
Söngfélag í Reykjavík vorið 1875
Saga Söngfélags í Reykjavík eins og það var kallað, er örlítið flókin því söngfélag þetta var hluti af sögu annars félags eða öllu heldur tveggja annarra söngfélaga.
Árið 1862 hafði Jónas Helgason söngmálafrömuður stofnað söngfélag sem líklega hafði ekki opinbert nafn en var síðar kallað Söngfélagið Harpa. Um var að ræða karlakór sem var annar kórinn sem stofnaður var á Íslandi (á eftir Söngfélagi Latínuskólans) og innihélt sá kór menn úr ýmsum starfsstéttum, margir þeirra voru t.d. iðnaðarmenn eins og Jónas sjálfur. Tíu árum síðar (haustið 1872) var stofnaður annar kór af því er virðist upp úr gamla kórnum (e.t.v. hafði sá kór þá hætt störfum) og voru sex söngmenn úr gamla kórnum stofnmeðlimir hins nýja kórs sem kallaður var Söngfélag í Reykjavík. Jónas kórstjóri og Helgi bróðir hans voru aðal mennirnir á bak við þennan kór og héldu fundagerðabækur svo saga hans er nokkuð ljós þó svo að lítið sé vitað um forvera söngfélagsins. Þess má geta að nafnsins vegna hefur þessum kór stundum verið ruglað saman við Söngfélag Reykjavíkur, sem starfaði nokkru síðar og var líklega sami kór og Karlakór iðnaðarmanna.
Söngfélag í Reykjavík æfði í samkomuhúsinu Glasgow og hélt þar stundum tónleika en einnig annars staðar, kórinn var t.d. mjög virkur í kringum þjóðhátíðahöldin í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar sumarið 1874 og söng þá m.a. bæði á Þingvöllum og í Öskjuhlíð en um tuttugu manns voru í honum. Jónas gerði sitt til að halda uppi aga í söngfélaginu sem ekki virðist hafa verið vanþörf á, bæði voru menn beittir fjársektum fyrir að mæta of seint á æfingar og fyrir að mæta drukknir á æfingar, sem gerðist víst reglulega.
Kórinn starfaði fram á vorið 1875 undir þessu nafni en þá var hann endurstofnaður og hlaut þá nafnið Söngfélagið Harpa. Daginn sem nafnabreytingin var gerð var tekin ljósmynd af kórnum og fylgir hún þessari umfjöllun og einnig umfjölluninni um Söngfélagið Hörpu, það mun vera fyrsta ljósmynd sem tekin var af íslenskum kór.