
Helga Ingólfsdóttir
Sjö afmælisbörn koma við sögu á þessum merkisdegi:
Ingólfur Steinsson tónlistarmaður frá Seyðisfirði er sjötíu og eins árs gamall í dag, Ingólfur gerði garðinn frægan með Þokkabót á sínum tíma en hefur einnig leikið með sveitum eins og Lubbum, Stemmu, Krás, The Icelandic duo og Bræðrabandinu auk þess að hafa gefið út sólóplötur.
Sveinbjörn Grétarsson (Bjössi Greifi) gítarleikari Greifanna frá Húsavík fagnar fimmtíu og fimm ára afmæli á þessum degi. Bjössi er auðvitað þekktastur fyrir framlag sitt með Greifunum (áður Special treatment) en hann hefur einnig unnið með eigið efni og starfað sem trúbador.
Ragnheiður Eiríksdóttir eða Heiða í Unun eins og flestir þekkja hana er fimmtíu og eins árs gömul í dag. Hún hefur komið víða við í tónlistinni, var í Unun, Heiðu og heiðingjunum, Hellvar, Dys og fleiri sveitum og hefur einnig komið fram undir nafninu Heiða trúbador. Hún hefur sungið í Eurovision undankeppnum og gefið út sólóplötur.
Snæbjörn Ragnarsson söngvari, bassaleikari, gítarleikari, rithöfundur og sjálfsagt eitthvað meira, er fjörutíu og fjögurra ára gamall, hann er í hljómsveitunum Skálmöld og Ljótu hálfvitunum en hefur einnig verið í sveitum eins og Innvortis, Kroniku, Melrökkum og fleiri sveitum. Hann hefur verið viðloðandi leikhústónlist, verið framarlega í textagerð og var í Pollapönksgenginu sem fór í Eurovision fyrir hönd Íslands árið 2014.
Upptökumaðurinn Haffi Tempó eða Hafþór Svanberg Karlsson frá Grindavík er fjörutíu og sex ára í dag. Hafþór hefur rekið hljóðver og komið að ógrynni útgefinna platna sem upptökumaður, hljóðblandari, hljóðfæraleikari og margt annað en hann hefur einnig verið m.a. í hljómsveitinni Blístró (Blístrandi æðarkollur / Ljósbrot) þar sem hann spilaði á bassa.
Helga Ingólfsdóttir semballeikari (f. 1942) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést árið 2009. Hún var í forsvari fyrir Sumartónleika í Skálholtskirkju, lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og gaf út fjölmargar plötur bæði ein sem og í samstarfi við annað tónlistarfólk. Helga hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2005.
Þá hefði dægurlagasöngvarinn Ólafur Briem (1933-2006) átt afmæli þennan dag. Ólafur átti fremur stuttan söngferil, hann söng í Vetrargarðinum um tíma og með KK-sextettnum auk þess að syngja inn á fáeinar plötur ásamt Öddu Örnólfs um miðjan sjötta áratuginn eða um það leyti er rokkið var að hefja innreið sína. Eftir það sneri Ólafur sér að öðrum verkefnum og lagði sönginn á hilluna.
Vissir þú að Guðmunda Elíasdóttir óperusöngkona söng þrívegis í Hvíta húsinu í Washington á söngferli sínum?