Söngfélag Hafnarfjarðar (1906-15)

Óskað er eftir upplýsingum um söngfélag eða kór í Hafnarfirði snemma á tuttugustu öldinni sem gekk líklega undir nafninu Söngfélag Hafnarfjarðar, heimildir herma að það hafi verið stofnað haustið 1906 af Sigfúsi Einarssyni tónskáldi en um það leyti hafði hann flust heim til Íslands eftir nám erlendis.

Söngfélag þetta mun hafa verið blandaður kór sem söng nokkuð á tónleikum en árið 1908 munu hafa verið um þrjátíu meðlimir í honum. Heimildir eru jafnframt um að kórinn hafi verið starfandi árið 1915. Ekki liggur þó fyrir hvort Sigfús var alla tíð stjórnandi hans, hann bjó aldrei í Hafnarfirði og töluverður vegaspotti var þá á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur þar sem hann var búsettur.

Einnig eru upplýsingar um að söngfélag hafi verið starfrækt í Hafnarfirði árið 1895 en það var að líkindum annað félag.