Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar (1957-72 / 1981-82)

Hljómsveit Magnúsar Ingimarsson og Sigrún Jónsdóttir 1960

Magnús Ingimarsson píanóleikari starfrækti nokkrar hljómsveitir í eigin nafni en ein þeirra var afar vinsæl húshljómsveit á Röðli til margra ára og um leið stúdíóhljómsveit sem lék inn á fjölda hljómplatna en Magnús starfaði á annan áratug sem útsetjari og hljómsveitarstjóri fyrir SG-hljómplötu-útgáfuna.

Fyrsta hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar starfaði undir lok sjötta áratugarins en ekki liggja miklar upplýsingar fyrir um þá sveit, sú sveit lék ásamt fleiri hljómsveitum á miðnæturskemmtun í Austurbæjarbíói haustið 1957 og litlu síðar lék hún í útvarpsþætti. Þessi hljómsveit starfaði líklega um nokkurra mánaða skeið fram eftir árinu 1958. Á þeim tíma sem sveitin starfaði lék hún inn á tvær hljómplötur, með Skapta Ólafssyni (Ef að mamma vissi það / Syngjum dátt og dönsum) árið 1957 en þar voru meðlimir sveitarinnar Gunnar Reynir Sveinsson trommuleikari, Pétur Jónsson saxófónleikari, Donald Walker bassaleikari, Magnús Randrup saxófónleikari og Magnús sjálfur á gítar – á seinni plötunni sem kom út 1958 og var með Ingibjörgu Smith (Áður í iðgrænum lundi / Nú liggur vel á mér) er sveitin hins vegar skipuð Jóni Páli Bjarnasyni gítarleikara, Pétri Urbancic bassaleikara, Þórði Hafliðasyni ásláttarleikara, Gísla Ferdinandssyni þverflautuleikara og Magnúsi á gítar, þetta bendir til að þessar sveitir hafi verið settar saman einvörðungu til að leika inn á plöturnar og að danshljómsveitin hafi því verið skipuð jafnvel allt öðrum tónlistarmönnum.

Hljómsveit Magnúsar og Anna Vilhjálms

Magnús var fenginn til að stýra hljómsveit í nýlegum söngleik sem settur var á svið í Framsóknarhúsinu (síðar Glaumbæ) haustið 1959 en hann útsetti jafnframt tónlistina í verkinu, í beinu framhaldi lék hljómsveitin áfram í húsinu um veturinn en þessi sveit lék einnig inn á tveggja laga plötu (Marina / Vögguvísa) með Sigrúnu Jónsdóttur, sú sveit var skipuð Pétri Jónssyni saxófónleikara, Gunnari Sigurðssyni bassaleikara og Gunnari Mogensen trommuleikara auk Magnúsar sem sjálfur lék á píanó og harmonikku en Sigrún söng með sveitinni á dansleikjum. Þessi sveit hætti störfum um sumarið 1960.

Magnús stjórnaði næst hljómsveit sem lék inn á plötuna um ævintýri Karíusar og Baktusar en sú plata kom út á vegum SG-hljómplatna árið 1965 sem Svavar Gests hafði þá nýverið stofnað, engar upplýsingar eru um þá hljómsveit. Það var svo í ársbyrjun 1966 sem Magnús setti á stofn hljómsveit sem ráðin var sem húshljómsveit á Röðli og átti hún eftir að starfa þar um árabil sem og að leika um alla landsbyggðina yfir sumartímann, hún átti þá ennfremur eftir að leika inn á nokkrar plötur í eigin nafni.

