Skúli Halldórsson (1914-2004)

Skúli Halldórsson

Skúli Halldórsson tónskáld og píanóleikari skildi eftir sig um tvö hundruð tónverk í formi sönglaga, píanó-, kammer- og jafnvel sinfónískra verka en hann var orðinn áttræður þegar loks kom út plata með verkum hans hér á landi, önnur slík leit dagsins ljós áður en hann lést í hárri elli en áður hafði komið út plata með lögum hann í Finnlandi.

Skúli Halldórsson fæddist árið 1914 og bjó fyrstu æviár sín á Flateyri og svo á Ísafirði þar sem faðir hans var héraðslæknir. Fjölskyldan fluttist suður til Reykjavíkur þegar Skúli var um þrettán ára gamall en faðir hans var þá sviptur læknisleyfi fyrir drykkjuskap, eftir að suður var komið bjó Skúli hjá móðurömmu sinni, skáldkonunni Theódóru Thoroddsen þar sem hann kynntist fjöldanum öllum af skáldum og listafólki en hann átti eftir að semja sönglög við ljóð sumra þeirra, hann átti jafnframt eftir að semja lög við t.a.m. ljóð langafa síns, Jóns Thoroddsen.

Skúli hafði ungur numið píanóleik af móður sinni, Unni Skúladóttur og síðar af Leopoldínu Halldórsdóttur (Eiríkss) en fór síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann lærði hjá Árna Kristjánssyni og síðar Rögnvaldi Sigurjónssyni auk þess sem hann lærði hljómfræði, tónsmíðar og útsetningar hjá Victor Urbancic, Páli Ísólfssyni og Franz Mixa en hann hafði byrjað að eiga við tónsmíðar þegar hann var fimmtán ára gamall. Skúli lauk tónlistarnáminu árið 1948 en hafði þá þurft að taka sér frí frá því um tíma þegar hart var í ári. Skúli hafði lokið verslunarprófi nokkru áður og í beinu framhaldi af því hafði honum boðist að vera kostaður til píanónáms erlendis en foreldrar hans höfnuðu því, fannst það líklega sambærilegt að þiggja ölmusu.

Strax árið 1932 var Skúli farinn að kenna eitthvað á píanó og leika á tónleikum þótt hann sjálfur væri ekki fullnuma í þeim fræðum en á árunum 1948-52 var hann mest við kennsluna, þá var hann þegar farinn að flytja frumsamin lög á tónleikum. Annars starfaði Skúli mest allan sinn starfsaldur hjá Strætisvögnum Reykjavíkur eða í um hálfa öld og megnið af þeim tíma sem skrifstofustjóri þannig að hann starfaði aldrei sem tónlistarmaður í fullu starfi, það hlýtur því að teljast merkilegt hversu miklu hann áorkaði sem tónskáld miðað við þær aðstæður – Skúli var lengi með píanó á skrifstofu sinni þar sem hann æfði sig og samdi tónlist eftir langan vinnudag.

Skúli árið 1941

Samhliða starfi sínu hjá Strætisvögnum Reykjavíkur lék Skúli á tónleikum eigin sönglög og annarra, bæði sem einleikari en einnig sem undirleikari en margir af þekktustu söngvurum þjóðarinnar voru meðal samstarfsmanna hans í því. Þeirra á meðal má nefna Sigurveigu Hjaltested, Guðmund Jónsson, Guðmund Guðjónsson, Magnús Jónsson, Róbert Arnfinnsson, Pétur Á. Jónsson, Sigurð Ólafsson, Jóhann Konráðsson, Svölu Nielsen, Ketil Jensson og Kristin Hallsson og eru til upptökur hjá Ríkisútvarpinu þar sem þau syngja lög Skúla við undirleik hans sem margar hafa komið út á plötum söngvaranna. Þess má til gamans geta að þeir Skúli og Róbert Arnfinnsson komu fram á Vísnakvöldi Vísnavina árið 1980, voru þar hljóðritaðir og enduðu ásamt fleirum á kassettunni Vísnavinir II: 1980.

