Sigurjón Brink (1974-2011)

Sigurjón Brink

Tónlistarmaðurinn Sigurjón Brink (Sjonni Brink) var hæfileikaríkur og fjölhæfur listamaður sem hafði um nokkurra ára skeið smám saman verið að skapa sér nafn í tónlistarheiminum þegar hann féll frá aðeins 36 ára gamall, fáeinum dögum áður en lag hans var flutt í undankeppni Eurovision keppninnar hér heima. Hans nánasta fólk ákvað að halda nafni hans á lofti með því að taka við keflinu og lagið komst alla leið á svið úrslitakvölds Eurovision í Düsseldorf í Þýskalandi.

Sigurjón Brink fæddist sumarið 1974 í Reykjavík og sleit þar að mestu barnsskónum en bjó tvö ár á Akureyri. Hann var á unglingsárum sínum farinn að leika í hljómsveitum með félögum sínum í Breiðholtinu en fyrsta nafngreinda sveit hans var In bloom sem formlega var stofnuð haustið 1993 þegar hann var nítján ára gamall. Sigurjón lék á trommur í þeirri sveit en gítar var þó alltaf hans aðal hljóðfæri. In bloom sendi frá sér eina plötu árið 1996 en fljótlega eftir það fór hann að koma fram sem söngvari í tónlistarsýningu tengdri The Beatles en Sigurjón átti eftir að koma fram í mörgum Bítlatengdum tónlistarviðburðum síðar.

Sigurjón var framan af ekki áberandi í tónlist, hann lærði margmiðlun en starfaði aðallega við verslunar- og sölustörf en það var svo í kjölfar þess að hann ásamt fleirum stofnuðu leikhópinn Vesturport árið 2001 að hann fór að koma fram opinberlega að einhverju marki. Í Vesturport-hópnum kom hann að ýmsum leikhústengdum verkefnum, hann var framan af að vinna með hljóðmynd en síðar samdi hann tónlist, t.d. fyrir leikritið Brim.

Sigurjón hafði fengist við að semja tónlist frá unglingsárum en eftir aldamótin jókst það töluvert, hann hafði samið lag með In bloom sem vakið hafði athygli í Bandaríkjunum og þegar leitast var eftir því að það yrð notað í sjónvarpsmynd stofnaði hann hljómsveit sem bar nafnið Artificial flavor í því skyni að freista þess að koma fleiri lagasmíðum sínum á framfæri ytra, sú sveit varð síðan að hljómsveitinni Flavors sem gaf út plötu árið 2004 en á henni samdi Sigurjón alla tónlistina, í raun var Flavor eins manns sveit Sigurjóns en hann söng og lék á kassagítar í henni. Þeir félagar höfðu þá keypt gamla hljóðverið Hljóðrita í Hafnarfirði og komu sér þar upp aðstöðu undir nafninu IMP (Iceland music productions) og hjálpuðu ungum tónlistarmönnum að koma sér á framfæri, héldu m.a. hljómsveitakeppni í samstarfi við tímaritið Sánd.

Sjonni Brink

Árið 2002 var komið að því að Sigurjón léti meira að sér kveða í leikhúsinu, hann tók þá þátt í „gleðisýningunni“ Le Sing sem sett var á svið í hliðarsal Broadway, þær sýningar nutu mikilla vinsælda en þar var blandað saman söng og dansi í eins konar spuna þar sem leikararnir voru í hlutverki þjóna. Í þeirri sýningu kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, leik- og söngkonunni Þórunni Ernu Clausen.

Um þetta leyti fór Sigurjón einnig að koma fram sem söngvari og gítarleikari, stundum einn en yfirleitt ásamt öðrum. Oftast skemmtu þeir Jóhannes Ásbjörnsson saman undir nafninu Jói og Sjonni en einnig kom hann fram með Gunnari Ólasyni, Pálma Sigurhjartarsyni (sem einnig var í Le sing sýningunni og Flavors) og síðar Matthíasi Matthíassyni, Hreimi Erni Heimissyni og Vigni Snæ Vigfússyni en yfirleitt tveir saman, Sigurjón kom ásamt félögum sínum mikið fram á Hverfisbarnum en einnig á öðrum skemmtistöðum, árshátíðum, afmælum og minni samkomum, nutu þar mikilla vinsælda og skópu sér töluvert nafn þótt ekki hefði þeir gefið út plötu. Þeir Sigurjón og Gunnar sendu þó líklega frá sér kynningarplötu en ekki finnast þó neinar upplýsingar um hana. Þeir félagar voru töluvert í bítlatengdu efni og þeir Jóhannes komu svo að Tónleiknum Bítl í Loftkastalnum sem gekk lengi fyrir fullu húsi við feikimiklar vinsældir.

