Sveiflubræður [1] (1968)

Hljómsveitin Sveiflubræður var líklega aldrei til sem starfandi sveit og aukinheldur er líklegt að hún hafi fengið nafn sitt fjörutíu árum eftir að hún lék á upptöku í Súlnasal Hótel Sögu.

Í raun var hér um að ræða hljómsveit Ragnars Bjarnasonar sem starfaði á Hótel Sögu og var húshljómsveit þar til margra ára. Þeir félagar voru í maí 1968 að gera sig klára fyrir dansleik þegar þeir tóku upp á því að djamma um stund og fyrir einhverja tilviljun að því er virðist var segulbandið sett af stað (venjulegt heimilissegulbandstæki) og afraksturinn var fjögur lög sem árið 2008 rötuðu inn á djassplötu með Árna Elfar píanóleikara, sem hafði að geyma upptökur frá ýmsum tímum og var gefin út af Jazzvakningu. Upptökunni var aldrei ætlað að fara á plötu en þótti nógu vel heppnuð til að það gerðist þarna fjörutíu árum síðar og þá var líklega nafninu Sveiflubræður skeytt á sveitina.

Þeir félagar höfðu þarna eitthvað skipst á hljóðfærum og því lék Grettir Björnsson á klarinettu en hann var venjulega harmonikkuleikari hljómsveitar Ragnars, Árni Scheving lék á víbrafón (sem hann gerði alla jafna í djassinum) en var yfirleitt bassaleikari sveitarinnar, þess vegna þurfti Jón Páll Bjarnason gítarleikari að færa sig yfir á bassann en þeir Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari og Árni Elfar píanóleikari léku á sín venjulegu hljóðfæri.

Ekkert bendir til annars en að hér hafi verið um einstakan atburð að ræða hjá hljómsveitinni.