Skúli annaðist um tíma einnig undirleik hjá kórum á tónleikum og má í því samhengi nefna Söngfélag verkalýðssamtakanna, Söngfélags Hreppamanna sem síðar varð að Flúðakórnum, og Árneskórinn. Tvö sumur um miðbik aldarinnar fór Skúli ásamt þremur söngvurum og leikurum með skemmtidagskrá um landsbyggðina undir nafninu Litli fjarkinn en segja má að þar hafi verið á ferð undanfari héraðsmótanna og síðar Sumargleðinnar. Skúli var enn að koma fram á tónleikum sem undirleikari og einleikari löngu eftir að hann hætti að starfa hjá SVR, hann spilaði t.a.m. á tónleikum í kringum áttræðis afmæli sitt og var reyndar enn að í kringum aldamótin.

Tónsmíðar Skúla voru af margvíslegum toga, sönglögin – bæði einsöngs- og kórlög, voru sýnu mest áberandi en eitthvað á annað hundrað slíkra laga liggja eftir hann, þekktast þeirra er vafalaust Smaladrengurinn (Út um græna grundu) sem allir þekkja en einnig má nefna lög eins og Linda, Smalastúlkan, Skilnaður, Fylgdarlaun, Móðir mín, Heimþrá, Ferðalok og Bláir eru dalir þínir. Hann samdi einnig kammerverk, píanóverk, balletta, sónötur, kantötur og jafnvel sinfóníu (Heimurinn okkar) en henni lauk Skúli í kringum sjötugs afmæli sitt og Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti hana á tónleikum, mörg verka sinna frumflutti hann sjálfur á tónleikum eða í útvarpssal og eru þau þá sum hver enn varðveitt í upptökusafni Ríkisútvarpsins. Þess má geta að Skúli samdi á sínum tíma kantötuna Pourquoi Pas? við ljóð Vilhjálms frá Skáholti til minningar um þá sem fórust þegar samnefnt franskt rannsóknarskip fórst á Mýrunum 1936, hann afhenti tónverkið franska sendiherranum árið 1966 og tuttugu árum síðar (1986) var honum boðið að vera viðstaddur minningarathöfn í Frakklandi í tilefni af því að hálf var liðin frá slysinu, þar var verkið flutt með stórri hljómsveit og Karlakór Reykjavíkur ásamt íslenskum einsöngvurum sem sungu kórhlutann.

Skúli Halldórsson 1963

Framan af var tónsmíðar Skúla helst að fá útgefnar á nótum og stóð hann þá sjálfur fyrir útgáfu á þeim, síðar komu mörg sönglaga hans út á hljómplötum en Karlakór Reykjavíkur, Jóhann Már Jóhannsson, Guðmundur Jónsson, Samkór Selfoss, Kvöldvökukórinn, Ríó tríó, Baldvin Kr. Baldvinsson, Skólakór Kársness, Már Magnússon og Smárakvartettinn eru meðal fjölmargra sem sungið hafa lög hans á plötum.

Langur tími leið uns plata kom út í nafni Skúla þótt lög hans hefðu vissulega komið út á plötum annarra en þótt undarlegt megi virðast var það finnskt útgáfufyrirtæki sem gaf út fyrstu plötu tónskáldsins. Það var árið 1979 sem Skúli var staddur á ráðstefnu fyrir hönd STEFs í Noregi að honum var boðinn plötusamningur á vegum Sauna Musiikki útgáfunnar og um leið að út kæmu verk hans á nótum, platan kom svo út 1980 undir nafninu Sögueyjan hljómar frá Íslandi: Sävelmiä satujen saarelt á öllum norðurlöndunum en Fálkinn annaðist dreifingu hennar hérlendis. Á henni var að finna tuttugu sönglög Skúla leikin á píanó af honum sjálfum en upptökur fóru fram hér heima. Platan vakti nokkra athygli og hlaut góða dóma í tímaritinu TT.

