Barnakór Akraness (1976-86)

Barnakór Akraness

Barnakór Akraness var öflugur kór sem starfaði á Skaganum í hartnær áratug, nánast allan tímann undir stjórn Jóns Karls Einarssonar.

Jón Karl Einarsson var skólastjóri tónlistarskólans á Akranesi og átti stærsta þátt í stofnun Barnakórs Akraness innan skólans en hann stjórnaði kórnum sjálfur. Kórinn tók til starfa haustið 1976 og varð strax mjög virkur bæði í heimabyggð og utan hennar en hann söng víða um land, m.a. oftsinnis á landsmótum barnakóra.

Kórinn fór fyrst utan 1979 þegar hann söng á norrænni tónlistarhátíð í Finnlandi og fimm árum síðar aftur á Spáni á alþjóðlegu kóramóti en þar vann hann til verðlauna og var í kjölfarið boðið að syngja á fleiri slíkum mótum. Af því varð þó ekki því kórinn var líklega lagður niður vorið 1986 en síðasta veturinn virðist Guðlaugur Viktorsson hafa verið stjórnandi kórsins.

Fáeinum árum síðar var annar kór starfandi á Skaganum, Skólakór Akraness en hann var alls óskyldur Barnakór Akraness.