Hilmar Sverrisson (1956-)

Hilmar Sverrisson 1973

Sauðkrækingurinn Hilmar Sverrisson er með lífseigari pöbbaspilurum Íslands en hann hefur leikið á dansleikjum og ölstofum landsins í um hálfa öld, hann hefur haft tónlistina að lifibrauði nánast alla tíð.

Hilmar fæddist í Skagafirðinum haustið 1956 og ólst upp við austanverðan fjörðinn til átta ára aldurs þegar hann flutti með fjölskyldu sinni inn á Sauðárkrók en hann hefur síðan þá ýmist búið og starfað fyrir norðan eða á höfuðborgarsvæðinu. Hann mun hafa numið í tónlistarskólanum á Króknum sem barn og unglingur en hann leikur á flest hljóðfæri og hefur leikið á öll grunnhljóðfæri balltónlistar í hljómsveitum sínum. Hilmar er má segja af tónlistarættum, faðir hans lék á harmonikku og einnig má nefna að sonur Hilmars, Vignir Rafn Hilmarsson hefur leikið á bassa í rokksveitinni Agent Fresco.

Hilmar mun hafa verið þrettán eða fjórtán ára gamall þegar hann lék fyrst með hljómsveit fyrir greiðslu, það var unglingahljómsveitin Háspenna sem starfaði á Króknum en hann hóf svo að starfa með Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar þegar sú sveit var stofnuð árið 1971. Með þeirri sveit lék hann næstu árin en á árunum 1974-76 starfrækti hann ásamt Viðari bróður sínum og fleirum hljómsveitina Fræ sem einnig gerði út á sveitaballamarkaðinn rétt eins og Geirmundur en hann hóf að starfa með Geirmundi aftur á síðari hluta áttunda áratugarins. Á þeim tíma var hann líklega einnig um tíma kórstjóri Karlakórs Sauðárkróks.

Hilmar hafði lært vélvirkjun og starfaði líklega við þá iðn allt þar til hann flutti suður til Reykjavíkur haustið 1980, hann fór þá í nám í Tónskóla þjóðkirkjunnar þaðan sem hann útskrifaðist fjórum árum síðar. Samhliða því námi starfaði hann með danshljómsveitum á höfuðborgarsvæðinu, sem hljómborðsleikari og söngvari í hljómsveitum eins og Goðgá og Póllandi sem léku víðs vegar á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins og á Keflavíkurflugvelli, hann starfaði svo einnig um tíma með hljómsveitinni Aríu sem síðar hlaut nafnið Atlantis.

Á lokaári sínu í tónlistarskólanum starfaði hann sem tónlistarkennari í Borgarnesi í einn vetur þótt hann byggi á höfuðborgarsvæðinu, í Borgarnesi var hann einnig virkur í starfsemi leikfélagsins á staðnum sem tónlistarmaður og tók þátt í sýningu á Dúfnaveislunni. Að náminu loknu flutti hann hins vegar aftur norður til Sauðárkróks sumarið 1984 og bjó þar og starfaði næstu þrjú árin.

Hilmar kenndi tónmennt á Króknum, setti m.a. upp tónlistarsýningar með krökkunum og tók sömuleiðis þátt í leiklistarstarfinu með því að leika undir í sýningum Leikfélags Sauðárkróks m.a. á Spanskflugunni, Línu Langsokk o.fl. en starfaði samhliða því einnig með Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar eins og hann hafði gert áður en sú sveit var þá að ganga í gegnum nokkurt vinsældatímabil í kjölfar þátttöku Geirmundar í undankeppnum Eurovision.