Þegar sveitin var stofnuð til að leika á Röðli var hún skipuð þeim Magnúsi sem lék á píanó, Alfreð Alfreðssyni trommuleikara, Garðari Karlssyni gítarleikara, Vilhjálmi Vilhjálmssyni bassaleikara og söngvara og Önnu Vilhjálmsdóttur söngkonu, Vilhjálmur var sveitinni mikill happafengur en hann var þá nýfluttur að norðan þar sem hann starfaði með Hljómsveit Ingimars Eydal og um sama leyti nutu lögin Litla sæta ljúfan góða, Raunasaga og Vor í Vaglaskógi gríðarlegra vinsælda. Svavar Gests, sem hafði gefið út þau lög gerði sér vel grein fyrir möguleikunum og þess vegna leið ekki á löngu þar til sveit Magnúsar hafði farið í Útvarpshúsið og tekið upp fjögur lög sem komu svo út um vorið. Þeirra á meðal var lagið Það er bara þú sem naut hvað mestrar hylli. Og sveitin hafði strax meira en nóg að gera og sér í lagi Magnús því hann var þarna að verða þekktur útsetjari fyrir Svavar og SG-hljómplötur, sveitin lék t.a.m. undir í lögum sem kepptu í Danslagakeppni Útvarpsins um vorið 1966 en þau höfðu verið flutt í útvarpsþættinum Á góðri stund fyrr um veturinn – lögin komu út á plötunni Úrslitalögin í Danslagakeppni Útvarpsins og þar sungu Vilhjálmur og Anna hvort sitt lagið við undirleik sveitarinnar en aukreitis léku Grettir Björnsson harmonikkuleikari, Halldór Pálsson þverflautuleikari, Árni Elfar básúnuleikari og Björn R. Einarsson básúnuleikari með sveitinni á plötunni. Þá annaðist sveitin einnig undirleik á breiðskífu Ómars Ragnarssonar – Gamanvísur og annað skemmtiefni hljóðritað að viðstöddum áheyrendum sem kom út um sama leyti.

Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og Marta Bjarnadóttir

Um vorið 1966 urðu þær breytingar á skipan sveitarinnar að Birgir Karlsson gítarleikari tók við af Garðari. Sveitin hafði feikinóg að gera, um sumarið var hún í fríi frá Röðli en fór þess í stað um landsbyggðina með sjálfstæðisflokknum og lék á dansleikjum tengdum tuttugu og fjórum héraðsmótum á um átta vikum, þegar hún sneri aftur í Röðul um haustið hafði Anna yfirgefið sveitina í bili vegna barneigna en Marta Bjarnadóttir söng með sveitinni til áramóta þegar Anna mætti aftur á sviðið. Sveitin lék flest kvöld vikunnar á Röðli og hélst óbreytt til vorsins 1967 þegar Anna hætti aftur en að þessu sinni tók við 18 ára gömul söngkona, Þuríður Sigurðardóttir dóttir Sigurðar Ólafssonar, sem var einnig þekktur söngvari en Þuríður átti eftir að syngja með sveitinni næstu árin – söngkonur á borð við Önnu Vilhjálms, Sigrúnu Harðardóttur og Svanhildi Jakobsdóttur áttu þó eftir að leysa hana af um skemmri tíma þegar á þurfti að halda, á sama hátt átti Halldór Kristinsson eftir að leysa Vilhjálm af þegar þurfti.

Sveitin lék áfram á Röðli megnið af árinu 1967 og um sumarið lék hún á héraðsmótum úti á landi, sveitin var jafnframt dugleg að koma fram í útvarpi og sjónvarpi en Ríkissjónvarpið var nýtekið til starfa á þessum árum. Ný plata leit dagsins ljós haustið 1968, þar var á ferð fjögurra laga skífa þar sem þau Þuríður og Vilhjálmur sungu m.a. lagið S.O.S. ást í neyð sem er fyrir löngu orðið sígilt. Reyndar kom svo út önnur plata fyrir jólin þar sem sveitin kom við sögu en það var jólaplatan Gáttaþefur á jólaskemmtun með börnunum þar sem Ómar Ragnarsson og telpnakór úr Álftamýrarskóla, sú plata er löngu orðin sígild.

Hljómsveit Magnúsar starfaði áfram á Röðli en sendi einnig áfram frá sér tvær plötur með söng þeirra Þuríðar og Vilhjálms árið 1969, Þuríður söng á tveggja laga plötu (Ég á mig sjálf / Ég ann þér enn) og Vilhjálmur einnig (Hún hring minn ber / Árið 2012) en öll lögin nutu vinsælda og sveitin var þarna án nokkurs vafa meðal vinsælustu hljómsveita landsins þótt hún væri ekki beinlínis í anda þess hipparokks sem hljómsveitir eins og Trúbrot voru að flytja um það leyti. Það sama ár kom reyndar einnig út breiðskífa með systkinunum Vilhjálmi og Elly – Systkinin Vilhjálmur og Elly syngja saman, þar sem sveitin lék undir en Þuríður kom þar hvergi nærri. Þess má geta að söngleikurinn Delerium Bubonis (e. Jónas og Jón Múla Árnason) var settur á svið Þjóðleikhússins árið 1969 og þá hljóðritaði sveitin lagið Vikivaki úr söngleiknum, það kom þó ekki út fyrr en á safnplötunni Næst á dagskrá árið 1982 – á þeirri upptöku léku þeir Vilhjálmur, Birgir, Magnús og Alfreð auk Rúnars Georgssonar á þverflautu.

