Hljómsveit Guðjóns Pálssonar (1954-84)

Hljómsveit Guðjóns Pálssonar (2)

Hljómsveit Guðjóns Pálssonar

Hljómsveit Guðjóns Pálssonar var starfrækt í Vestmannaeyjum og víðar um árabil, eftir því sem sumar heimildir segja í allt að þrjátíu til fjörtíu ár.

Sveitin var að öllum líkindum stofnuð 1954 (þrátt fyrir að ein heimildin segi hana hafa verið starfandi milli 1940 og 50), af Guðjóni Pálssyni píanó- og harmonikkuleikara en hann var þá organisti og tónlistakennari í Vestmannaeyjum.

Aðrir stofnmeðlimir sveitarinnar voru Guðni A. Hermansen saxófónleikari (d. 1989), Gísli Bryngeirsson klarinettuleikari, Aðalsteinn Brynjúlfsson kontrabassaleikari og Sigurður Guðmundsson trommuleikari. Erling Ágústsson var söngvari sveitarinnar á þessum fyrstu árum en þá tíðkaðist að lausráða söngvara, Haukur Morthens söng t.a.m. með sveitinni á þjóðhátíð Vestmannaeyinga 1954 og reyndar eitthvað meira. Meðal annarra sem komu við sögu sveitarinnar á þessum Vestmannaeyja-árum voru Höskuldur Þórhallsson trompetleikari og Viðar Alfreðsson trompetleikari.

Fyrstu árin starfaði sveitin einkum á heimaslóðum í Eyjum en síðan fór hún að koma reglulega upp á meginlandið og spilaði víða um land, síðar var hún fastráðin á hinu ýmsu skemmtistöðum Reykjavíkurborgar, s.s. Hótel Borg og víðar. Síðar kom Valgeir Sveinbjörnsson gítarleikari í sveitina í stað Gísla en Gísli lék þó stundum með sveitinni eftir það.

Eins og fyrr segir voru söngvarar lausráðnir á þessum tíma og margir slíkir komu því við sögu hljómsveitar Guðjóns, auk þeirra Erlings og Hauks má nefna Sigurgeir Scheving, Hjördísi Geirs og Svein Tómasson. Sveitin spilaði stundum á þjóðhátíð, síðast 1960. Eftir það starfaði hljómsveit Guðjóns í Reykjavík.
Hljómsveitin kom stundum fram í útvarpinu á Reykjavíkurárum sínum og varð landsþekkt fyrir vikið en hún starfaði í borginni til 1967, yfirleitt var spilað flest kvöld vikunnar.

Hljómsveit Guðjóns Pálssonar og Haukur Morthens

Hljómsveit Guðjóns með Hauki Morthens söngvara

Ýmsir hljóðfæraleikarar komu við sögu hennar á Reykjavíkur-árunum, t.d. léku Björn R. Einarsson básúnuleikari með henni um tíma sem og Eyþór Þorláksson gítarleikari og um leið þáverandi eiginkona þess síðarnefnda, Sigurbjörg Sveinsdóttir (Didda Sveins) söngkona. Aðrir söngvarar voru Janis Carol, Guðrún Frederiksen og Óðinn Valdimarsson svo dæmi séu tekin. Ómar Axelsson hafði ennfremur tekið við bassanum af Aðalsteini og Guðjón Ingi Sigurðsson við trommunum af Sigurði. Kristinn Svavarsson saxófónleikari spilaði um tíma með sveitinni, þá kornungur.

Hljómsveit Guðjóns hvarf að mestu af sjónarsviðinu haustið 1967, fór þá líklega aftur heim til Vestmannaeyja en henni skaut upp kollinum á þjóðhátíð 1984, að öllum líkindum hafði hún þá verið starfandi með hléum. Undir það síðasta var sveitin skipuð þeim Guðjóni, Sigurði Guðmundssyni trommuleikara, Ólafi Jónssyni saxófónleikara, Guðmundi [?] kontrabassaleikara og Erling Ágústssyni söngvara.

Í raun er um margar sveitir að ræða undir stjórn Guðjóns, starfandi um lengri og skemmri tíma á ýmsum stöðum þar sem hann bjó og starfaði.