Gunnbjörg Óladóttir (1964-)

Gunnbjörg Óladóttir

Gunnbjörg Óladóttir var á sínum yngri árum áberandi í starfi Samhjálpar þar sem hún kom oft fram á samkomum með söng og gítarleik, hún söng inn á plötur tengt starfinu og þar á meðal má finna fyrstu ábreiðu-útgáfuna af laginu Hallelujah eftir Leonard Cohen en í dag telst fólk víst ekki fullgilt tónlistarfólk fyrr en það hefur gefið út eigin útgáfu af þessu annars ágæta lagi.

Gunnbjörg er fædd 1964 og tók virkan þátt í starfi Samhjálpar frá unglingsaldri en tónlistarflutningur var þar stór hluti og spilaði hún þar á gítar auk þess að syngja, hún var einnig í Fíladelfíukórnum frá tólf ára aldri. Foreldrar hennar og bræður voru sömuleiðis virkir í starfinu en faðir hennar, Óli Ágústsson var einn af fyrstu rokksöngvurum Íslandssögunnar og skemmti oft undir nafninu Óli Presley eða Óli rokkari upp úr miðjum sjötta áratugarins.

Árið 1984 sendi fjölskyldan, þ.e. Óli, Gunnbjörg og þrír bræður hennar frá sér plötu undir nafninu Fjölskyldan fimm, hún bar titilinn Heyr þú minn söng og var gefin út af Samhjálp, sem Óli veitti forstöðu um árabil. Stór hluti Samhjálpar-starfið var að miklu leyti fjármagnað með útgáfu platna sem þessarar og seldust þær margar hverjar þess vegna í bílförmum þótt þær skoruðu e.t.v. ekki hátt á vinsældalistum. Gunnbjörg söng flest laganna á plötunni en þau komu úr ýmsum áttum við texta Óla, Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) mun hafa haft yfirumsjón með upptökunum og tónlistarflutningnum.

Tveimur árum kom út önnur plata á vegum Samhjálpar undir sömu forskrift, lög úr ýmsum áttum með textum Óla, sem höfðu trúarlegar skírskotanir. Þessi plata var gefin út í nafni Gunnbjargar undir titlinum Þú ert mér nær, það var Björn Thoroddsen gítarleikari sem stjórnaði upptökum og útsetningum (samdi einnig tvö laganna) en hann fékk sér til aðstoðar fjöldann allan af þekktum tónlistarmönnum.

Gunnbjörg og Leonard Cohen

Platan sem slík olli ekki neinum straumhvörfum í tónlistarsögunni nema að því leyti að meðal laga á henni var lagið Hallelujah eftir Leonard Cohen með íslenskum texta Óla Ágústssonar og bar titilinn Davíð og Batseba. Þetta var í fyrsta sinn sem breitt var yfir lagið en síðan þá hefur það verið gert margsinnis hér á landi sem annars staðar, þekktasta útgáfa þess er þó án nokkurs vafa með Jeff Buckley. Þegar Leonard Cohen kom hingað til lands til tónleikahalds árið 1988 færði Gunnbjörg honum eintak af plötu sinni að gjöf. Gunnbjörg starfaði aðeins við útvarp og sjónvarp eftir útgáfu plötunnar en nam síðan guðfræði og lauk síðar doktorsprófi í trúarbragðafræðum í Edinborg og hefur fengist við ýmislegt síðan.

Gunnbjörg er löngu hætt að starfa fyrir Samhjálp, var þar í söngtríóinu Beiskar jurtir upp úr 1990 og kom nokkuð við sögu á safnplötu sem kom út á vegum þeirra árið 1992 og bar heitið Allt megnar þú, einhver þeirra laga voru líklega endurútgáfur af fyrri plötum en hún var líklega alveg búin að draga sig úr því samfélagi fyrir aldamótin.

Efni á plötum