Hermann Gunnarsson var fæddur haustið 1946 í Reykjavík og var ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að vekja athygli fyrir færni sína í knattspyrnu með Val en hann var rétt tæplega tvítugur kominn í landsliðið. Hann var í hálfatvinnumennsku í Austurríki um skamma hríð en varð fyrir áfalli þar þegar þarlend unnusta hans lét lífið í bílslysi og jafnaði hann sig aldrei eftir það en þau höfðu ætlað að ganga í hjónaband um mánuði síðar, sjálfsagt má tengja baráttu hans við Bakkus að einhverju leyti við það áfall. Hermann lék eftir það heima á Íslandi samhliða störfum hjá Skattstofunni en lagði skóna á hilluna árið 1977 þegar hann hóf störf sem íþróttafréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, hann byrjaði þó að spila aftur síðar. Hemmi var reyndar þá ekki alveg ókunnur fjölmiðlum því hann hafði bæði starfað sem blaðamaður á Vísi og séð um tónlistarþáttinn Lög unga fólksins í Ríkisútvarpinu í kringum 1970.

Hermann ungur að árum

Hermann varð fljótlega mjög vinsæll íþróttafréttamaður, þótti skemmtilegur og orðheppinn í íþróttalýsingum sínum og mörg dæmi voru um að fólk sem hafði engan áhuga á íþróttum hlustaði á lýsingar hans. Þessar vinsældir hans urðu sjálfsagt til þess að Gylfi Ægisson fékk hann til liðs við sig árið 1980 þegar hann var að vinna að plötu sem hafði að geyma hálfgerðar söngleikjaútfærslur hans á ævintýrunum um Rauðhettu og Hans & Grétu en Hermann var þar í hlutverki sögumanns. Platan var unnin í Upptökuheimili Geimsteins í Keflavík þar sem Rúnar Júlíusson réði ríkjum og þeir Rúnar og Gylfi munu hafa fengið Hemma til að syngja eitt lag einnig – Söng veiðimannsins (Fallerí – fallera). Lagið sló í gegn og varð feikivinsælt, og ekki dró úr vinsældum þess þegar það var flutt í áramótaþætti Ríkissjónvarpsins á Gamlárskvöld – Áramótasúpunni en sá þáttur kom í stað Áramótaskaupsins sem féll niður í það skipti vegna verkfalls leikara, í þeim þætti var Hermann jafnframt kynnir en hann átti eftir að vera mikið í því hlutverki næstu áratugina sem og við veislustjórn, bingóstjórnun og slíkum verkefnum.

Þeir Rúnar og Gylfi áttu eftir að nýta starfskrafta Hermanns í ófá skipti næstu árin, Hemmi og Rúnar höfðu þekkst í gegnum fótboltann og urðu góðir vinir og í framhaldinu átti hann eftir að koma við sögu sem sögumaður og söngvari á fleiri plötum Gylfa Ægissonar; Eldfærunum (1981), Í ævintýraleik: Tumi þumall & Jói og baunagrasið (1982) og Ævintýrinu Stígvélaði kötturinn & Kiðlingarnir sjö (1983). Hermann átti reyndar ekki eftir að slá í gegn á þeim plötum með viðlíka hætti og sem veiðimaðurinn í Rauðhettu en hins vegar fengu þeir Rúnar og Gylfi hann til að syngja á plötum Áhafnarinnar á Halastjörnunni en fyrsta plata þeirrar ágætu sveitar hafði komið út árið 1980 og haft m.a. að geyma stórsmellinn Stolt siglir fleyið mitt. Á nýrri plötu sveitarinnar – Eins og skot (1981) söng Hemmi lagið Út á hafið bláa, og sló það strax í gegn rétt eins og Söngur veiðimannsins, ári síðar (1982) kom svo platan Úr kuldanum út og enn sló lag með Hemma í gegn – Út á gólfið. Hann var svo enn á ferð með Áhöfninni á Halastjörnunni sumarið 1983 með lagið Oftast út á sjó sem kom út á plötunni Ég kveðju sendi-herra, sem einnig naut nokkurra vinsælda en Hermann kom nokkuð fram með hljómsveitinni þar sem hún lék opinberlega.

