Z-glúbb (1985)

Hljómsveit sem starfaði um miðjan níunda áratug tuttugustu aldarinnar hét þessu nafni og starfaði að öllum líkindum á Þórshöfn á Langanesi. Meðlimir Z-glúbb voru þeir Helgi Mar Árnason trommuleikari, Snorri Þorkelsson gítarleikari og Marinó Stefánsson hljómborðsleikari. Sveitin spilaði aldrei opinberlega.

Zafír (1989 – 1991)

Hljómsveit að nafni Zafír var starfandi allavega á árunum 1989-91 og innihélt bassaleikarann Hall Guðmundsson. Engar aðrar upplýsingar liggja þó fyrir um þessa sveit.

Zero (1965 – 1968)

Hljómsveitin Zero starfaði í Langholtsskóla um miðjan sjöunda áratug 20. aldarinnar. Í henni voru m.a. Ragnar Daníelsen gítarleikari (Stuðmenn o.fl.) og Sæmundur Haraldsson. Sveitin var líklega uppi á árunum 1965-68 en ekki er vitað um frekari deili á henni, allar upplýsingar þ.a.l. eru vel þegnar.

Zikk Zakk (1993 – 1995)

Akureyska bræðingssveitin Zikk Zakk lék nokkrum sinnum opinberlega á árunum 1993-95. Meðlimir sveitarinnar voru þeir Pálmi Gunnarsson bassaleikari, Sigfús Óttarsson trommuleikari, Kristján Edelstein gítarleikari og Karl Olgeirsson hljómborðsleikari. Eitthvað fækkaði í sveitinni eftir því sem á leið og starfaði Zikk Zakk sem tríó undir það síðasta.

Zorglúbb (1993)

Zorglúbb úr Reykjavík keppti í Músíktilraunum 1993 en varð ekki ein þeirra sveita til að komast í úrslit keppninnar það árið. Sveitina skipuðu þeir Bragi Valdimar Skúlason gítarleikari, Guðmundur Ingi Gunnarsson gítarleikari, Helgi Guðbjartsson trommuleikari, Örlygur Benediktsson hljómborðsleikari og söngvari og Snorri Hergill Kristjánsson bassaleikari.