Hugur Hilmars lá aftur suður og árið 1988 var hann fluttur í Kópavoginn en var þó um hríð með annan fótinn fyrir norðan, hann var enn og aftur kominn í nám fyrir sunnan en að þessu sinni var hann í tónsmíðanámi við Tónlistarskólann í Reykjavík, sem hann lauk 1990. Fyrst um sinn starfaði hann um tíma með hljómsveitinni MAO og síðan Í gegnum tíðina í Glæsibæ en þar átti hann eftir að vera fastur næstu árin bæði með hljómsveitum sínum og með eins og tveggja manna sveitir, hann var líklega einnig um hríð í hljómsveitinni Kaktus. Hilmar starfaði mikið með Önnu Vilhjálms söngkonu á þessum árum, bæði tvö ein en einnig í hljómsveit sem Hilmar starfrækti um tíma í eigin nafni – þau voru mestmegnis að leika í Ölveri en einnig á Ránni í Keflavík og víðar, Hilmar fór enn víðar einn síns liðs með hljómborðið og míkrafóninn sem eins manns sveit og skemmti þá á stöðum eins og Bjórhöllinni, Hólma, Skálafelli, Ölkjallaranum, Fjólubláa fílnum og fleiri pöbbum og dansstöðum.

Hilmar hafði kennt tónmennt við Snælandsskóla í Kópavogi og einnig kenndi hann við Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi áður en hann setti á fót Litla tónlistarskólann sem hann rak sjálfur í Kópavogi en þar var hann einnig með upptökuaðstöðu og hóf þar að hljóðrita efni fyrir aðra undir merkjum HS studio.

Hilmar Sverrisson

Samstarf Hilmars með öðru tónlistarfólki hélt einnig áfram, hann starfaði á næstu árum m.a. með Einari Júlíussyni og einnig Mark Brink og um tíma starfaði hann með Hilmari J. Haukssyni en þeir félagar áttu lag á safnplötunni Á kránni, undir heitinu Nafnarnir. Með þessu tónlistarfólki var hann mikið á stöðum eins og Dansbarnum, Naustinu og Mímisbar en einnig töluvert mikið í einkasamkvæmum svo hann hafði ærið nóg að gera í tónlistinni.

Vorið 1993 fluttu Hilmar og fjölskylda enn og aftur norður í Skagafjörðinn og voru þar næstu árin. Hann hóf að kenna við tónlistarskólann á Króknum, rak eigið hljóðver fyrir norðan og starfaði með leikfélaginu eins og hann hafði gert áður – reyndar starfaði hann einnig með leikfélaginu á Hofsósi um hríð, hann var þó áfram nokkuð fyrir sunnan og lék á Hótel Sögu (og víðar) um helgar, hann var t.a.m. eitthvað viðloðandi Víkingasveitina sem starfaði mikið í tengslum við Fjörukrána í Hafnarfirði.

Hilmar var nú orðinn ágætlega tækjum búinn hvað upptökur varðaði og á Sauðárkróki lá beinast við að hann sæi um upptökur og útsetningar fyrir þá sem vildu og voru að taka þátt í lagakeppni Sæluviku Sauðkrækinga. Frá og með 1994 og næstu árin á eftir nýttist hljóðverið hans því ágætlega og afurðirnar voru á þessum árum gefnar út á kassettum og síðar geisladiskum, sjálfur tók Hilmar einhvern tímann þátt í Sæluvikukeppninni en einnig lék hann með hljómsveit þeirri sem lék undir í keppninni, og stjórnaði þeirri hljómsveit reyndar einnig í einhver skipti.

Árið 1993 stofnaði Hilmar ásamt Viðari bróður sínum og Herði G. Ólafssyni (sem hafði samið Eitt lag enn 1990) tríóið Norðan þrír og starfaði sú sveit í nokkur ár, þeir bættu svo við sig söngkonu svo tríóið varð að Norðan þrír + Ásdís. Hilmar kom með margvíslegum öðrum hætti að tónlistarstarfinu á Króknum á þessum árum, hann stóð fyrir styrktartónleikum (ásamt fleirum) fyrir fórnarlömb snjóflóðanna á Flateyri árið 1995 og samdi lag til styrktar því málefni, hann stjórnaði um nokkurra ára skeið kór Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og kór eldri borgara auk þess að taka almennt virkan þátt í skagfirsku tónlistarstarfi.

