Söngvakeppni Sjónvarpsins 2010 – Je ne sais quoi

Hera Björk Þórhallsdóttir

Ekki var laust við að íslenska þjóðin fylltist bjartsýni fyrir Eurovision keppnina 2010 eftir frábæran árangur Jóhönnu Guðrúnar árið á undan og nú bar svo við að áður óséður lagahöfundur, Bubbi Morthens gaf út að hann yrði meðal keppenda en hann samdi lag í samstarfi við Óskar Pál Sveinsson sem sigrað hafði árið á undan með Is it true?, þetta þóttu áhugaverðar fréttir í ljósi þess að Bubbi hafði aldrei sýnt Eurovision neinn sérstakan áhuga og þá fremur talað keppnina niður.

Undankeppnin fyrir 2010 var með svipuðum hætti og árið áður en lögin voru nú fimmtán í stað sextán og undanúrslitakvöldin voru þrjú í stað fjögurra, tvö lög komust áfram úr hverjum þætti og kepptu því sex lög til úrslita. Lögin  sex voru Gleði og glens (e. Rögnvald Rögnvaldsson) með Hvanndalsbræðrum, Je ne sais quoi (e. Örlyg Smára og Heru Björk Þórhallsdóttur) í flutningi þeirrar síðarnefndu, One more day (e. Óskar Pál Sveinsson og Bubba Morthens) flutt af Jógvan Hansen, Out of sight (e. Matthías Stefánsson) sungið af Matthíasi Matthíassyni, The one (e. Birgi Jóhann Birgisson og texta Ingva Þórs Kormákssonar) sungið af Írisi Hólm og Waterslide (e. Sigurjón Brink) flutt af höfundinum ásamt fleirum.

Úrslitakvöldið rann upp laugardaginn 6. febrúar og svo fór að lag Heru Bjarkar og Örlygs Smára, Je ne sais quoi sigraði naumlega eftir mikla baráttu við lag Óskars Páls Sveinssonar og Bubba Morthens. Örlygur Smári tryggði sér þarna sæti í úrslitakeppni Eurovision í þriðja skiptið og Hera Björk var heldur ekki alls óvön keppninni því hún hafði tvívegis farið sem bakraddasöngkona og einnig keppt í undankeppninni í Danmörku árið áður. Lögin tvö í efstu sætunum sættu bæði nokkurrar gagnrýni þeirra er sögðu þau stolin en STEF úrskurðaði úr um að svo væri ekki með sigurlagið.

Lögin níu sem eftir sátu eftir undanúrslitakvöldin voru eftirfarandi: Every word (e. Steinarr Loga Nesheim) sungið af höfundinum, Gefst ekki upp (e. Harald Vigni Sveinbjörnsson og texta Sváfnis Sigurðarsonar) í flutningi Manna ársins, I believe in angels (e. Halldór Guðjónsson og texta Ronald Kerst) með Sigrúnu Völu Baldursdóttur, In the future (e. Bryndísi Sunnu Valdimarsdóttur og Daða Georgsson við texta Bryndísar) í flutningi Karenar Pálsdóttur, Komdu á morgun til mín (e. Grétar Sigurbergsson) í flutningi Önnu Hlínar, Now and forever (e. Albert Guðmann Jónsson við texta Alberts og Katrínar Halldórsdóttur) sungið af Edgari Smára Atlasyni, You are the one (e. Harald G. Ásmundsson og texta Kolbrúnu Evu Viktorsdóttur) sungið af Kolbrúnu, You knocked upon my door (e. Jóhannes Kára Kristinsson) með Sigurjóni Brink og Þúsund stjörnur (e. Jóhannes Kára Kristinsson) sungið af Arnari Jónssyni. Öll lögin fimmtán voru svo gefin út á safnplötunni Söngvakeppni Sjónvarpsins 2010.

Farið var á fullt við að kynna Je ne sais quoi sem tók nokkrum breytingum eftir keppnina og smáskífa var gefin út af Hands up music sem stofnað var utan um batteríið, Hera Björk nýtti um leið tækifærið til að koma sér almennt á framfæri í Evrópu og gaf út í kjölfarið samnefnda sólóplötu sem átti eftir að gera það ágætt í Evrópu mánuðina á eftir. Íslendingar voru enn að súpa seyðið af kreppunni og því var umgjörðin í kringum hópinn í lágmarki, þannig var ekki reiknað með að myndband yrði gert við lagið en síðar rættist úr því. Ekki bætti heldur úr að eldgos hófst í Eyjafjallajökli í apríl og stóð yfir í um mánuð sem olli því að flugsamgöngur riðluðust víða um norðanverða Evrópu og sumir hugsuðu eskimóunum í norðri þegjandi þörfina.

Lokakeppnin var haldin í Osló í Noregi undir lok maí og varð Je ne sais quoi síðasta lagið upp úr umslaginu (eins og árið á undan) í fyrri undanriðlinum. Lagið hafnaði svo að endingu í nítjánda sæti keppninnar sem var nokkuð lakari árangur en spár sögðu til um og reyndar sigraði hin þýska Lena nokkuð þvert á sömu spár, síðar kom í ljós að íslenska framlagið hefði lent í þriðja sæti eftir undankeppnina. Erfitt er að segja hvers vegna lagið hlaut ekki betra gengi en einhverjir vildu halda því fram að Eyjafjallajökulseldgosið hefði haft áhrif á kosninguna í norðanverðri Evrópu. Hera nýtti sér þó ágætan meðbyr og kynningu með því að fylgja plötu sinni eftir og kom víða fram á Gay pride og tónlistarhátíðum um sumarið.

Þess má einnig geta að Íslendingurinn Helgi Már Hübner (Hitesh Coen) sem búsettur er í Noregi var á meðal lagahöfunda sem áttu lög sem flutt voru í hléi keppninnar.

Efni á plötum