Sigurður Guðfinnsson (1963-)

Sigurður Guðfinnsson

Sigurður Guðfinnsson hefur komið nokkuð við sögu íslenskrar tónlistar, einkum sem trúbador en hann hefur einnig starfað með hljómsveitum og sent frá sér plötur.

Sigurður Kristinn Guðfinnsson (Sigurður Kr. Guðfinnsson / Siggi Guðfinns) er fæddur 1963, um tónlistarlegan bakgrunn hans er lítið að finna og virðist hann hafa búið víða um land þótt höfuðborgarsvæðið sé þar mest áberandi. Nafn hans kemur fyrst við sögu á plötu Hallbjarnar Hjartarsonar – Kántrý 6 í Nashville en síðan þá hefur hann sent frá sér fjölda laga og texta.

Sigurður starfaði um tíma á tíunda áratugnum með hljómsveitinni Tvennir tímar og árið 1993 varð hann í þriðja sæti í trúbadorakeppni sem Ölkjallarinn stóð fyrir, eftir það virðist hann mest koma fram sem trúbador en hann hafði fyrst skemmt sem slíkur í kringum 1990, þá starfrækti hann einnig dúettinn Blátt áfram við annan mann um tíu ára skeið.

Árið 1998 sendi Sigurður frá sér sína fyrstu sólóplötu, Svona er lífið! sem innihélt tónlist sem skilgreina mætti sem vísnapopp þar sem Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla) söngkona var meðal gesta en fjölmargir þekktir hljóðfæraleikarar komu einnig við sögu á þeirri plötu undir upptökustjórn Orra Harðarsonar. Sjálfur samdi Sigurður alla tónlistina og einn texta en aðrir textar komu úr ýmsum áttum. Platan sem hlaut þokkalega dóma í Degi var tileinkuð minningu bróður Sigurðar, Einars Óla sem lést af slysförum 1980 og voru tónlistin og textarnir nokkuð litaðir af því, reyndar hafa fleiri áföll dunið á Sigurði því sonur hans, sem einnig heitir Einar Óli hlaut varanlega skaða eftir heilablæðingu og hefur tónlist Sigurðar borið keim af því síðan en hann hefur bæði gefið út tónlist og haldið tónleika til styrktar syni sínum og reyndar öðrum málefnum.

Siggi Guðfinns

Sigurður fylgdi plötunni eitthvað eftir með spilamennsku og um svipað leyti hófst samstarf hans við annan trúbador, Ómar Diðriksson, sumarið 1999 sendu þeir frá sér plötuna Menn segja sögur en því miður finnast litlar upplýsingar um þá útgáfu, og er reyndar hér með óskað eftir upplýsingum um hana.

Nokkur tími leið þar til næst heyrðist af Sigurði en það var árið 2009 þegar hann kom við sögu sem laga- og textahöfundur nokkurra laga á plötu Ómars – Sögur af fólki. Ári síðar var hann maðurinn á bak við styrktarsamtökin og hljómsveitina Styrktarsveitina sem sendi frá sér plötuna „Hjálpin er næst“: Til styrktar Mæðrastyrksnefnd en á henni fékk hann fjölda þekktra tónlistarmanna til að ljá verkefninu lið með söng og hljóðfæraleik, þarna voru m.a. söngvarar eins og Páll Rósinkranz, Pálmi Gunnarsson, Sigurjón Brink og Snorri Snorrason auk Sigurðar sjálfs en einnig kom Hermann Gunnarsson (Hemmi Gunn) þarna við sögu sem kynnir og söngvari. Sigurður samdi sjálfur sex af níu lögum plötunnar.

Síðustu árin hefur Sigurður verið að senda frá sér lög og staðið fyrir tónleikahaldi tengt syninum Einari Óla, og árið 2018 sendi hann frá sér plötuna Með trú um að allt fari Á besta veg en hún var gefin út til styrktar Einari Óla. Um er að ræða tólf laga plata með lögum eftir Sigurð en flesta textana samdi Kristján Hreinsson, fjölmargt tónlistarfólk leggur honum lið á plötunni.

Efni á plötum