Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar (1958-65)

Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar 19581

Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar 1958

Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar var danshljómsveit af gamla skólanum og lék lengstum gömlu dansana í Þórscafé við mjög góðan orðstír en sveitin var talin ein sú besta í þeim geiranum.

Sveitin var að öllum líkindum stofnuð 1958 og var að mestu skipuð sömu meðlimum allan tímann, þeir voru Tage Muller píanóleikari, Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari, Jóhannes G. Jóhannesson harmonikkuleikari, Ole Östergaard gítarleikari, Karl Karlsson trommuleikari og Guðmundur Finnbjörnsson saxófón- og fiðluleikari sem jafnframt var hljómsveitarstjóri. Hulda Emilsdóttir var söngkona sveitarinnar. Einu mannabreytingarnar sem kunnugt er um er að Haraldur Baldursson tók við af Ole Östergaard og einnig er hugsanlegt að Gunnar Einarsson hafi verið viðloðandi sveitina, þá sem söngvari. Björn Þorgeirsson tók við sem söngvari sveitarinnar haustið 1962.

Sem fyrr segir lék Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar lengst af í Þórscafé, frá haustinu 1959 og fram á haust 1963 þegar hún flutti sig yfir í Iðnó og síðar í gamla sal Skátaheimilisins, eftir það spilaði sveitin eitthvað stopulla og hætti alveg sumarið 1965.