Hljómsveit Magnúsar 1967

Þær breytingar urðu á skipan sveitarinnar um sumarið 1969 að Vilhjálmur sagði skilið við hana og við bassaleikarahlutverkinu tók ungur Vopnfirðingur, Pálmi Gunnarsson sem einnig söng með sveitinni ásamt Þuríði. Trommuleikari sveitarinnar, Einar Hólm Ólafsson sem þá var tiltölulega nýtekinn við trommunum söng einnig svo sveitin var afar vel sett hvað sönginn varðar en aðrir meðlimir sveitarinnar voru á þeim tímapunkti Birgir Karlsson og Magnús Ingimarsson hljómsveitarstjóri. Þau Þuríður og Pálmi urðu síðar hjón.

Hljómsveitin starfaði áfram á Röðli yfir vetrartímann og á héraðsmótum á sumrin næstu árin með sama mannskapnum, árið 1971 tók Jón Ólafsson bassaleikari við af Pálma en Einar trommuleikari og Þuríður sáu um sönginn. Þá um vorið hætti sveitin á Röðli en færði sig svo yfir í Þjóðleikhúskjallarann um haustið þar sem hún starfaði um veturinn en sveitin hætti svo störfum um vorið 1972, Pálmi kom inn í sveitina á nýjan leik undir lokin.

Þar með var sex ára ballspilamennsku lokið hjá Magnúsi og félögum en hann hélt áfram að starfa við útsetningar næstu árin fyrir Svavar Gests og vann við fjölmargar plötur sem komu út á þeim árum, hlutverk hans var fyrst og fremst útsetningar en einnig stjórnaði hann hljómsveitum við slíkar upptökur, t.d. á plötunni Verkstæði jólasveinanna (1973) en ekki liggur fyrir hverjir léku með honum þar. Hins vegar voru gamlir kunningjar með Magnúsi á plötunni Áfram stelpur sem kom út haustið 1975 en þar er Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar titluð flytjandi, meðlimir þeirrar útgáfu sveitarinnar auk Magnúsar voru Birgir Karlsson gítarleikari, Alfreð Alfreðsson trommuleikari, Pálmi Gunnarsson bassaleikari og Árni Scheving víbrafónleikari. Það sama ár og árið eftir komu svo út tvær plötur með Fjórtán Fóstbræðrum þar sem hljómsveit Magnúsar lék undir í syrpum kórsins og var skipan sveitarinnar með svipuðum hætti og hér að framan, reyndar auk nokkurra auka strengja- og brassleikara.

Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar 1969

Hin eiginlega hljómsveit Magnúsar kom hins vegar saman á nýjan leik í sjónvarpsþáttum um það leyti, annars vegar með Vilhjálmi og Þuríði árið 1976 og hins vegar í áramótaskemmtiþætti ári síðar – ekki liggur fyrir hverjir léku með sveitinni ásamt Magnúsi í þeim þáttum. Þegar sveitin var svo endurreist fyrir 50 ára afmælishátíð FÍH í febrúar 1982 þar sem hún lék á tónleikum af því tilefni, voru Pálmi bassaleikari og söngvari, Þuríður söngkona, Einar Hólm trymbill og Magnús píanóleikari í sveitinni og líklega var Birgir gítarleikari þar einnig.

Í millitíðinni (1981) hafði Magnús stjórnað tíu manna hljómsveit í eigin nafni í Söngvakeppni Sjónvarpsins þar sem fyrrum söngvari og bassaleikari sveitarinnar, Pálmi Gunnarsson sigraði með lagið Af litlum neista, ekki liggur fyrir nema að nokkru leyti hverjir skipuðu þessa stóru sveit Magnúsar en Ásgeir Óskarsson trommuleikari, Þórður Árnason gítarleikari, Tómas M. Tómasson bassaleikari, Sigurður Flosason saxófónleikari, Kristinn Svavarsson saxófónleikari og Magnús sjálfur voru í henni.

Hljómsveit Magnúsar Ingimarsson kom líklega ekki aftur saman eftir FÍH tónleikana 1982.

Efni á plötum