Ólafur Briem (1933-2006)

Ólafur Briem

Ólafur Briem var kunnur dægurlagasöngvari um miðjan sjötta áratug síðustu aldar en kaus að feta aðrar leiðir svo söngferill hans varð í styttra lagi.

Eggert Ólafur Ólafsson Briem (f. 1933) var tvítugur þegar hann hóf að koma fram ásamt fleiri ungum og efnilegum söngvurum sumarið 1953 í Vetrargarðinum í Vatnsmýrartívolíinu. Fljótlega upp úr því kom hann fram á sams konar tónleikum í Austurbæjarbíói þar sem KK-sextett lék undir og þar með var boltinn farinn að rúlla enda fékk hann hvarvetna góða dóma fyrir söng sinn.

Ólafur átti eftir að syngja margoft það sem eftir var ársins 1953, og m.a. með Öddu Örnólfs (Arnbjörgu Auði Örnólfsdóttur) en þau störfuðu nokkuð saman í framhaldinu. Og það fór svo að þrjár plötur (tveggja laga 78 sn. plötur) komu út með söng þeirra saman, Nótt í Atlavík og Bella símamær voru meðal þeirra og nutu nokkurra vinsælda. Lagið Indæl er æskutíð var einnig meðal laga sem þau sungu en um sama leyti gaf Haukur Morthens út sama lag með öðrum texta (Bjössi á mjólkurbílnum) sem varð miklu þekktari útgáfa.

Söngferill Ólafs varð í raun ekki lengri þótt hann hefði alla möguleika til þess, hann annaðist dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu um svipað leyti þar sem hann sá um óskalagaþátt en síðan hætti hann að mestu tónlistariðkun, fór til London og nam  þar verslunarfræði (hafði áður lokið verslunarprófi hér heima) og hélt að því loknu til starfa í sínu fagi. Hann varð síðar kunnur fyrir störfn sín fyrir Lionshreyfinguna.

Ólafur lést árið 2006 eftir nokkur veikindi.

Efni á plötum