Skólakór Hafralækjarskóla (1984-2012)

Skólakór og hljómsveit Hafralækjarskóla 1988

Blómlegt tónlistarlíf var í Hafralækjarskóla í Aðaldal í Suður-Þingeyjasýslu meðan hann starfaði undir því nafni (1972-2012) og einkum eftir að Guðmundur H. Norðdahl og síðar Robert og Juliet Faulkner komu til starfa við skólann, þá urðu til fjölmargar skólahljómsveitir og skólakór sem m.a. tóku þátt í metnaðarfullum söngleikjauppfærslum á árshátíðum skólans.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvenær fyrst var starfandi skólakór við Hafralækjarskóla en vorið 1984 var sett á svið í skólanum barnaóperan Ull í gull þar sem Guðmundur H. Norðdahl stjórnaði tónlistinni í uppfærslu Arnórs Benónýssonar leikstjóra. Þar var að öllum líkindum kór sem annaðist hópsöngsatriðin í óperunni en líklegt hlýtur að teljast að Guðmundur sem þá hafði starfað við skólann frá 1978, hafi þá þegar verið búinn að stofna skólakór en hann hafði áður stofnað og stjórnað kórum sunnan heiða við góðan orðstír.

Þegar hinn breski Robert Faulkner og eiginkona hans, Juliet komu til starfa við Hafralækjarskóla blómstruðu skólahljómsveitir af ýmsu tagi og kórastarf varð sömuleiðis stór hluti af ímynd skólans, Robert stjórnaði kórnum næstu árin og Juliet annaðist undirleik við söng hans en kórinn fór víða og frægt er t.a.m. samstarf hans við karlakórinn Hreim, sem Robert stjórnaði reyndar líka en kórarnir tveir héldu fjölda sameiginlegra tónleika.

Kórinn varð jafnframt áberandi á árshátíðum skólans þar sem söngleikir voru settir á svið með metnaðarfullum hætti, Frakki Jósefs, Jónas í hvalnum, Óvitar og fleiri söngleikir voru þannig sýndir fyrir fullu húsi og vöktu athygli langt út fyrir veggi skólans.

Skólakór Hafralækjarskóla í Laxárvirkjun

Tvívegis litu útgáfur dagsins ljós með söng kórsins, annars vegar árið 1989 á kassettunni Frumlög (óopinber útgáfa) með blönduðu efni út tónlistarstarfi skólans þar sem kórinn söng fimm lög af þeim 26 lögum á henni voru – hins vegar gaf kórinn sjálfur út plötuna Bergnumin í tilefni af 30 ára afmæli skólans árið 2002 en kórinn hafði þá nýverið sungið í hvelfingu Laxárvirkjunar í Aðaldal undir yfirskriftinni Bergnumin.

Afmælisárið 2002 mun hafa verið í fyrsta sinn sem tveir kórar voru starfandi við Hafralækjarskóla, eldri og yngri kór en sá yngri gekk iðulega undir nafninu Litli-kórinn. Kórarnir voru tveir að öllum líkindum til ársins 2009 en þá lagðist kórastarfið líklega niður, Gróa Hreinsdóttir hafði stjórnað honum undir lokin eftir að Faulkner hjónin leituðu á önnur mið.

Hafralækjarskóla sameinaðist Litlu-Laugaskóla árið 2012 og hefur síðan gengið undir nafninu Þingeyjarskóli.

Efni á plötum