
Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar
Þær finnast varla langlífari hljómsveitirnar en Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar sem hefur reyndar runnið sitt skeið en starfaði í nærri því hálfa öld. Sveitin naut alla tíð mikilla vinsælda norðanlands en átti einnig löng tímabil þar sem landsmenn allir dönsuðu í takt við skagfirsku sveifluna eins og tónlist Geirmundar hefur verið kölluð frá því á níunda áratugnum.
Geirmundur Valtýsson frá Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð í Skagafirði hafði starfað með hljómsveitum í heimabyggð síðan 1958 – síðast með Flamingo (áður Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar) og þegar sú hljómsveit hætti störfum um áramótin 1970-71 sá hann enga ástæðu til að hætta hljómsveitastússi heldur stofnaði nýja sveit í eigin nafni. Meðlimir hinnar nýju sveitar voru auk Geirmundar sem lék á gítar og söng, þeir Hörður G. Ólafsson bassaleikari, Jóhann Friðriksson trommuleikari og Guðni Friðriksson hljómborðsleikari. Þannig skipuð lék sveitin á dansleikjum Sæluviku Skagfirðinga og svo víðar í heimahögum og nærsveitum um sumarið og var ekki útlit fyrir annað en að sveitin myndi hætta um haustið enda voru þremenningarnir þá að fara í ýmsar áttir í nám og slíkt. Geirmundur fékk hins vegar heimsókn um haustið frá bræðrunum Hilmari og Viðari Sverrissonum sem vildu starfrækja sveitina áfram sem varð, og með þeim Reynir Kárason bassaleikari en Hörður G. Ólafsson kom svo fljótlega inn aftur í hans stað.
Um veturinn 1971-72 þróuðust málin á þann veg að Tónaútgáfan á Akureyri fékk Geirmund til að hljóðrita fjögur frumsamin lög eftir sig en Geirmundur hafði þá getið sér gott orð fyrir lagasmíðar í lagakeppni Sæluvikunnar. Lögin voru hljóðrituð í Reykjavík og söng Geirmundur þau við undirleik hljómsveitarinnar Trúbrots sem þá var vinsælasta hljómsveit landsins. Fyrri platan kom svo út vorið 1972 og hafði að geyma stórsmellinn Bíddu við, sem gerði Geirmund að landsfrægum poppara á augabragði en lagið naut fádæma vinsælda um sumarið. Þeir félagar í hljómsveitinni voru ekki lengi að nýta sér þessa skyndilegu og óvæntu frægð Geirmundar og léku víða fyrir dansi í troðfullum húsum, vinsældir sveitarinnar voru þó sýnu mestar fyrir norðan og staðir eins og Víðihlíð og Miðgarður í Skagafirði urðu eins konar heimavígi hennar en Skúlagarður í Kelduhverfi og Skjólbrekka í Mývatnssveit urðu einnig eins og heimavöllur þeirra. Síðari skífan kom út um haustið og þótt annað lagið þar, Nú er ég léttur nyti töluverðra vinsælda varð það ekki í neinni líkingu við Bíddu við.
Hljómsveit Geirmundar naut þessara vinsælda sumarið 1972 svo um munaði og lifði á þeim í mörg ár á eftir á norðanverðu landinu, sveitin átti sína föstu punkta í dagatalinu – lék um langt árabil bæði í Sæluvikunni og Húnavöku Húnvetninga en einnig átti sveitin héraðsmót framsóknarmanna í Skagafirði víst árlega. Sveitin lék að mestu leyti í heimabyggðinni yfir vetrartímann en færði sig yfir í aðra landsfjórðunga einnig þegar voraði ár hvert.