Sem fyrr var Hilmar að koma töluvert mikið einn fram með hljómborðið bæði fyrir norðan og sunnan, samstarf hans við Önnu Vilhjálms varð aftur töluvert en einnig lék hann erlendis í nokkur skipti á þorrablótum og mest tengt skemmtunum Íslendingafélaga s.s. í Bandaríkjunum, Sviss og Svíþjóð. Að lokum fór svo að hann flutti enn og aftur suður þar sem hann var hvort eð svo hlaðinn störfum þar en einnig virðist sem það hafi hentað hljóðversvinnu hans betur að vera staðsettur á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrar plötur höfðu verið hljóðritaðar í hljóðveri hans fyrir norðan s.s. með lögum Kristjáns frá Gilhaga en einnig með dúettnum Kúnzt, og þegar hann var kominn suður bættust við plötur og upptökur með Guðmundi Hauki Jónssyni, Ögmundi Svavarssyni og Snorra Evertssyni, og enn síðar plötur með Sigurði Lyngdal, El Puerco & Ennisrökuðum, Steini Kárasyni, Sævari Magnússyni, Gísla Helgasyni, Hafsteini Reykjalín og fleirum, sem hann ýmist hljóðritaði eða lék með á plötum.

Hilmar starfrækti aftur Litla tónlistarskólann þegar suður var komið, hann hóf jafnframt störf í Salnum í Kópavogi sem tæknimaður og hélt ótrauður áfram spilamennsku sinni á pöbbum og dansstöðum borgarinnar ýmist einn eða í samstarfi við aðra eins og söngkonurnar Önnu Vilhjálms, Þuríði Sigurðardóttur og Helgu Möller, þá kom hann fram með Rúnari Georgssyni saxófónleikara einnig. Árið 2001 starfrækti Hilmar ásamt Pétri Hjálmarssyni bassaleikara dúettinn Hilmar og Pétur og voru þeir mestmegnis á Catalinu í Kópavogi en einnig starfaði hann nokkuð með Ara Jónssyni, Már Elísyni og Vilhjálmi Guðjónssyni en með þeim síðast talda starfaði hann undir nafninu Hókus og Pókus, hér var farið víða hvort sem Hilmar starfaði einn eða með öðrum, allt frá Fjörukránni í Hafnarfirði til Cafe Riis á Hólmavík. Þótt hann væri á þessum árum kominn á sextugs aldur var hann enn í fullu fjöri en með tímanum virðist sem spilamennskan hafi aðeins meira færst yfir á hljómsveitir í stað þess að hann stæði vaktina einn með hljómborðið eða með söngvara hér við hlið. Þannig hóf hann að starfa í og með með hljómsveitum eins og Keltum og Hröfnum (sem voru afsprengi hinna upprunalegu Papa) en einnig með Föruneyti Gísla Helgasonar og Danshljómsveit Vilhjálms Guðjónssonar sem lék um tíma á Hótel Borg. Einnig tók hann þátt í stökum verkefnum eins og tónlistarsýningum með lögum The Supremes ásamt hljómsveit Ásgeirs Óskarssonar (2010), sem og hausttónleikum Harðar Torfa (2015) svo dæmi séu nefnd.

Á allra síðustu árum hefur tónlistartengd vinna Hilmars mestmegnis flust inn í hljóðver hans HS studio og þar hefur fjöldinn allur af plötum verið hljóðritaður og einnig hefur Hilmar leikið inn á nokkrar þeirra, hér má nefna plötur með Halldóri Skarphéðinssyni, Sveini M. Sveinssyni, Ara Jónssonar og fleirum. Þá tók hann einnig þátt í gerð plötu sem Upplyfting sendi frá sér sem og barnaplötu með lögum Inga Gunnars Jóhannssonar við ljóð Þórarins Eldjárns svo fleiri dæmi séu nefnd.