Tónabræður [1] (1958-61)

Sunnlenska hljómsveitin Tónabræður undir stjórn Gissurar Geirssonar var fyrsta sveitin af mörgum sem borið hefur þetta nafn en hún var starfrækt í kringum 1960.

Hljómsveitin var stofnuð 1958 af Gissuri Geirssyni harmonikku-, saxófón- og hljómborðsleikara úr Flóanum en hann var einn af konungum sunnlenskra sveitaballa á árum áður og starfrækti margar sveitir.

Í upphafi var sveitin skipuð þeim Gissuri, Hjördísi systur hans sem sá um sönginn og Guðmundi Bjarnasyni gítarleikara en svo bættist Viggó Þorsteinsson harmonikkuleikari í hópinn. Einhverjar mannabreytingar voru í sveitinni og á einhverjum tímapunkti voru það Ásbjörn Österby saxófónleikari, Bjarni Sigurðsson gítarleikari, Björn Þórarinsson gítarleikari, Arnþór Guðnason trommuleikari og Sigurdór Karlsson söngvari sem skipuðu sveitina með Gissuri. Einnig mun Úlfhildur systir þeirra Gissurar og Hjördíar eitthvað hafa sungið með sveitinni sem spilaði víðs vegar, einkum þó um Árnes- og Rangárvallasýslu.

1961 var nafni sveitarinnar breytt í Caroll quintet og enn síðar hét hún Safír-sextett.