Hljómsveit Geirmundar 1974
Sveitin lék með óbreyttu sniði allt til sumarsins 1974 en þá urðu þær breytingar á henni að Stefán Gíslason hljómborðsleikari og Jóhann Friðriksson trommuleikari leystu bræðurna Hilmar og Viðar af hólmi en Jóhann hafði einmitt verið fyrsti trymbill sveitarinnar. Allt var svo í föstum skorðum næstu árin hjá sveitinni með sín föstu böll en einnig þorrablót, réttaböll, hestamannaböll og almenna dansleiki, með árunum átti sveitin jafnvel eftir að leika á Suðurlandi og Suðvesturlandi í félagsheimilum eins og Hvoli á Hvolsvelli, Árnesi í Gnúpverjahreppi og Stapa í Njarðvíkum. Hilmar átti eftir að koma aftur inn í sveitina í stað Stefáns árið 1978 en staldraði ekki lengi við og ári síðar hafði Lárus Sighvatsson leyst hann af á hljómborðinu, þá voru aðrir liðsmenn hljómsveitarinnar þeir Hörður bassaleikari, Jóhann trommuleikari og auðvitað Geirmundur gítarleikari.
Sveitin hafði ívið minna að gera eftir því sem nær dró 1980 en diskóvæðingin var þá svolítið að taka völdin og þ.a.l. átti lifandi tónlist undir högg að sækja, það var e.t.v. ástæðan fyrir því að ákveðið var að ráðast í gerð tveggja laga smáskífu – þeirrar fyrstu er kæmi út í nafni hljómsveitarinnar. Platan var hljóðrituð í Hljóðrita í Hafnarfirði og Tónaútgáfan gaf plötuna út sumarið 1981 rétt eins og smáskífur Geirmundar árið 1972. Lögin tvö, Sumarfrí / Ferðalag, báru nokkurn keim af því stuði sem sveitin stóð fyrir á sveitaböllunum en lögin tvo voru eftir Geirmund og Hörð, fyrrnefnda lagið hlaut nokkra spilun í útvarpi. Viðar Sverrisson trommuleikari hafði aftur byrjað í hljómsveitinni um áramótin 1979-80 en áður en platan var hljóðrituð hafði Rögnvaldur Valbergsson hljómborðsleikari einnig gengið til liðs við hana í stað Lárusar. Þetta sumar (1981) færði sveitin svolítið út kvíarnar og lék t.a.m. bæði á Snæfellsnesi og á Ströndum.
Hljómsveit Geirmundar lét ekki staðar numið við svo búið heldur hlóð í aðra plötu, að þessu sinni tólf laga breiðskífu sem hljóðrituð var í Stúdíó Bimbó á Akureyri og gefin út af Tónaútgáfunni eins og fyrri platan. Öll lög plötunnar voru eftir Geirmund og Hörð aðal lagahöfunda sveitarinnar og þar vakti upphafslag plötunnar, Það er laugardagskvöld einna helst athygli en þar var einnig að finna nýja útgáfu af smáskífulaginu frá 1972, Bíddu við. Platan bar titilinn Laugardagskvöld og var sveitin skipuð sömu meðlimum og á plötunni á undan en naut einnig aðstoðar Finns Eydal og Þorsteins Kjartanssonar sem léku á klarinettu og saxófóna.
Þrátt fyrir að plöturnar tvær ynnu ekki neina stórsigra á plötu- eða vinsældamarkaðnum hélt Hljómsveit Geirmundar sínu striki næstu árin, lék mestmegnis norðan heiða og voru Sæluvika Skagfirðinga, Húnavaka og héraðsmót framsóknarmanna á sínum stað í dagatalinu auk þess sem sveitin lék um verslunarmannahelgarnar á Laugahátíð, í Miðgarði og Galtalækjarskógi, og lék jafnvel stöku sinnum í Sjallanum á Akureyri, auk þess lék sveitin stundum á almennum dansleikjum fyrir sunnan yfir sumartímann og komu þá hestamannaböllin sterk inn. Einhverjar frekari breytingar urðu á skipan sveitarinnar, Hilmar Sverrisson kom enn eina ferðina inn í hana um miðjan níunda áratuginn og einnig hafði Jónas Björnsson á einhverjum tímapunkti haft þar viðveru, líklega sem trommuleikari áður en Jóhann Friðriksson mætti aftur til leiks í sveitina.