Enn leið langur tími þar til fleiri plötur litu dagsins ljós með tónverkum eftir Skúla, það var ekki fyrr en árið 1994 þegar hann fagnaði áttræðis afmæli sínu að afmælistónleikar sem voru haldnir honum til heiður í Íslensku óperunni voru hljóðritaðir og gefnir út undir titlinum Út um græna grundu, ásamt eldra efni úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum – líklega mest úr fórum Ríkisútvarpsins. Á plötunni koma fram fjölmargir einsöngvarar, kór og hljóðfæraleikarar en Skúli kemur einnig við sögu sjálfur á henni, platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Tveimur árið síðar 1996 kom svo út önnur plata sem segja mætti að sé beint framhald af Út um græna grundu, hún hét Bláir eru dalir þínir og hafði að geyma blandaða tónlist, sönglög en einnig önnur tónverk s.s. Pourqoui Pas?, Heimurinn okkar og Gos í Heimaey, Skúli lék sjálfur undir söng Ástu Thorsteinson og Magnúsar Jónssonar en Sinfóníuhljómsveit Íslands í stærri verkunum ásamt karlakór og einsöngvurum – þetta voru upptökur frá ýmsum tímum eins og á Út um græna grundu en sumt af efninu hafði hvergi verið gefið út á plötu fyrr. Platan fékk prýðilega dóma í Tímanum, DV og Morgunblaðinu. Þá var um svipað leyti í bígerð plata með lögum sem hann hafði útsett fyrir tvísöng en sú plata komst aldrei á koppinn af einhverjum ástæðum.

Skúli við píanóið

Á tíunda áratugnum vann Skúli að nótnaútgáfu á sönglögum sínum sem koma áttu út í þrennu lagi, sú fyrsta kom út árið 1990 undir titlinum Söngverk I og hafði að geyma 32 lög hans, sú næsta Söngverk II kom út tveimur árum síðar og var með 34 sönglögum en svo virðist sem sú þriðja hafi aldrei litið dagsins ljós. Það sama ár (1992) kom hins vegar út ævisaga eða endurminningar Skúla, skráðar af Örnólfi Árnasyni undir yfirskriftinni Lífsins dómínó – Skúli Halldórsson: öðruvísi ævisaga, og vakti hún töluverða athygli fyrir bersögli Skúla en þar var hann afar hreinskiptinn og tjáði sig m.a. um drykkju föður síns, framhjáhald sitt og margt annað sem margir aðrir hefðu á þeim tíma e.t.v. ekki talað um í slíkri bók. Orðið „dómínó“ í titli bókarinnar vísar til þess að löngu fyrr hafði Skúli samið lag til verðandi eiginkonu sinnar sem hann heyrði síðar lítið breytt undir titlinum Domino (heimsþekkt lag) með frönskum flytjanda en tilraunir hans í gegnum STEF til að leita réttar síns í málinu báru engan árangur. Brynjólfur Jóhannesson gerði þessu máli skil í laginu Dómínó í revíu Bláu stjörnunnar árið 1952, og varð það reyndar töluvert vinsælt.

Skúli Halldórsson var mjög virkur í félagsmálum tónlistarmanna alla ævi og var í stjórn Tónskáldafélags Íslands og STEF um langt árabil, hartnær fjóra áratugi í báðum félögunum, þannig var hann bæði formaður og ritari tónskáldafélagsins og gegndi einnig formennsku og öðrum stjórnarstörfum í STEF. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri tónlistarhátíðar sem haldin var í tilefni af 10 ára afmæli Tónskáldafélags Íslands, í stjórn Bandalags íslenskra listamanna og þannig mætti áfram telja.

Skúli vann að tónsmíðum sínum alveg fram í andlátið, árið 2004 var hann í samstarfi við bandarískan flautuleikara, Carolyne Eklin sem hafði hrifist af verkum hans og vann hann að því að útsetja einhver laga sinna fyrir hana og hafði þá reyndar samið flautuverk sem hann tileinkaði henni. Mitt í þeirri vinnu allri lést Skúli sumarið 2004 en hann var þá orðinn níræður.

Ekki hefur verið ráðist í heildarútgáfu á verkum Skúla Halldórssonar tónskálds, hvorki á plötu- né nótnaformi en slík útgáfa þætti e.t.v. nokkuð fyrirferðamikil með um tvö hundruð tónverk. Hver veit nema sú útgáfa verði þó einhvern tímanna að veruleika.

Efni á plötum