Hlífarkórinn (1954-)

Hlífarkórinn

Kór hefur verið starfandi innan kvenfélagsins Hlífar um langt árabil og er að öllum líkindum enn starfandi þó ekki finnist heimildir um starfsemi hans eftir 2018, kórinn gengur undir nafninu Hlífarkórinn.

Kvenfélagið Hlíf á Ísafirði var stofnað árið 1910 og hefur síðan þá haldið utan um samsæti fyrir eldri borgara á Ísafirði en það mun vera lengsta samfellda samkomuhald sinnar tegundar hérlendis. Árið 1954 var stofnaður kór innan Hlífar fyrir tilstilli Fríðu Sigurðsson í því skyni að syngja á samkomunni sem um það leyti gekk undir nafninu „gamalmennasamsætið“ og var þá haldin í Alþýðuhúsinu á Ísafirði í febrúar eða mars ár hvert. Jónas Tómasson tónlistarfrömuður á Ísafirði stjórnaði kórnum fyrstu ellefu árin en árið 1965 tók Guðrún Eyþórsdóttir við kórstjórninni og var við stjórnvölinn til 1982. Ekki er alveg ljóst hver tók við af Guðrúnu en Beata Joó stjórnaði kórnum um tveggja ára skeið áður en Ágústa Þórólfsdóttir gerðist stjórnandi kórsins líklega 1988 en hún stjórnaði Hlífarkórnum í fáein ár áður en Margrét Geirsdóttir tók við starfinu, hún var ennþá stjórnandi kórsins árið 2018 þegar síðast spurðist til hans.

Hlífarkórinn, sem líklega innihélt lengst af 20 til 25 söngkonur, söng lengi vel eingöngu við þetta eina árlega tækifæri, samsæti eldri borgara en á síðasta áratug aldarinnar var svo komið að hann söng einnig við messu um það sama leyti og samsætið var á vorin.

Óskað er eftir upplýsingum um hvort Hlífarkórinn sé enn starfandi, fyrir liggur að starfsemi kvenfélagsins hefur minnkað eftir því sem árin hafa liðið því ekki er mikil endurnýjun almennt í kvenfélögum og því er óvíst hvort enn sé hægt að manna kór innan félagsins.