Guðmunda Elíasdóttir (1920-2015)

Guðmunda Elíasdóttir ásamt Stefáni Íslandi

Guðmunda Elíasdóttir ásamt Stefáni Íslandi

Leið óperusöngkonunnar Guðmundu Elíasdóttur frá Vestfjörðum til Vesturheims og aftur heim (með viðkomu á ýmsum forvitnilegum áfangastöðum) er langt frá því að vera hefðbundin en viðburðarríkur söngferill hennar, skin og skúrir í einkalífi og langlífi aí bókstaflegum og tónlistarlegum skilningi einkenna lífshlaup hennar og hefur m.a. verið skráð í eina athyglisverðustu ævisögu Íslandssögunnar.

Guðmundar (Jakobína) Elíasdóttir (f. 1920) var skipstjóradóttir frá Bolungarvík en fluttist fljótlega til Ísafjarðar, og þaðan síðar til Reykjavíkur tólf ára gömul. Oft var hart í ári og þess má geta að systkini (meðtalin hálfsystkini) Guðmundu voru fimmtán talsins þótt ekki byggju þau öll saman. Hún hafði misst föður sinn í sjóslysi, missti vinstra auga í slysi og gekk eftir það með glerauga, þannig að hún átti afar erfiða æsku.

Eiginlegt tónlistarnám Guðmundu hófst þegar hún nam píanóleik hjá Erlu Benediktsson en þegar hún varð sautján ára fluttist hún til Kaupmannahafnar 1937 til að nema þar söng en henni hafði verið bent á að hún hefði óvenju fallega rödd, fram að því hafði hún ekki haft mikinn áhuga á söng eða tónlist almennt. Samhliða söngnáminu (sem hún stundaði hjá Dóru Sigurðsson) byrjaði hún í hjúkrunarfræðinámi en hætti því fljótlega til að einbeita sér að söngnum, einnig lærði hún meira á píanó.

Fyrst nam Guðmunda söng hjá söngkennurum og lauk burtfararprófi 1939 en vorið 1940 gekk hún í Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn í framhaldsnám. Þegar Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn frétti að þessi íslenska stúlka væri að nema söng í borginni fékk það Guðmundu til að syngja opinberlega á samkomum félagsins, oftast einsöng með kór Íslendingafélagsins.

Guðmunda giftist haustið 1943 dönskum manni og eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk tveimur árum síðar fluttust þau hjónakornin til Íslands og hér heima hélt hún sína fyrstu einsöngstónleika, í kjölfarið söng hún víðs vegar um Reykjavík og nágrenni. Þau hjónin bjuggu hérlendis um skeið en síðar fluttist hún til Parísar 1949 eftir stutta viðdvöl í Kaupmannahöfn, og þar vann hún að því með söngkennara sínum að dýpka rödd sína úr sópran í mezzósópran. Í París dvaldist hún um nokkurra mánaða tímabil en kom síðan aftur heim til Íslands. Hér heima söng hún reglulega opinberlega og stýrði Drengjakór Fríkirkjusafnaðarins 1951-53, auk þess hafði hún frumkvæði að því að setja á svið óperuna Miðilinn, sem hlaut ágætar viðtökur þótt ekki yrðu sýningarnar margar.

Staðið hafði til að þau hjónin færu til Kanada 1951 en af því varð ekki, þau fóru hins vegar til New York sumarið 1953 þar sem þau bjuggu við bágan hag þar til Guðmunda fékk starf við litla óperu, Broadway Grand Opera Association um haustið, þá fór hún einnig í söngför um Íslendingaslóðir í Kanada þar sem hún söng blöndu íslenskra einsöngslaga og aría úr þekktum óperum. Guðmunda fór aftur í söngferðalag um þessar slóðir sumarið 1954 og hélt reyndar víða tónleika, þá tók hún upp tólf laga plötu (tíu tommu) en það var fyrsta platan sem Íslendingur tók upp í Bandaríkjunum og um leið fyrsta 33 snúninga plata sem Íslendingur söng inn á. Á plötunni söng hún íslensk einsöngslög við undirleik Magnúsar Blöndal Jóhannssonar, lög sem hún hafði flutt á þessu söngferðalagi sínu. Plötunni var einkum dreift í Bandaríkjunum og Kanada, helst í Íslendingabyggðunum, hún var gefin út af Fálkanum.