Hljómsveit Geirmundar
Árið 1986 urðu merk tímamót í sögu Hljómsveitar Geirmundar Valtýssonar sem urðu líklega til þess að sveitin varð jafn langlíf og raun varð. Geirmundur sendi inn lag í undankeppni Eurovision söngvakeppninnar en Ísland tók þá þátt í keppninni í fyrsta sinn. Framlag Geirmundar var í anda sigurlagsins keppninnar á undan þegar hinar norsku Bobbysocks höfðu sigrað Eurovision 1985 með lagið La det swinge (Let it swing), en framlag Geirmundar hlaut nafnið Með vaxandi þrá. Þó svo að lag Geirmundar sigraði ekki undankeppnina hér heima vakti það feikimikla athygli og naut töluverðra vinsælda, og varð því hljómsveitinni sú vítamínsprauta sem hún þurfti á að halda. Í kjölfarið fékk sveitin aftur svipaða athygli og sumarið 1972 sem varð m.a. til þess að þau merku tímamót urðu í sögu hennar sumarið 1986 að hún lék í fyrsta sinn í Reykjavík en það var á Hótel Sögu. Með vaxandi þrá fékk sitt pláss á prógrammi sveitarinnar og í kjölfarið lék sveitin á stærri og merkilegri stöðum en félagsheimilum í sveitinni því Hótel KEA og svo Broadway komu sem bein afleiðing af Eurovision-framlagi Geirmundar.
Geirmundur var síður en svo hættur því aftur sendi hann lag í undankeppnina 1987 og aftur komst hann inn í úrslitin og nú með annað lag í sama stíl, Lífsdansinn sem varð jafnvel enn vinsælla og styrkti stöðu sveitarinnar í vinsældum, sveitin fór nú reglulega suður yfir heiðar til að leika á höfuðborgarsvæðinu og fékk stærri verkefni til að kljást við. Og þriðja árið í röð (1988) sendi Geirmundur lag og þriðja árið í röð komst hann í úrslit – nú með lagið Látum sönginn hljóma, og enn í þessum sama sveiflustíl. Það er vert að skoða að á þessum þremur árum þurfti Geirmundur að lúta í lægra haldi fyrir sigurvegurum undankeppninnar sem allir hlutu þau örlög að hafna í sextánda sæti lokakeppninnar. Þegar keppnin var haldin með breyttu fyrirkomulagi 1989 fengu nokkrir lagahöfundar færi á að senda lag í hana, þ.á.m. Geirmundur með lagið Alpatwist sem hafnaði í öðru sæti keppninnar á eftir Það sem enginn sér, sem fór síðan stigalaust í gegnum lokakeppni Eurovision. Alpatwist varð nokkuð vinsælt líka eins og fyrri lögin þrjú og hljómsveitin naut vinsælda á sama tíma og Geirmundur hlaut nokkra samúð fyrir að ná aldrei að sigra keppnina.

Hljómsveit Geirmundar 1979
Nokkrar breytingar urðu á skipan sveitarinnar á árunum 1988 til 1990, Hilmar hætti enn einu sinni og þegar nýr gítarleikari, Ægir Ásbjörnsson gekk til liðs við sveitina færði Geirmundur sig yfir á hljómborðið og var þar eftirleiðis en hann tók jafnframt oft í harmonikkuna á böllunum. Sumarið 1989 hætti Hörður bassaleikari í sveitinni en hann hafði þá verið í henni frá upphafi, hans sæti tók Sólmundur Friðriksson og einnig kom nú inn nýr gítarleikari, Eiríkur Hilmisson í stað Ægis sem staldraði því stutt við.
Geirmundur sendi árið 1989 frá sér sína fyrstu sóló breiðskífu sem m.a. hafði að geyma Eurovision lögin hans og það varð aðeins til að ýta undir vinsældir sveitarinnar í ballspilamennskunni, Geirmundur féll þó aðeins í skuggann af fyrrum bassaleikara sveitarinnar Herði G. Ólafssyni þegar sá sigraði undankeppni Eurovision 1990 með laginu Eitt lag enn sem Stjórnin fór svo með til Júgóslavíu og hafnaði þar í fjórða sæti lokakeppninnar – það var e.t.v. sárast fyrir Geirmund að lagið var einmitt í þeim stíltakti sem hann hafði sjálfur tileinkað sér í sínum Eurovision framlögum og gekk nú undir heitinu „skagfirska sveiflan“.
