Guðjón Pálsson (1929-2014)

Guðjón Pálsson og Sigfús Halldórsson1

Guðjón Pálsson við píanóið ásamt Sigfúsi Halldórssyni

Ferill Guðjóns Pálssonar píanóleikara frá Vestmannaeyjum telst vægast sagt margbreytilegur og spannar í raun meira og minna alla hans ævi, hann hóf snemma að leika á píanó, var í hljómsveitum, starfrækti hljómsveitir, var undirleikari, organisti, kórastjórnandi og tónlistarkennari víða um land.

Guðjón fæddist í Vestmannaeyjum 1929, hann var farinn að leika á píanó um tólf ára aldur, var sjálfmenntaður á því sviði og var kominn í sína fyrstu hljómsveit rétt um fermingu, sem píanó- og harmonikkuleikari (síðar átti hann einnig eftir að leika á víbrafón í mörgum sveitum).

Í þessari bernskusveit voru drengir á hans reki sem kölluðu sig Tunnubandið og áttu þeir félagar eftir að spila nokkuð saman síðar undir stjórn Guðjóns, hljómsveitarstjóri Tunnubandsins var hins vegar Marinó Guðmundsson.

Fljótlega eftir gagnfræðipróf fór Guðjón til Reykjavíkur til að mennta sig í tónlistinni og lærði í fyrstu hjá Árna Kristjánssyni tónskáldi, hann var fljótlega kominn í Hljómsveit Jóhanns Gunnars Halldórssonar og síðar Hljómsveit Jan Morávek og Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar, aukinheldur lék hann stundum undir í danskennslu ef svo bar undir. Hann ílengdist ekki í höfuðborginni að sinni, fór heim til Vestmannaeyja haustið 1949 (eftir að hafa verið tvö sumur þar á undan við ballspilamennsku í síldarbænum Siglufirði), í Eyjum fór hann að kenna á píanó og lék með HG-sextettnum.

Ekki staldraði Guðjón lengi við á heimaslóðum heldur fór aftur til Reykjavíkur og starfaði þar næstu tvö árin (1951-53) með hljómsveitum Braga Hlíðberg, Bjarna Böðvarssonar og Eyþórs Þorlákssonar, eitthvað var rótleysið að hrjá hann á þessum árum en haustið 1953 réði hann sig aftur á heimaslóðir, varð þá skólastjóri Tónlistarskólans í Vestmannaeyjum og síðar organisti við Landakirkju, stýrði Karlakór Vestmannaeyja um tíma og stofnaði nú loksins eigin sveit 1954, Hljómsveit Guðjóns Pálssonar sem átti eftir að starfa í áratugi, reyndar með fjölbreytilegri meðlimaskipan og á ýmsum stöðum á landinu.

Hljómsveit Guðjóns Pálssonar (2)

Hljómsveit Guðjóns Pálssonar

Sveitin naut mikilla vinsælda á böllum hvort heldur sem var á heimaslóðum eða uppi á landi og söngvari hennar, Erling Ágústsson varð landsþekktur þegar hann kyrjaði slagarana Oft er fjör í Eyjum, Þú ert ungur enn og Við gefumst aldrei upp, sem urðu landsþekktir þegar þeir komu út á plötum 1960 og 61, reyndar lék Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar undir á plötunni en Guðjón var á píanóinu. Guðjón hafði einnig leikið á plötu Hauks Morthens, sem hafði að geyma lagið Borg mín borg.

Guðjón fluttist aftur til Reykjavíkur 1960, lék þá með ýmsum sveitum eins og Hljómsveit Jose Riba, Hljómsveit Björns R. Einarssonar og Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar auk þess að starfrækja eigin sveit áfram frá og með 1964, með breyttri liðsskipan. Einnig átti hann eftir að leika ásamt Jónasi Þóri Dagbjartssyni í hádeginu á Hótel Borg í mörg ár. Á þessum árum var Guðjón í stjórn Félags íslenskra hljómlistarmanna.

1968 fluttist Guðjón upp í Borgarnes, gegndi þar svipuðu hlutverki og hann hafði gert í Eyjum, kenndi tónlist, var organisti og var með nýja sveit undir eigin nafni þar. Hann var í Borgarnesi í níu ár en þá var förinni heitið til Siglufjarðar (1977) þar sem hann hafði einmitt verið við spilamennsku á síldarárunum, á Siglufirði voru störf hans með svipuðum hætti en auk þess stýrði hann nokkrum kórum á staðnum, kirkjukór Siglufjarðar, barnakór og Karlakórnum Vísi. Norðanlands hófst samstarf hans við söngvarann Jóhann Má Jóhannsson en það átti eftir að standa í mörg ár, einnig lék hann undir kórsöng og öðrum söng á ýmsum almennum tónlistarsamkomum um árabil, svo sem hjá Lillukórnum, Mánakórnum, Galgopunum og fleirum. Guðjón starfaði á Siglufirði til 1981 en flutti sig þá til Hvammstanga, og enn var tónlistarkennsla, kórastjórn, undirleikur og önnur tónlistarstörf viðfangsefni hans, hann lék til að mynda með Djasshljómsveit Hauks Ágústssonar og stýrði Samkór Hvammstanga á meðan dvöl hans stóð þar.

Sumarið 1989 var förinni heitið til Akureyrar og ól Guðjón manninn síðan á Eyjafjarðarsvæðinu til dauðadags, meðal annars í Hrísey. Þar var hann eins og annars staðar vinsæll undirleikari hjá kórum og sönghópum, lék með djass- og dixielandssveitum og stýrði kórum og öðrum sönghópum, hann stjórnað t.a.m. kór eldri borgara á Akureyri. Guðjón lést 2014

Guðjón lék inn á ýmsar plötur í gegnum tíðina auk þeirra sem nefndar hafa verið hér að ofan, má þar nefna plötur Lillukórsins, Jóhanns Más Jóhannssonar, safnplötunnar Aldarminning Davíðs Stefánssonar, svo fáeinar séu nefndar.

Sjá einnig Hljómsveit Guðjóns Pálssonar