Svanhildur Leósdóttir (1940-2009)

Svanhildur Leósdóttir

Nafn Svanhildar Leósdóttur er þekkt um norðanvert landið en hún kom víða við í tónlistarlegum skilningi, samdi bæði lög og ljóð, starfrækti hljómsveitir, var öflug í félagsstarfi  harmonikkuleikara við Eyjafjörð og gaf út plötu í eigin nafni.

Svanhildur Sumarrós Leósdóttir fæddist sumarið 1940 á Akureyri en ólst upp á Mýrarlóni sem í dag er vel innan bæjarmarka Akureyrar, hún bjó alla sína tíð á Akureyri. Hugur Svanhildur snerist snemma að tónlist og hún mun hafa verið tíu ára gömul þegar hún byrjaði að koma fram með söng og gítarleik, ekki liggur fyrir hvort hún fór í eiginlegt tónlistarnám en tónlistin var henni alltént í blóð borin því hún var farin að semja lög og ljóð snemma á lífsleiðinni og reyndar var hún einnig þekkt nyrðra sem hagyrðingur og tók virkan þátt í áhugamannaleikhússtarfinu á Akureyri framan af ævi.

Svanhildur var ekki langskólagengin og starfaði lengst af við verkamannastörf en helgaði sig tónlist í tómstundum sínum, hún söng bæði í kirkju- og kvennakórum og var m.a. einn af stofnfélögum í Söngfélaginu Gígjunni 1967. Þá var hún einnig meðal stofnmeðlima Félags harmonikuunnenda við Eyjafjörð þrátt fyrir að hún hafi ekki leikið á harmonikku (svo heimildir séu fyrir) en hún var öflug í félagsstarfinu, var þar í stjórn um tíma og lék á gítar í hljómsveit félagsins. Hún tók jafnframt þátt í lagakeppnum sem haldnar voru innan félagsins og varð þokkalega ágengt í þeim, auk þess sem hún kom oft fram á samkomum þess með skemmtiatriði, söng gjarnan eigin gamanvísur.

Svanhildur stofnaði ásamt Kristjáni H. Þórðarsyni eiginmanni sínum og syni, Brynjari Kristjánssyni hljómsveit sem gekk undir ýmsum nöfnum, Tríó Svanhildar þegar þau voru þrjú á ferð en 2-3-4 þegar meðlimafjöldinn var breytilegur, þá var Hannes Arason bassaleikari gjarnan með fjölskyldumeðlimum. Sveitin hafði verið stofnuð árið 1987 en Brynjar var þá aðeins tólf ára gamall (yngstur fimm barna þeirra) og var trommuleikari sveitarinnar en Kristján lék á harmonikku. Sveitin lék á árshátíðum og almennum dansleikjum um árabil og lagði einkum áherslu á gömlu dansana og þess konar tónlist.

Svanhildur með gítar í hönd

Haustið 1997 gaf Svanhildur út upp á sitt einsdæmi sautján laga plötu undir nafninu Perlur minninganna en á henni var að finna lög úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum en þrjú þeirra voru eftir hana sjálfa sem og tólf textanna – sá elsti var frá því hún var á sextánda ári. Lögin á plötunni söng hún sjálf en þeir feðgar Kristján og Brynjar léku á plötunni auk fáeinna aðstoðarmanna, fremstur þar í flokki var Kristján Edelstein sem var við takkana og hélt utan um verkefnið auk þess að leika á hljómborð og gítar. Platan fékk þokkalega dóma í Degi.

Önnur plata kom út árið 2008 en sú plata bar titilinn Hvít segl og var í nafni Hljómsveitar Svanhildar sem var eins konar afbrigði af fyrrnefndri sveit þeirra. Lögin á þeirri plötu voru sextán talsins og samdi hún sjálf tvö þeirra og alls fjóra texta.

Svanhildur hafði átt við heilsubrest að stríða um nokkurra ára skeið og lést haustið 2009, á sjötugasta aldursári.

Efni á plötum