En Hljómsveit Geirmundar hélt sínu striki og segja má að sveitin hafi þarna verið komin á stall sem erfitt var að koma henni af, Geirmundur hafði með Eurovision framlögum sínum komist inn í þjóðarsálina og þrátt fyrir að nýjar kynslóðir kæmu inn á böllin eltust eldri kynslóðirnar með Geirmundi og tónlist hans og fylgdu honum á dansleikjunum, því var ekki að neita að eldra fólkið var mun meira áberandi þegar sveitin lék á höfuðborgarsvæðinu en úti á landsbyggðinni var meiri blanda af yngri og eldri ballgestum. Og Geirmundur vann stöðugt í því að viðhalda þessum vinsældum næstu árin, hann gaf út sólóplötur með tveggja ára millibili fram að aldamótum og mörg laga hans urðu vinsæl meðal þeirra eldri sérstaklega en hann náði einnig til hinna yngri t.d. þegar hann flutti þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga sumarið 1991 – Þjóðhátíð í Eyjum, og lék einnig á hátíðinni.

Geirmundur og félagar um 1980
Þegar hér var komið sögu hafði sveitin spilað sleitulítið flestar helgar ársins nokkur ár í röð og ekkert lát varð á því næstu árin, dæmi voru um að hún væri bókuð allt að tvö ár fram í tímann og nú var allt landið undir. Sveitin lék mjög mikið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og nú bættust einnig við landshlutar eins og norðanverðir Vestfirðir – sveitin náði þó líklega aldrei að leika á Ísafirði. Þess má geta að veturna 1991-92 og 1992-93 fór sveitin þá óvenjulegu leið að auglýsa sig á búningum körfuknattleiksliðs Tindastóls á Sauðárkróki, og vakti það óneitanlega mikla athygli.
Geirmundur og hljómsveit hans voru á þessum tímapunkti komin á það stig að tónlistardagskrá var sett á svið á Broadway í upphafi árs 1993 og tileinkuð tónlist Geirmundar, og þar lék sveitin sjálf reyndar nokkurt hlutverk með aðstoð þekktra tónlistarmanna á borð við Magnús Kjartansson hljómborðsleikara, Einars Braga Bragasonar saxófónleikara og Ásgeirs Steingrímssonar trompetleikara, söngvararnir Ari Jónsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Berglind Björk Jónasdóttir voru svo til að fylla raddirnar en hljómsveitin lék svo á dansleik að sýningu lokinni. Sýningin gekk fram á sumar en nokkur ár á eftir átti sveitin eftir að leika á dansleikjum á Broadway við ýmis tækifæri og tilefni – álíka sýning var svo einnig sett á svið í Sjallanum á Akureyri. Sæluvika og Húnavaka voru svo enn á sínum stað þrátt fyrir allt annað sem var á dagskrá sveitarinnar.
Engar breytingar höfðu orðið á skipan sveitarinnar um nokkurra ára skeið en Kristján Baldvinsson trommuleikari hafði þó tekið við trommukjuðunum af Jóhanni, og árið 1994 tók Ragnar Grétarsson bassaleikari sæti Sólmundar. Ragnar staldraði stutt við og Steinar Gunnarsson leysti hann af hólmi í upphafi árs 1995. Undir lok aldarinnar urðu enn breytingar á liðskipaninni þegar Eiríkur gítarleikari hætti árið 1998 og Ingvar Grétarsson söngvari og gítarleikari kom í hans stað, um sama leyti hætti Kristján Baldvinsson trommari en nafni hans Kristján Kristjánsson leysti hann af. Og enn urðu bassaleikaraskipti þegar Björn Sigurðsson kom inn fyrir Steinar svo Geirmundur skipti á nánast einu augnabliki um allan mannskapinn.

