Á sólstöðum

Á sólstöðum
(Lag / texti: Páll Sigurðsson / Jónbjörg S. Eyjólfsdóttir og Páll Sigurðsson)

Á sólbjörtu kveldi í sumarsins yl
Ég sit hér í hvamminum ein
og horfi á geislanna glóbjarta spil
er glampar á sævotan stein.
Ég hlusta í leiðslu á lækjarins nið,
á laufþyt í kjarri og þrastanna klið
er kveða þeir sumrinu ljóð sitt og lag
og lofsyngja komandi dag.

Ég býð þér um sólkvöld að sitja hjá mér
við sönginn og geislanna spil,
því ilmur úr jörðu er áfengur hér
og ævintýr verða hér til.
Og viljir þú koma er kvöldsólin dvín
þá komdu í hvamminn,ég vænta mun þín,
því ævintýr bíða hér okkar í nótt
þá allt er svo fagurt og hljótt.

Er kvöldhúmið líður svo létt yfir grund
og lognaldan hjalar við strönd,
við eigum í hvamminum unaðarstund
hvar eilífðar hnýtum við bönd.
Í döggvotu grasinu göngum við hljóð
með gleði í hjörtum og dálítið rjóð,
en morgunsól kyssir nú brosandi blóm
við bárunnar fegursta hljóm.

[á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Austfirskir staksteinar III]