Á forsíðu Vikunnar 1969

Árið 1982 höfðu verið uppi plön um að breiðskífa kæmi út með Hermanni einum en af því varð ekki líklega vegna þess að hann var svo önnum kafinn, t.d. var hann á þeim tíma aðeins farinn að halda utan um skemmtiþætti í útvarpinu og fyrir jólin þetta sama ár kom einnig út afþreyingabók í hans nafni, með þrautum, gátum og öðru – fleiri slíkar bækur áttu eftir að koma út á næstu árum. Það var svo vorið 1984 sem sólóplatan leit dagsins ljós, hún hlaut nafnið Frískur og fjörugur…. og hafði að geyma ellefu lög, flest eftir Gylfa Ægisson en þar var m.a. að finna lögin fjögur sem áður höfðu slegið í gegn á Rauðhettuplötunni og skífum Áhafnarinnar á Halastjörnunni. Hin lögin voru erlend nema gamli einsöngsslagarinn Þú eina hjartans yndið mitt eftir Sigvalda Kaldalóns sem Hemmi söng ásamt Ríó-söngvaranum Helga Péturssyni á plötunni en Helgi hafði einmitt fáeinum árum áður fært annað slíkt lag – Þú ert (eftir Þórarin Guðmundsson) til nútímaútgáfu. Lagið Einn dans við mig varð töluvert vinsælt en það var íslenskun á laginu Ca Plane pour moi sem Belginn Plastic Bertrand (Roger Francois Jouret) hafði slegið í gegn með 1977. Þegar plata Hemma var svo endurútgefin árið 1999 á geisladisk (með einu aukalagi) tók Einn dans við mig að heyrast aftur reglulega og gerir enn en það lag ásamt Út á gólfið eru þau sem lengst hafa lifað í meðförum Hemma Gunn. Frískur og fjörugur… hlaut prýðilegar viðtökur poppskríbenta dagblaðanna en platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu, NT og DV enda voru þeir ekkert að rýna of mikið í sjálfan sönginn heldur skemmtanagildi hennar – Hermann gerði sjálfur grín að sér sem söngvari í blaðaviðtali og sagðist vera undir miklum áhrifum frá Vínardrengjakórnum á plötunni. Þess má geta að plakat fylgdi með plötunni.

Þetta sama sumar (1984) gekk Hermann til liðs við skemmtikraftahópinn Sumargleðina með Ómar Ragnarsson og Ragnar Bjarnason í broddi fylkingar en hann leysti þar Þorgeir Ástvaldsson af hólmi sem haustið á undan hafði tekið við stjórn nýstofnaðrar Rásar 2. Hemmi skemmti því um land allt um sumarið og fylgdi plötu sinni að einhverju leyti eftir með Sumargleðinni, hann átti svo eftir að fylgja Sumargleðinni allt þar til hún hætti störfum haustið 1986, og söng á plötu sem kom út með hópnum árið 1984 en þar söng hann tvö lög, Júlla Jó sem naut nokkurra vinsælda og Oj bjakk úti í garði, reggískotið lag sem vakti litla athygli.

Hermann Gunnarsson 1986

Á næstu árum tók fjölmiðlaferillinn yfir hjá Hemma Gunn, hann skrifaði um tíma fyrir barnablaðið Æskuna og um svipað leyti var hann færður úr íþróttafréttadeild Ríkisútvarpsins yfir í almenna dagskrárgerð, þar byrjaði hann með þáttinn Allt í góðu með Hemma Gunn og svo haustið 1986 þegar Bylgjan tók til starfa færði hann sig þangað og var nú orðinn vinsælasti útvarpsmaður landsin. Það var svo haustið 1987 sem sjónvarpsþátturinn Á tali með Hemma Gunn hóf göngu sína í Ríkissjónvarpinu en Hermann átti eftir að stjórna honum í heilan áratug við miklar vinsældir, þátturinn var skemmtiþáttur í beinni útsendingu með blöndu af spjalli og tónlistaratriðum þar sem hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar kom m.a. við sögu en allt helst tónlistarfólk landsins kom fram í þáttunum sem og erlendir gestir stundum líka. Í þáttunum urðu líka til Ladda-karakterarnir Dengsi og Elsa Lund, og átti Hemmi eftir að taka lagið með þeim báðum á plötum. Á þessum árum hafði hann fyrir nokkru tileinkað sér frasakveðjuna – Verið hress, ekkert stress, bless bless! sem hann varð þekktur fyrir en hann hafði kvatt áhorfendur sína og hlustendur með þessum orðum í lok hvers þáttar um nokkurra ára skeið.

