Skólakór Hjallaskóla (1987-2010)

Kór var starfræktur innan Hjallaskóla í Kópvogi um ríflega tuttugu ára skeið, lengst af undir stjórn Guðrúnar Magnúsdóttur en hann var lagður niður þegar skólinn var sameinaður Digranesskóla árið 2010 undir nafninu Álfhólsskóli.

Hjallaskóli hafði verið stofnaður 1983 en elstu heimildir um kórastarf þar eru frá vorinu 1988, gera má því ráð fyrir að sá kór hafi verið starfandi að minnsta kosti frá því haustið á undan (1987) – stjórnandi hans var Anna Ólafsdóttir. Kórinn var oftar en ekki kallaður barnakór enda var skólinn þá ætlaður börnum á aldrinum 6-9 ára.

Ekkert spyrst til skólakórs Hjallaskóla fyrr en 1992 en þá starfaði kór við skólann samfellt af því er virðist allt til 2010, á þeim árum var Guðrún Magnúsdóttir stjórnandi kórsins eða um átján ára skeið. Skólinn sameinaðist sem fyrr segir Digranesskóla árið 2010.

Skólakór Hjallaskóla var líklega fremur lítill framan af en frá árinu 1996 (líklega) voru þar starfandi tveir kórar, yngri og eldri deild. Kórarnir virðast mestmegnis hafa sungið á kirkjutengdum viðburðum, messum og slíku en einnig t.d. á uppákomum á aðventunni svo dæmi séu tekin, þá söng kórinn ásamt fjölmörgum öðrum kórum á Kristnihátíðinni á Þingvöllum sumarið 2000.

Kór Hjallaskóla kom við sögu á einni kassettu, það var árið 1998 þegar sr. Karl V. Matthíasson prestur í Grundarfirði sendi frá sér kassettuna Kirkjuskólinn en þar söng kórinn undir stjórn Guðrúnar og Þóru V. Guðmunsdóttur á milli bæna og hugleiðinga prestsins.

Efni á plötum