Sumarið 1955 var Guðmunda ráðin til kirkjusamtakanna Federation of church en þau samtök starfræktu m.a. útvarps- og sjónvarpsstöðvar sem sendu síðan út söng hennar. Að mestu var þarna um að ræða kristilega tónlist, þar sem hún kom fram ýmist með kórum og hljómsveitum. Umboðsmaður hennar hafði lagt hart að henni að taka hvers kyns verkefnum sem byðust svo sem auglýsingum og öðru tengdu en hún vildi ekki heyra á það minnst og hélt sig æ við það, enn fremur ákvað hún að halda íslensku nafni sínu og breytti því ekki þrátt fyrir pressu umboðsmannsins.

Hróður Guðmundu barst víða og svo fór fyrir jólin 1955 að henni var boðið að syngja við undirleik lúðrasveitar við Hvíta húsið þegar varaforseti Bandaríkjanna, Richard Nixon sem þarna leysti af Eisenhower forseta (sem hafði nokkrum dögum fyrr fengið hjartaáfall), kveikti á jólatrénu við Hvíta húsið í beinni útsendingu um öll Bandaríkin og að viðstöddum um hundrað þúsund manns. Guðmunda átti síðar eftir að syngja þrívegis í Hvíta húsinu, þar af einu sinni áður en árið 1955 var úti.

Haustið 1956 bauðst henni að syngja á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem þá var tiltölulega ný sveit, í Il Trovatore, alls voru þetta fimm tónleikar. Því fór hún heim til Íslands í ársbyrjun 1957 en um það leyti stóð hún í skilnaði við hinn danska eiginmann sinn. Á Íslandi hóf hún að syngja með Sinfóníunni sem fyrr segir en einnig í kabarett með Félagi íslenskra einsöngvara, hún fór einnig ásamt nokkrum óperusöngvurum um sumarið til að syngja á héraðsmótum víðs vegar um landið.

Um haustið fór Guðmunda aftur til Bandaríkjanna og hafði nú minna að gera í söngnum, hún vann því önnur margvísleg störf með tónlistinni en svo fór að fjárhagurinn leyfði það ekki lengur og kom hún heim til Íslands um vorið 1958. Hér var henni boðið að taka þátt í óperunni Carmen í tónleikaformi ásamt öðrum söngvurum og Sinfóníuhljómsveit Íslands og í framhaldinu uppfærslu á vegum Þjóðleikhússins á Kysstu mig Kata, kabarett sýningar og önnur verkefni biðu hennar en þá kom mikið áfall, raddleysi vegna álags og kvefs hrjáði hana og hún náði ekki að vinna á því. Algjör uppgjöf náði tökum á henni og vonleysi og þunglyndi urðu hennar fylgifiskar næstu misserin, hún flæktist aftur vestur um haf og þaðan til Danmerkur þar sem hún gerði tilraun til að sættast við fyrrverandi eiginmann sinn. Sú tilraun dugði þó skammt, hún hóf að kenna söng og vann samhliða því önnur störf, rak gerviblómaverksmiðju sem gekk ekki upp þannig að fjárhagurinn var rokkandi. Auk þess að eiga í þunglyndi drakk hún illa á þessum árum, átti í nokkrum misheppnuðum ástarsamböndum og vann ýmis tilfallandi störf en söng lítið sem ekkert.

