Caroll sextett (1961-63)

Caroll kvintett

Hljómsveitin Caroll / Carol (ýmist nefnd kvintett eða sextett eftir stærð sveitarinnar hverju sinni) starfaði á árunum 1961 til 63 og lék þá bæði á dansleikjum austan fjalls og á höfuðborgarsvæðinu.

Sveitin var stofnuð á Selfossi líklega sumarið 1961 upp úr Tónabræðrum og virðist hafa verið nokkuð föst liðsskipan á henni en ýmsir söngvarar komu þó við sögu hennar. Meðlimir Caroll voru Arnór Guðnason trommuleikari, Bjarni Sigurðsson (frá Geysi) gítarleikari, Ásbjörn Österby saxófónleikari, Gissur Geirsson saxófónleikari og Björn Þórarinsson gítarleikari, þá hefur Bergur Bárðarson að líkindum verið sjötti meðlimurinn þegar um var að ræða sextett. Elín Bachmann var fyrsta söngkona sveitarinnar en síðan tók Hjördís Geirsdóttir við sönghlutverkinu, einnig var Sigurdór Karlsson söngvari um tíma í sveitinni ásamt Hjördísi en aðrir söngvarar eins og Gunnar Guðmundsson og Eydís [?] komu lítillega við sögu hennar. Á þessum tíma töldust söngvarar ekki vera hluti af hljómsveitunum.

Caroll starfaði fram á vorið 1963 að minnsta kosti og virðist sem hún hafi síðan sameinast Safír sextettnum sem hluti sveitarinnar hafði þá starfað með.