Hljómsveit Árna Elfar (1958-64 / 1981-85)

Hljómsveit Árna Elfar

Píanistinn og myndlistarmaðurinn Árni Elfar starfrækti nokkrar hljómsveitir á starfsævi sinni, hann hafði t.a.m. verið með tríó sem starfaði á árunum 1952-53 en árið 1958 stofnaði hann danshljómsveit sem starfaði um nokkurra ára skeið á skemmtistöðum Reykjavíkur undir nafninu Hljómsveit Árna Elfar og var þá á meðal vinsælustu hljómsveita landsins.

Tildrög þess að Hljómsveit Árna Elfar var stofnuð voru þau að skemmtistaðurinn Röðull var haustið 1958 að opna í nýju húsnæði við Skipholt en hann hafði áður verið í húsnæði við Laugaveg, jafnframt var veitingakonan Helga Marteinsdóttir að taka við rekstrinum sem átti eftir að vera blómlegur undir hennar stjórn. Árni var því fenginn til að mynda hljómsveit sem átti eftir að leika þar í fjögur ár sem húshljómsveit, reyndar lék sveitin eitthvað einnig á öðrum skemmtistöðum á þeim árum – t.d. Breiðfirðingabúð.

Meðlimir sveitarinnar voru auk Árna sem lék á píanó, básúnu og jafnvel harmonikku, þeir Hjörleifur Björnsson bassaleikari, Sveinn Óli Jónsson trommuleikari og Jón Sigurðsson trompetleikari en Gunnar Guðjónsson gítarleikari tók við af Jóni vorið 1960. Einnig lék Alfreð Alfreðsson trommuleikari eitthvað með sveitinni. Fjölmargir söngvarar komu við sögu þessarar sveitar, Haukur Morthens sem um þetta leyti var einn alvinsælasti söngvari landsins söng lengst af með sveitinni en einnig sungu Kolbrún Hjartardóttir, Sigrún Ragnarsdóttir, Erling Ágústsson, Ragnar Bjarnason, Sigríður Geirsdóttir (Sirrý Geirs), Harvey Árnason, Berti Möller og fleiri með henni um skemmri tíma. Nokkrir erlendir söngvarar og skemmtikraftar komu fram með hljómsveit Árna á Röðulsárunum og hér má nefna bandaríska söngvarann Frankie Lymon, dönsku söng- og leikkonuna Gitte Hænning og söngkvartettinn Four jacks sem sungu reyndar með sveitinni á tónleikum í Austurbæjarbíói.

Hljómsveit Árna Elfar 1962

Hljómsveit Árna Elfar starfaði á Röðli fram á haustið 1962 en fór þá yfir í Glaumbæ, Berti Möller sem þá hafði verið söngvari sveitarinnar um skeið fór með henni þangað en söngvarar voru á þeim tíma ekki hluti af hljómsveitunum heldur lausráðnir, Ragnar Bjarnason söng svo eitthvað með sveitinni einnig sem og Herbie Stubbs. Hljómsveitin var á þeim tíma skipuð sama mannskap og áður nema að saxófónleikarinn Rögnvaldur Árelíusson bættist í hópinn en um það leyti var sveitin einnig að leika á djasskvöldum.

Sveitin starfaði til haustsins 1963 en þá hlaut Árni Elfar fastráðningu við Sinfóníuhljómsveit Íslands og sagði því skilið við dans- og dægurtónlistarbransann að mestu. Sveitin var þó reyndar endurreist um ári síðar til að leika undir á söngskemmtun Hallbjargar Bjarnadóttur í Háskólabíói, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina með Árna á þeim tónleikum.

Fáeinar og skammlífar sveitir áttu síðar eftir að starfa í nafni Árna Elfar, hann stjórnaði til dæmis hljómsveit á plötunni Skaup ´73 sem hafði að geyma blöndu tónlistar og grínefnis – meðlimir þeirrar sveitar voru auk Árna þeir Björn R. Einarsson básúnuleikari, Guðmundur R. Einarsson tromuleikari, Helgi E. Kristjánsson gítarleikari, Hrafn Pálsson bassaleikari og söngvari, Jón Sigurðsson trompetleikari og Stefán G. Jóhannsson trommuleikari. Tónlistin á plötunni var djassættar rétt eins og sú sem hljómsveit Árna lék opinberlega haustið 1981, þá lék einnig hljómsveit í hans nafni á djasstónleikum árið 1985 en ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu þær sveitir. Þó má ætla að hún hafi a.m.k. að einhverju leyti verið skipuð sama mannskap og léku með Árna á afmælistónleikum FÍH árið 1982 en þar voru Sveinn Óli Jónsson trommuleikari og Helgi E. Kristjánsson bassaleikari með honum.

Efni á plötum