Söngfélag Ísfirðinga (1876-1906)

Söngfélag Ísfirðinga eða Söngfélag Ísafjarðar var eitt eða fleiri söngfélag/kór sem starfaði í kringum aldamótin 1900 á Ísafirði, ekki er ólíklegt að um hafi verið að ræða nokkur söngfélög sem störfuðu hvert í kjölfar annarra en heimildir eru margar fremur misvísandi og vísa sumar hverjar þvert á aðrar.

Það mun hafa verið Björn Kristjánsson sem stofnaði söngfélag fyrst á Ísafirði en það var árið 1876, Guðmundur Guðmundsson var þó líklega fyrsti söngstjórinn en um hann eru fáar upplýsingar aðrar en þær að hann gekk undir nafninu Guðmundur söngur því hann söng alltaf við vinnu sína. Líklegt er að þessi fyrsta útgáfa söngfélags á Ísafirði hafi verið karlakór því þremur árum síðar (1879) virðist Björn hafa stofnað annað söngfélag sem var blandaður kór, kórarnir tveir gætu hafa starfað samhliða.

Blandaði kórinn virðist hafa verið nokkuð fjölmennt og öflugt söngfélag, hann innihélt veturinn 1881-82 um fjörutíu manns og starfaði þá undir stjórn Björns og Gríms Jónssonar, kórinn hélt t.a.m. tónleika á annan í jólum 1881 sem um fjögur hundruð manns sóttu en mörg laganna sem kórinn flutti þar sömdu þeir félagar og raddsettu. Starf söngfélaganna virðist fyrst og fremst hafa verið á veturna og segir t.d. í heimildum að kórinn hafi fyrst farið að æfa fyrir tónleikana í október um haustið. Ekki liggur fyrir hversu lengi þessi kór starfaði en enn aðrar heimildir greina frá því að Grímur og Árni Sveinsson hafi stofnað söngfélag haustið 1887 og það félag hafi verið starfandi innan bindindisfélags á Ísafirði, söngfélögin á undan gætu reyndar einnig hafa gert það en slík söngfélög voru þá algeng meðal templara.

Árið 1890 greina heimildir frá að Jón Laxdal hafi tekið við söngstjórninni af Árna og hann átti eftir að stjórna kórnum (eða kórunum) næstu árin, Árni virðist þó hafa komið eitthvað við sögu einnig nema að um annað söngfélag sé að ræða. Þannig virðist söngstarfið hafa verið nokkuð samfleytt til ársins 1906 en sú tímasetning miðast við þær heimildir sem er að finna um söngfélagsstarf á Ísafirði. Það sama ár (1906) virðist hafa orðið til kór sem hefur verið kallaður Söngfélag Ísafjarðar, Söngflokkur Jóns Laxdal eða Laxdalskórinn, ekki liggur fyrir hvort sá kór sé að einhverju eða öllu leyti skipaður sama fólkinu sem söng áður eða hvort það sé alveg ný eining söngfólks. Upp frá þessu störfuðu kórar á Ísafirði undir sérstökum nöfnum og má t.d. hér nefna söngfélagið Glymjandi, Karlakór Ísafjarðar o.s.frv.

Allar frekari upplýsingar um það sem kalla mætti Söngfélag Ísfirðinga væru vel þegnar.