Skólalúðrasveit Akraness (1959-85)

Skólalúðrasveit Akraness 1973

Hljómsveit sem hér er kölluð Skólalúðrasveit Akraness starfaði í ríflega tvo áratugi en lognaðist svo útaf eftr stopula starfsemi síðustu árin.

Sveitin hafði verið sett á stofn rétt fyrir 1960 af því er heimildir herma og starfaði reyndar fyrstu árin við Barnaskólann á Akranesi, Rotary-klúbbur þeirra Skagamanna átti sinn þátt í því að sveitin varð að veruleika því hann gaf hljóðfærin sem notuð voru í upphafi.

Árið 1966 tók tónlistarskólinn á Akranesi við rekstri sveitarinnar og tók Þórir Þórisson við stjórnun hennar haustið 1968 en ekki liggur fyrir hverjir stjórnuðu sveitinni á upphafsárum hennar. Þórir stjórnaði lúðrasveitinni til ársins 1974 og lék hún nokkuð á tónleikum undir hans stjórn, og fór m.a. í tónleikaferðalag til Ísafjarðar og lék þar ásamt vestfirskum sveitum en Þórir hafði einmitt sjálfur komið þaðan. Sveitin skilaði af sér tónlistarfólki sem síðar varð þekkt, og hér eru nefndir þeir Úlrik Ólason básúnuleikari (síðar kórstjóri og organisti) og Andrés Helgason trompetleikari.

Yfirleitt höfðu líklega verið um 20-30 meðlimir í Skólalúðrasveit Akraness en um miðjan áttunda áratuginn virðist heldur hafa tekið að fækka í henni. Hún starfaði þó eitthvað áfram með hléum þó, fyrst undir stjórn Lárusar Sighvatssonar og svo áðurnefnds Andrésar Helgasonar en hlutverk sveitarinnar síðustu árin munu fyrst og fremst hafa miðast við að leika í miðbæ Akraness þegar jólaljósin voru tendruð á aðventunni.

Skólalúðrasveit Akraness var lögð niður 1985 og um svipað leyti var stofnuð ný lúðrasveit sem var sameiginlegt verkefni grunnskólanna, tónlistarskólans og lúðrasveitarinnar á Akranesi. Sú sveit er enn starfandi undir nafninu Skólahljómsveit Akraness.