Fuga (2000-01)

Hljómsveitin Fuga (einnig ritað Fúga) starfaði á höfuðborgarsvæðinu upp úr síðustu aldamótum.

Fuga var stofnuð í upphafi árs 2000 en sveitina skipuðu bræðurnir Pétur Jóhann gítarleikari og Ágúst Arnar Einarssynir gítarleikara sem höfðu þá um tíma starfrækt dúettinn Pornopop, og Hallgímur Jón Hallgrímsson trommuleikari og Arnar Ingi Hreiðarsson bassaleikari sem komu úr Bee spiders úr Mosfellsbænum. Nokkru síðar bættist hljómborðsleikarinn Ingi Björn Ingason í hópinn en virðist ekki hafa verið lengi í sveitinni, vorið 2001 var svo Úlfhildur Guðmundsdóttir hljómborðsleikari komin í Fugu en hún gerði líka stuttan stans í sveitinni.

Fuga kom fram opinberlega í nokkur skipti þann tíma er hún starfaði, m.a. á Iceland Airwaves hátíðinni haustið 2001 en fljótlega eftir það hætti hún störfum. Þá hafði hún tekið upp nokkur lög ætluð til útgáfu en þau hafa hvergi komið út.