Skólakór Mýrdalshrepps (1988-)

Skólakór Mýrdalshrepps

Öflugur skólakór starfaði lengi við Víkurskóla undir stjórn Önnu Björnsdóttur síðustu öld og svo virðist sem hann hafi jafnframt starfað eitthvað eftir aldamótin, kórinn hefur sent frá sér plötur.

Skólakór Mýrdalshrepps mun hafa verið stofnaður um haustið 1988 og frá upphafi var Anna Björnsdóttir stjórnandi kórsins en hann hóf að koma fram opinberlega í heimabyggð þá strax um haustið. Kórinn virðist hafa starfað undir ýmsum nöfnum, Kór Víkurskóla, Skólakór Víkurskóla og Skólakór Mýrdalshrepps, og er síðast talda nafnið notað í þessari umfjöllun.

Árið 1990 sendi kórinn frá sér tíu laga kassettu sem bar titilinn Skólakór Víkurskóla, afar litlar upplýsingar er að finna um þessa útgáfu en geisladiskur sem kom út 1998 og hét Vorið góða var öllu fyrirferðameiri og mun hafa selst ágætlega, sú plata var tuttugu laga og innihélt efni, íslenskt og erlent frá ýmsum áttum og tímum. Hún var gefin út í tilefni af tíu ára afmæli kórsins og sum laganna höfðu áður komið út á kassettunni sem kom út 1990. Þarna var kórinn orðinn tvískiptur, eldri og yngri kór sem er í raun ótrúlegt í ekki stærra samfélagi því yfirleitt hafa nemendur skólans verið á bilinu sextíu til sjötíu. Upplýsingar eru um að þriðja útgáfan hafi litið dagsins ljós árið 2007 undir titlinum Sönginn látum hljóma sem er titill skólasöngs Víkurskóla, hér er giskað á að um hafi verið að ræða eins lags stuttskífu með skólasöngnum sungnum af kór skólans – frekari upplýsingar óskast þó um þá útgáfu.

Kór Víkurskóla

Svo virðist sem Skólakór Mýrdalshrepps hafi starfað samfellt frá 1988 til 2003 og var töluvert virkur, söng þá mestmegnis í heimabyggð en einnig utan hennar og fór svo í söngferð til Danmerkur árið 1999. Eitthvað hafði söngáhuginn minnkað meðal nemenda eftir aldamótin, árið 2002 voru t.a.m. aðeins stúlkur í kórnum og 2003 virðist aðeins kór af yngsta stiginu hafa verið starfandi. Sönginn látum hljóma kom út sem fyrr segir árið 2007 svo gera má ráð fyrir að kór hafi þá verið starfandi, svo var einnig árið 2010 og 2019 en engar upplýsingar finnast um kórstarf þess á milli, gera má ráð fyrir að Anna hafi þá enn verið stjórnandi kórsins en frekari upplýsingar óskast um kórstarfið hin síðustu ár.

Efni á plötum