Carpet (1992-99)

Carpet

Hljómsveitin Carpet úr Mosfellsbæ starfaði á tíunda áratug síðustu aldar, skipuð ungum og efnilegum tónlistarmönnum og reyndi að ná eyrum alþjóðamarkaðarins, sveitin ól af sér nokkra tónlistarmenn sem síðar urðu þekktir.

Saga sveitarinn nær allt til ársins 1992 þótt ekki fengi hún endanlegt nafn sitt strax, í fyrstu gekk hún líklega undir nafninu Belle og jafnvel fleiri nöfnum en árið 1995 hafði hún hlotið nafnið Orange carpet. Það var svo árið 1997 eða 98 sem nafnið var stytt og gekk eftir það undir nafninu Carpet.

Upphaflega voru í sveitinni þeir Hallgrímur Jón Hallgrímsson trommuleikari, Eyþór Skúli Jóhannesson gítarleikari, Arnar Ingi Hreiðarsson bassaleikari og Jón Þór Birgisson söngvari og gítarleikari en þeir voru þá allir á unglingsaldri, fleiri gætu hafa komið við sögu sveitarinnar á upphafsárum hennar. 1994 hætti Jón Þór í sveitinni en hann var þá byrjaður að starfa með nýrri sveit sem í fyrstu gekk undir nafninu Victory rose en varð síðan að Sigur rós, við hans hlutverki tók Kristófer Jensson og fljótlega upp úr því bættist gítarleikarinn Egill Árni Hübner einnig í hópinn.

Þannig skipuð starfaði Carpet að líkindum uns yfir lauk, sveitin var dugleg við tónleikahald og vann einnig með frumsamið efni sem var hljóðritað en þær upptökur virðast að mestu vera glataðar í dag. Eitt lag kom þó út með sveitinni á safnplötunni Rokkstokk 1998 (reyndar undir nafninu Karpet) en þeir félagar höfðu þá auðsýnilega tekið þátt í samnefndri hljómsveitakeppni.

Carpet á tónleikunum í Sjallanum

Sveitin þótti mikið efni og þegar blásið var til tónleika fyrir hljómsveitina Dead sea apple í Sjallanum vorið 1999 til að kynna þá sveit útsendurum stórra erlendra útgáfufyrirtækja voru Carpet og Toy machine fengnar til að spila á tónleikunum. Þessir tónleikar urðu síðan eins konar kveikja að Iceland Airwaves. Þessir tónleikar gerðu ekkert fyrir sveitina og fljótlega eftir þá lognaðist sveitin útaf, þeir félagar komu þó aftur saman árið 2018 og léku þá á tónleikum.

Þeir Carpet-liðar héldu flestir að leika tónlist við ágætan orðstír, fyrr er getið Jóns Þórs (Jónsa í Sigur rós) en Kristófer söngvari átti einnig eftir að verða þekkt nafn með sveitum eins og Lights on the highway og Thin Jim, Hallgrímur Jón hefur leikið með Tenderfoot og fleiri sveitum, Arnar Ingi með Ég, Monterey og fleiri sveitum, og Egill með Red on right, Kopar o.fl.