Hér verður eftir fremsta megni reynt að púsla saman sögu Karlakórsins Svans á Þingeyri sem ýmist var kallaður Söngfélag Þingeyringa, Söngfélagið Svanur eða Karlakórinn Svanur en saga hans spannar nokkra áratugi á fyrri hluta 20. aldarinnar.
Upphaf þessarar sögu má rekja til 1906 eða 08 og gekk kórinn fyrstu árin undir nafninu Söngfélagið Svanur, Bjarni Pétursson kennari og organisti á Þingeyri við Dýrafjörð var stjórnandi þess félags og starfaði það mestmegnis yfir vetrartímann en um var að ræða karlakór átta eða níu söngmanna. Þessi kór hætti störfum líklega árið 1911 og var annað söngfélag, Söngfélag Þingeyringa stofnað upp úr því en gekk reyndar einnig áfram undir Svans-nafninu og var þá gjarnan með forskeytinu Karlakórinn Svanur. Bjarni stjórnaði því eitthvað áfram – ekki liggur þó fyrir hversu lengi en kórinn hélt stundum tónleika undir stjórn hans í heimabyggð og hélt jafnvel tónleika á Ísafirði. Sumar heimildir herma að kórinn hafi hætt störfum árið 1914 en aðrar að hann hafi starfað allt til 1923 og verið undir það síðasta undir stjórn Ólafs Ólafssonar.
Allar frekari ábendingar varðandi þennan kór eru vel þegnar.