Skólakór Akraness (1990-2000)

Skólakór Akraness 1996

Skólakórar hafa lengi verið starfræktir á Akranesi en málin eru töluvert flókin þar sem Barnaskóla Akraness (síðar Grunnskóla Akraness) var á sínum tíma skipt niður í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla (upp úr 1980), svo virðist sem Skólakór Akraness hafi verið samstarfsverkefni skólanna tveggja (að minnsta kosti hluta starfstíma hans) en þeir hafa jafnframt stundum gengið undir nöfnunum Skólakór Brekkubæjarskóla og Skólakór Grundaskóla. Það einfaldar heldur ekki málið að fáeinum árum fyrr var starfandi annar kór, Barnakór Akraness en sá kór starfaði í nokkurn tíma eftir að skólanum var skipt upp í tvær einingar.

Skólakórinn á Akranesi var að öllum líkindum stofnaður árið 1990 og voru stjórnendur hans í fyrstu þau Ragnheiður Ólafsdóttir og Flosi Einarsson, þegar Dóra Líndal Hjartardóttir tók við kórnum (líklega haustið 1991) gerðist Flosi undirleikari kórsins og voru þau með kórinn að líkindum til ársins 2000 en þá virðist hann hafa hætt störfum. Nýr kór, Skólakór Grundaskóla var stofnaður um áratug síðar og hafði að öllum líkindum engin tengsl við þennan kór.

Skólakór Akraness söng við ýmis tækifæri á Akranesi og nágrenni en hélt þó ekki sína fyrstu sjálfstæðu tónleika fyrr en vorið 1996, ári síðar gerði hann svo víðreist og fór til Póllands í tónleikaferð. Síðustu misserin að minnsta kosti var kórinn stúlknakór en ekki liggur fyrir hvort hann var það alla tíð.

Þessi umfjöllun er með þeim fyrirvara  eins og segir hér að ofan að um hafi verið að ræða samstarfsverkefni skólanna beggja, frekari upplýsingar um kórinn og starfsemi hans má gjarnan senda Glatkistunni.