Söngfélag Latínuskólans (1854-1917)

Kór sá sem hér er kallaður Söngfélag Latínuskólans en gæti allt eins verið kallaður Söngfélag Lærða skólans, Skólakór Latínuskólans, Kór skólapilta í Lærða skólanum eða eitthvað þvíumlíkt, telst vera fyrsti kór landsins og markar því tímamót í íslenskri söng- og kórsögu. Kórinn varð jafnframt fyrstur kóra hérlendis til að syngja opinberlega og að halda tónleika.

Forsaga kórsins er sú að þegar ákveðið var að Latínuskólinn (sem síðar var einnig kallaður Lærði skólinn) yrði fluttur frá Bessastöðum til Reykjavíkur árið 1846, myndi Pétur Guðjohnsen taka að sér söngkennslu í skólanum en hann var þá nýverið kominn úr námi í Kaupmannahöfn þar sem hann hafði numið söngfræði. Hann var þá einnig orðinn organisti Dómkirkjunnar og hafði reyndar staðið fyrir því að orgel var keypt í kirkjuna sem var svo endurbyggð árið 1848, við vígslu kirkjunnar fékk hann nokkra skólapilta úr Latínuskólanum til að syngja við athöfnina en sá söngur var fjórraddaður og alveg nýtt fyrirbæri hér á landi því hér hafði tíðkast einradda söngur við messur og svo tvíradda fimmundarsöngur um nokkurt skeið – hinum nýja söngstíl hafði Pétur kynnst í Danmörku í námi sínu. Söngur piltanna vakti að vonum mikla athygli en reyndar voru nokkrir sem vildu meina að með þessu tiltæki sínu hefði Pétur „drepið“ fimmundarsönginn.

Kór var þó ekki stofnaður formlega innan Latínuskólans fyrr en 1854 og þá um vorið hélt hann fyrstu opinberu kórtónleikana hér á landi á Langaloftinu svokallaða í Latínuskólanum (húsi Menntaskólans í Reykjavík), uppistaðan í söngskránni voru þá erlend lög og þannig var það fyrstu áratugina – íslensk lög voru einfaldlega ekki til, vildu menn meina.

Pétur kenndi söng og stjórnaði kór skólans allt til 1877 þegar hann lést og í kjölfarið lítur út fyrir að kórastarfið hafi legið niðri um hríð, hins vegar komu til sögunnar þekktir „söngfræðingar“ eins og það var kallað sem önnuðust söngkennslu í skólanum næstu áratugina á eftir – það voru menn eins og Steingrímur Johnsen, Sigfús Einarsson og Brynjólfur Þorláksson.

Sú breyting varð á söngmálum í Latínuskólanum eftir andlát Péturs að þegar kór tók aftur til starfa í kringum 1880 var hann í höndum skólapilta sjálfra, þeir höfðu sjálfir frumkvæði að stofnun hans og söngstjórar voru úr hópi nemendanna. Ólafur Finsen var líkast til fyrstur slíkra söngstjóra en síðan komu ýmsir valinkunnir menn sem síðar áttu eftir að setja mark sitt á tónlistarlífið í landinu, hér má nefna Bjarna Þorsteinsson, Árna Beintein Gíslason, Kristján Kristjánsson, Sigfús Einarsson (sem nemandi) og sjálfsagt fleiri en fleiri síðar nafntogaðir tónlistarmenn voru í kórnum s.s. Sigvaldi Kaldalóns tónskáld, Pétur Á. Jónsson óperusöngvari o.fl. Svo virðist sem gap komi í kórstarfið um eða fljótlega eftir aldamótin 1900, alltént finnast afar litlar upplýsingar um söngstarfið innan Latínuskólans næstu árin þótt fullvíst sé að söngkennsla hafi verið hluti af náminu eins og fram kemur hér að ofan.

Kór skólapilta hafði komið reglulega fram opinberlega á tónleikum, Langaloftið sem minnst er á hér framar mun þannig hafa verið notað til samsöngs eins og slíkir tónleikar voru iðulega kallaðir en hefð var fyrir að kórinn kæmi fram í kringum páskana og syngi án aðgöngueyris. Einnig var fastur liður hjá skólapiltunum að syngja á tröppum Latínuskólans sem þá var í hjarta bæjarins, og heyrðist sá söngur um alla Reykjavík ef svo má segja svo fólk flykktist fljótlega á vettvang. Erlend lög höfðu verið uppistaðan í lagavali söngkennara og skólapilta í kennslunni og kórstarfinu framan af en það breyttist að nokkru leyti eftir aldamótin í kjölfar aukinnar þjóðernishyggju og sjálfstæðishugsunar.

Síðustu heimildir um söngfélag skólapilta í Latínuskólanum eru frá 1917 en þá mun Emil Thoroddsen nemandi (og síðar tónskáld) hafa verið söngstjórinn og hafði þá verið í fáein ár en nokkur eyða virðist vera í starfi kórsins áratuginn á undan því, hvort sem um er að kenna skorti á upplýsingum eða hvort kórstarfið hafi einfaldlega legið niðri. Kór var síðan ekki stofnaður innan skólans fyrr en á stríðsárunum þegar hann hafði fengið nafnið Menntaskólinn í Reykjavík, en það er auðvitað allt annar kór og önnur saga.