Hemmi var fyrst og fremst fjölmiðlamaður en hann átti reyndar eftir að koma aftur við sögu á fáeinum plötum. Haustið 1993 sendu þeir Rúnar Júl. frá sér barnaplötu sem bar heitið Hemmi Gunn og Rúnni Júll syngja fyrir börnin, en á henni var að finna sextán lög sem þeir sungu ásamt hópi af krökkum en Þórir Baldursson var þeim til aðstoðar. Ári síðar (1994) var Hermann svo í hópi Fjörkálfanna, sem fór um landið á ári fjölskyldunnar og hélt m.a. utan um söngvarakeppni barnablaðsins Æskunnar en Fjörkálfarnir auk Hemma voru þeir Ómar Ragnarsson, Pétur Kristjánsson, Haukur Heiðar Ingólfsson og Vilhjálmur Guðjónsson. Hópurinn sendi frá sér plötu sem hlaut nafnið Fjörkálfar á ferð um landið á ári fjölskyldunnar.

Hermann var áfram nokkuð áberandi sem fjölmiðlamaður þó svo að Á tali með Hemma Gunn hefði runnið sitt skeið árið 1997, hann starfaði á Aðalstöðinni um tíma en var lengst af á Bylgjunni og Stöð 2 með spjall- og skemmtiþætti en sinnti einnig hvers konar hliðartengdum störfum s.s. við veislustjórn, kynningar á ýmis konar hátíðum og slíku, og þess má geta að hann hafði á sínum tíma „vígt“ IKEA á Íslandi svo dæmi séu tekin um verkefni sem hann þurfti að sinna sem vinsæll skemmtikraftur og fjölmiðlamaður, þá starfaði hann einnig um tíma bæði við skemmtana- og fararstjórn hjá ferðaskrifstofum.

Hermann Gunnarsson

Hermann var langtímum í Tælandi síðustu árin, og bjó þar raunar um tíma, lífernið og baráttan við Bakkus hafði nokkuð sett mark á hann og reyndar fóru af stað sögusagnir um andlát hans árið 2002 þegar hann var niðri á Tælandi, hann fékk svo reyndar hjartaáfall skömmu síðar hér heima á Íslandi en jafnaði sig eftir þau veikindi. Það var svo sumarið 2013 sem þær fregnir bárust að Hemmi hefði látist í Tælandi en hann hafði hætt á Bylgjunni skömmu fyrr til að vinna að ævisögu sinni sem hann var þá að skrifa ásamt Orra Páli Ormarssyni blaðamanni. Andlát Hermanns snart þjóðina enda hafði þarna kvatt líklega ástsælasti fjölmiðlamaður Íslands fyrr og síðar, og var hans minnst með ýmsum hætti m.a. með minningarþáttum í sjónvarpi. Ævisagan kom svo út um haustið undir titlinum Hemmi Gunn – sonur þjóðar, en Orri Páll hafði lokið við bókina í samráði við nánustu ættingja Hermanns.

Hér er lífi Hermanns Gunnarsson eðlilega ekki gerð skil nema í stuttu máli og með áherslu á tónlistarferil hans, hann söng inn á fáeinar plötur til viðbótar þeim sem þegar hafa verið nefndar og má t.a.m. geta plötu Gylfa Ægissonar – Sumarplötu sjómannsins (1985) þar sem Hermann söng lagið Komdu með á þjóðhátíð, einnig kom hann við sögu á plötunum Mono partí með hljómsveitinni Mono (2010) og Hjálpin er næst með Styrktarsveitinni (2010) en hún var gefin út til styrktar Mæðradagsnefnd. Þá hafa fyrri útgefin lög Hemma komið út á fjölda safnplatna í gegnum tíðina.

Efni á plötum