Frugg (1972)

Progghljómsveitin Frugg var skammlíf sveit sem varð til vorið 1972 þegar Rifsberja lagðist í dvala um tíma.

Það voru þeir Þórður Árnason gítarleikari, Gylfi Kristinsson söngvari, Jón Kristinn Cortes bassaleikari, Karl J. Sighvatsson orgelleikari og Þorvaldur Rafn Haraldsson trommuleikari sem skipuðu Frugg. Sveitin lék m.a. á tónleikum um páskana 1972 þar sem þeir félagar fluttu tónverk eftir Karl, sem bar yfirskriftina Hallgrímur kvað… en það var unnið upp úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Verkið var síðar flutt í útvarpi en hefur aldrei komið út á plötu, utan hluti þess undir nafninu Gethsemane garden á plötu Náttúru – Magic key.

Frugg var sem fyrr segir skammlíf sveit, hún starfaði fram á mitt sumar en þá reis Rifsberja aftur upp af dvala sínum.