Hljómsveit Gissurar Geirssonar (1970-81)

Hljómsveit Gissurar Geirssonar[2]

Hljómsveit Gissurar Geirssonar

Hljómsveit Gissurar Geirssonar frá Selfossi var ein aðal sveitaballasveit áttunda áratugarins en Suðurland var aðalvettvangur sveitarinnar.

Sveitin var stofnuð haustið 1970 og voru meðlimir hennar yfirleitt þrír talsins en einnig komu söngvarar við sögu hennar, lengst af líklega Hjördís Geirs, systir hljómsveitarstjórans sem söng með þeim með hléum á árunum 1974-80. Ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra söngvara.

Upprunalegir meðlimir sveitarinnar voru þeir Gissur sem lék á harmonikku, hljómborð og saxófón, Jón Guðjónsson trommuleikari og Sigfús Ólafsson gítarleikari, en einnig mun Ísólfur Gylfi Pálmason (síðar alþingismaður) hafa verið í sveitinni um tíma á fyrstu árum hennar. Ekki finnast upplýsingar um á hvaða hljóðfæri hann lék.

Um miðjan áratuginn höfðu orðið mannabreytingar í hljómsveit Gissurar, þá hafði Þór Nielsen gítarleikari komið inn í stað Sigfús og Skúli Einarsson trommuleikari var þá einnig kominn í hana.

Sumarið 1979 gekk Helgi Hermannsson gítarleikari (Logar o.fl.) til liðs við sveitina og um svipað leyti tók Jón Guðjónsson, sem áður hafði leikið á trommur í sveitinni, við af Skúla Einarssyni, Jón staldraði þó fremur stutt við í þetta skiptið og Ólafur Bachmann (Mánar, Logar o.fl.) leysti hann af og sat við trommurnar þar til sveitin hætti störfum vorið 1981, þá hafði hún starfað í ríflega áratug og gert garðinn frægan sunnanlands eins og fyrr segir, m.a.s. leikið á þjóðhátíð Vestmannaeyinga sumarið áður.

Þó svo að Hljómsveit Gissurar Geirssonar hefði aldrei gefið neitt út var hún ágætur fulltrúi sveitaballahljómsveita á áttunda áratugnum og er hennar m.a. minnst í laginu Gamalt og gott, sem Danshljómsveit Hjalta Guðgeirssonar ásamt Íslandsvinum gerði vinsælt 1990 en þar er að heyra þessar fleygu línur: „já enginn spilar lengur ræl og charleston og ekki kemst maður lengur í góðan „kokk“, já mætti ég kannski biðja‘ um Þorstein Guðmundsson og Gissur Geirs, þeir spila fleira en rokk.“ Þar er tónlist og framlagi hljómsveitar Gissurar e.t.v. best lýst, þeir spiluðu tónlist fyrir allar kynslóðir. Sá Þorsteinn Guðmundsson sem einnig er þarna nefndur er Steini spil en hann mætti setja undir sama flokk og Gissur. Lagið er að finna á safnplötunni Hitt og þetta, aðallega hitt alla leið.