Afmælisbörn 26. janúar 2022

Sigurður Guðfinnsson

Fjögur afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar á þessum degi:

Ingibjörg Lárusdóttir söngkona, lögfræðingur, flugfreyja og trompetleikari er fimmtíu og tveggja ára gömul í dag. Hún leikur reyndar á ýmis önnur hljóðfæri og hefur gefið út jólaplötu ásamt systrum sínum (Þórunni og Dísellu) en þær eru dætur Lárusar Sveinssonar trompetleikara.

Siggi Guðfinns eða Sigurður Kristinn Guðfinnsson á fimmtíu og níu ára afmæli í dag. Siggi Guðfinns starfaði hér fyrrum mest með hljómsveitum en hefur verið meira í hlutverki trúbadors hin síðari ár, hann hefur sent frá sér nokkrar plötur í eigin nafni og í félagi við aðra tónlistarmenn.

Þá á Halldór Sölvi Hrafnsson gítarleikari einnig afmæli á þessum degi en hann er fimmtíu og þriggja ára gamall. Halldór hefur leikið með hljómsveitum á borð við Soma, sem þekktust var fyrir lagið Grandi Vogar II, en hann hefur einnig leikið með sveitum eins og Glimmer og Yesminis pestis.

Og að lokum er hér nefnd Gunnbjörg Óladóttir söngkona en hún er fimmtíu og átta ára gömul á þessum degi. Gunnbjörg var þekkt söngkona innan trúarlega tónlistargeirans, var öflug í starfi Samhjálpar og söng inn á nokkrar plötur á sínum tíma, Hún sendi meðal annars frá sér sólóplötuna Þú ert mér nær, árið 1986.

Vissir þú að tónskáldið Skúli Halldórsson átti Síamskött sem hann kallaði Símon í Hól (sem var söngvari og faðir Guðrúnar Á. Símonar)?