Þannig lá lífið fyrir Guðmundu þar til hún gafst upp á lífinu í Danmörku og flutti heim til Íslands haustið 1968, þá búin að vera í útlegð í um áratug. Hér heima átti hún alltaf afdrep og fljótlega brosti lífið við henni á nýjan leik. Hún fór fljótlega að kenna söng með öðrum tilfallandi verkefnum og þegar henni bauðst að syngja í Fiðlaranum á þakinu sem Þjóðleikhúsið setti á fjalirnar vorið eftir (1969) sló hún til. Ástir tókust með henni og Sverri Kristjánssyni sagnfræðingi, þau fluttu upp á Akranes þar sem henni bauðst að kenna söng, þar stýrði Guðmunda Karlakór Akraness og einnig kirkjukór bæjarins. Þau bjuggu í nokkur ár á Akranesi en þá bauðst henni að taka að sér söngkennarastarf við Leiklistarskóla Íslands haustið 1975, um svipað leyti tók hún að sér hlutverk í söngleiknum Sporvagninn Girnd í Þjóðleikhúsinu.

Sverrir féll frá snemma árs 1977 og var Guðmunda lengi að ná sér eftir fráfall hans, 1981 komu út endurminningar Guðmundu, Lífsjátning, skráð af Ingólfi Margeirssyni og ári síðar kom út samnefnd plata á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar en hún hafði að geyma upptökur, mest úr ranni Ríkisútvarpsins frá tíu ára tímabili,1947-56. Bókin naut mikilla vinsælda, seldist vel, var prentuð að minnsta kosti þrisvar sinnum næstu árin og var síðan endurútgefin löngu síðar. Hún þótti opinská og þykir vera með betur skrifuðum endurminningabókum sem komið hafa út á Íslandi, hún var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Platan hlaut einnig góða dóma í Morgunblaðinu.

Sumarið 1983 fór Guðmunda til Austur-Þýskalands í endurmenntunarnám og í framhaldinu í raddþjálfun til Danmerkur, en söngröddin hafði komið aftur nokkru eftir raddmissinn og hún hafði eitthvað sungið síðustu misserin. Smám saman lagði hún hins vegar sönginn til hliðar eftir því sem árin lögðust yfir og í staðinn fór henni bregða fyrir í kvikmyndum, hún lék til að mynda lítil hlutverk í Hrafninn flýgur og Mýrinni og stærra í Skýjaborginni, auk annarra hlutverka.
1997 kom út platan Endurómur á vegum Smekkleysu en á henni var að finna úrval upptakna frá Ríkisútvarpinu (flestar frá sjötta áratugnum en margar þeirra höfðu aldrei komið út) með söng Guðmundu, Kristinn Hallsson og Halldór Hansen rituðu inngang í bæklingi. Endurómur fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Guðmunda kenndi söng lengi sem fyrr segir og hefur kennt ýmsu þekktu söngfólki s.s. Ingveldi Ýr Jónsdóttur, systrunum Móeiði og Ásgerði Júníusdætrum, Eddu Heiðrúnu Backman og Ingu Stefánsdóttur, í raun var hún að kenna fram yfir nírætt og var síður en svo dauð úr öllum æðum komin á tíræðisaldurinn, til dæmis var hún á framboðslista Lýðræðisvaktarinnar fyrir alþingiskosningarnar vorið 2013, níutíu og þriggja ára gömul.

Sem fyrr segir kom söngur Guðmundu út á nokkrum hljómplötum og mikið er til varðveitt sem enn er óútgefið og verður ef til vill gefið út er fram í sækir, en hún söng einnig á plötum annarra og til dæmis syngur hún á 78 snúninga plötu Tónlistarfélagskórsins sem út kom 1949 (hún hafði sungið einsöng með kórnum á ferðalagi hans um Norðurlöndin) en einnig bregður henni fyrir á fjögurra plötu safni með söng Stefáns Íslandi, Áfram veginn, sem út kom 1987.
Guðmunda hlaut ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir störf sín á tónlistarsviðinu, hún hlaut meðal annars riddarakross fyrir störf að sönglist, og heiðursverðlaun listamanna 2006 en slík laun hljóta listamenn til æviloka.

Guðmunda Elíasdóttir lést sumarið 2015, þá á nítugasta og sjötta aldursári.

Efni á plötum