Bee spiders (1995-96)

Bee spiders

Hljómsveitin Bee spiders úr Mosfellsbænum er einna helst þekktust fyrir að innihalda Jón Þór Birgisson (Jónsa í Sigur rós) en það virðist útbreiddur misskilningur að sveitin hafi verið einhvers konar undanfari Sigur rósar.

Bee spiders var stofnuð snemma árs 1995, keppti í Músíktilraunum þá um vorið og lék þá það sem þeir sögðu sjálfir vera Seattle grungerokk. Meðlimir sveitarinnar voru áðurnefndur Jón Þór, Arnar Ingi Hreiðarsson bassaleikari og Hallgrímur Hallgrímsson trommuleikari. Þrátt fyrir að sveitin kæmist ekki í úrslit keppninnar var hún þó kjörin athyglisverðasta sveitin, reyndar sagði Jónsi síðar frá því í blaðaviðtali síðar að jafnvel hefði staðið til reka þá úr keppninni vegna áfengisdrykkju. Þeir félagar voru með einhvern aukamannskap með sér á sviðinu, og mun Kjartan Sveinsson (Sigur rós) hafa verið þar á meðal í gervi söngkonu.

Bee spiders kom aftur við sögu Músíktilrauna ári síðar (1996) skipuð sömu mönnum en þá fór sveitin í úrslitin án þess þó að vinna stór afrek þar.

Eftir Músíktilraunir 1996 fór sveitin í hljóðver og tók upp grunna fyrir u.þ.b. tíu lög sem áætlað var að gefa út á plötu en þeirri vinnu lauk aldrei þar sem Sigur Rós var þá um það leyti að slá í gegn. Bee spiders var því smám saman lögð til hliðar en hætti þó aldrei formlega.

Þeir Hallgrímur og Arnar tóku aftur upp þráðinn árið 2000 ásamt Pétri og Ágústi Einarssonum (Pornopop) og Inga Birni Ingasyni en þá undir nafninu Fuga.