Svartur ís (1998)

Svartur ís

Hljómsveitin Svartur ís starfaði um nokkurra mánaða skeið árið 1998 og skartaði þekktum tónlistarmönnum, sveitin lék fönkskotna tónlist á skemmtistöðum borgarinnar og sendi frá sér eitt lag á safnplötu sem fór reyndar ekki hátt.

Svartur ís kom fram á sjónarsviðið í mars 1998 en gæti hafa verið starfandi frá því árið á undan, sveitin lék að því er virðist nánast eingöngu á höfuðborgarsvæðinu á stöðum eins og Gauki á Stöng, Kaffi Reykjavík og Broadway en hana skipuðu gamalreyndir kappar úr íslensku tónlistarlífi og reyndar erlendis líka því söngvari sveitarinnar var Harold Burr fyrrverandi söngvari The Platters en hann bjó þá hér á landi, aðrir liðsmenn sveitarinnar voru einnig þekktir en þeir voru Halldór Gunnlaugur Hauksson trommuleikari, Jóhann Ásmundsson bassaleikari, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari og Sigurður Flosason saxófón- og slagverksleikari.

Svartur ís átti eitt lag á sumarsafnplötunni Svona er sumarið ´98 en það náði ekki teljandi útbreiðslu. Sveitin starfaði fram á haustið en virðist svo hafa lognast út af án frekari afreka.