Hljómsveit Geirmundar 1993
Þarna má segja að sveitin hafi náð hápunktinum áratuginn á undan, frá árinu 1988 til 1998 en þá naut hún þeirrar athygli sem Eurovision-lög Geirmundar og plötur hans vöktu meðal landsmanna. Í hönd fór tímabil þar sem sveitin spilaði vissulega við miklar vinsældir en aðdáendahópurinn var nú almennt tekinn að eldast nema e.t.v. á heimaslóðum. Geirmundur hélt áfram að senda frá sér plötur en þær nutu ekki eins mikillar hylli og áratuginn á undan.
Samkomu- og dansleikjahald var einnig að taka breytingum, pöbbarnir höfðu hafið innreið sína í kjölfar þess að bjórinn var leyfður vorið 1989 og smám saman fjaraði undan sveitaböllunum, í nokkur ár eftir áramótin héldu stærstu félagsheimilin velli en böllunum fór fækkandi og aðsóknin líka og að lokum lögðust þessu gamalgrónu sveitaböll nánast af. Hljómsveit Geirmundar hélt þó áfram sínu striki að því leyti að Sæluvika og Húnavaka voru haldnar áfram, sem og þorrablót og stórir hestamannadansleikir en almennu böllin dóu út, í staðinn komu dansleikir á stöðum eins og Players í Kópavogi og svo bæjarhátíðir víða um land, en á öðrum áratug nýrrar aldar fjaraði enn frekar undan dansleikjahaldi.

Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar 1998
Geirmundur skipti aftur um mannskap í byrjun árs 2002, þá mættu til leiks Jóhann M. Jóhannsson trommuleikari sem lék með sveitinni um tíma áður en Kristján mætti aftur til leiks, Hlynur Guðmundsson söngvari og gítarleikari og Vignir Kjartansson bassaleikari en nú var álagið orðið mun minna og á mælikvarða Geirmundar hefði það einhvern tímann þótt lélegt að spila bara á laugardögum og stöku sinnum á föstudögum. Einhverjar frekari mannabreytingar urðu á sveitinni en ekki liggja fyrir upplýsingar um þær allar, Guðmundur Engilbertsson gítarleikari og söngvari kom þó inn í stað Hlyns og lék með sveitinni 2005-07 og Borgar Þórarinsson gítarleikari lék með henni um tíma sem og Reynir Snær Magnússon gítarleikari. Í viðtali árið 2008 sagðist Geirmundur vera eiginlega með þrjú bönd í gangi – eitt á höfuðborgarsvæðinu, annað fyrir norðan og svo það þriðja þar sem þeir voru bara tveir, Geirmundur og Jóhann M. Jóhannsson trommuleikari og sinntu „smærri verkefnum“.
Eftir kreppu 2008-09 fjaraði enn undan spilamennskunni, sveitin starfaði þó í nokkur ár eftir það og líklega til ársins 2019 en hætti alveg störfum þegar Covid-faraldurinn skall á heimsbyggðina með þeim þunga og afleiðingum að allt samkomuhald lá niðri um hartnær tveggja ára skeið – það reið sveitinni endanlega að fullu en það hefur sjálfsagt spilað inn í að Geirmundur sjálfur var þá kominn af allra léttasta skeiðinu og fannst þetta orðið nokkuð gott, hann var þá orðinn 75 ára gamall og hafði staðið í eldlínunni allt frá árinu 1971 með sinni eigin sveit en spilað nánast samfleytt með hljómsveitum frá 1958 eða í ríflega sextíu ár. Sem er ótrúlegt úthald.
Og þannig lauk sögu þessarar merkilegu og langlífu sveitar sem eitthvað á þriðja tug meðlima léku með í gegnum tíðina en dansleikir og aðrar uppákomur með sveitinni hljóta að skipta þúsundum, það er líklega tala sem Geirmundur einn hefur á hreinu.














