Sigurjón var nú orðinn töluvert þekktur söngvari og gítarleikari og það kom að því að hann poppaði upp í undankeppni Eurovision, árið 2006 söng hann lag Bryndísar Sunnu Valdimarsdóttur – Hjartaþrá og kom það lag út á plötu sem gefin var út í kjölfarið. Sigurjón var þar með kominn á bragðið og ári síðar (2007) birtist hann aftur í keppninni sem flytjandi en nú með lag sem hann samdi sjálfur með Bryndísi en hún og Jóhannes Ásbjörnsson sömdu textann, lagið hét Áfram. Um þetta leyti voru lög eftir Sigurjón farin að birtast á plötum, t.d. Skítamórals en einnig kom hann við sem söngvari á plötum s.s. með lögum eftir Ólaf Svein Traustason, styrktarplötunni Hjálparsveitinni og í Ljósalagakeppninni 2008 þar sem hann sigraði með lag Halldórs Guðjónssonar, Í faðmi Ljósanætur. Söngrödd Sigurjóns má heyra á nokkrum öðrum útgefnum plötum.

Sigurjón Brink

Á þessum árum var Sigurjón því orðinn töluvert áberandi söngvari, hann kom mikið fram með Gunnari Ólasyni en hann þótti einnig ómissandi í ýmsu tónleikahaldi og sýningum s.s. heiðurs- og styrktartónleikum, þannig tók hann t.a.m. þátt í heiðurstónleikum tengdum Vilhjálmi Vilhjálmssyni, John Lennon, The Beatles og Eagles en birtist einnig í sjónvarpsþáttunum Laugardagslögunum sem nutu nokkurra vinsælda í Ríkissjónvarpinu 2007, þar hófst samstarf hans við Guðmund Jónsson úr Sálinni hans Jóns míns en hann söng ásamt Einari Ágústi Víðissyni lag Guðmundar – Straumurinn, í undankeppni Eurovision snemma árs 2008. Sigurjón tók einnig þátt í uppfærslu á söngleiknum, Footloose í Borgarleikhúsinu, var einn þeirra sem tóku þátt í prufum fyrir raunveruleikaþáttinn Rock star supernova og kom jafnvel fram sem kynnir í þáttunum Frægir í form, á Skjá einum.

Það var einnig mikið að gera hjá Vesturporti á þessum tíma en því miður skall á fjármálakreppa haustið 2008 í miðri útrás leikhússins í Bandaríkjunum sem setti heilmikið strik í reikningin en Sigurjón tók þátt í sýningum Vesturports á Woycheck. Eðlilega hægðist á öllu um skeið meðan kreppan gekk yfir en á þeim tíma átti Sigurjón þátt í stofnun vefverslunar sem hann í félagi við aðra rak um tíma.

Sigurjón hafði hafið samstarf við Guðmund Jónsson í kjölfar Laugardagslaganna og þeir unnu tíu laga plötu saman í nafni Sigurjóns sem ráðgert var að kæmi út 2008, eðlilega seinkaði þeirri útgáfu en platan leit svo dagsins ljós fyrir jólin 2009 undir titlinum Sjonni Brink – plötuna gaf hann út sjálfur. Sigurjón hafði í samstarfi við nokkra þekkta tónlistarmenn stofnað hljómsveitina Rokk um svipað leyti og var plötunni að einhverju leyti fylgt eftir með spilamennsku þeirrar sveitar.

Og Sigurjón var á fleiri vígstöðvum þennan veturinn því á nýju ári (2010) var hann flytjandi tveggja laga í undankeppni Eurovision keppninnar, annars vegar söng hann lag Jóhannesar Kára Kristinssonar – You knocked upon my door, hins vegar eigið lag – Waterslide en þar naut hann aðstoðar Vignis, Hreims og Gunnars sem hann hafði oft komið fram með, auk Benedikts Brynleifssonar úr Flavors. Lagið komst í úrslit lokakeppninnar hér heima.

Hljómsveitin Rokk

Það hafði verið ákveðinn stígandi í tónlistarferli Sigurjóns og þegar hér var komið var hann meðal þekktustu söngvara landsins, sem varð m.a. til þess að Björgvin Halldórsson fékk hann með sér til að syngja á dúetta-plötu sinni lagið Okkar ástarvor sem varð nokkuð vinsælt. Sigurjón kom fram í Sumargleði Bylgjunnar um sumarið 2010 en hann hafði þá verið meðal dagskrárgerðamanna útvarpsstöðvarinnar, og um haustið sendi hljómsveitin Rokk jafnframt frá sér lag sem heyrðist nokkuð leikið í útvarpi, um svipað leyti tók hann þátt í uppfærslu á söngleiknum Buddy Holly í Austurbæ – túlkaði þar söngvarann Ritchie Valens. Í lok árs kom svo í ljós að enn var Sigurjón meðal lagahöfunda og flytjenda í undankeppni Eurovision í janúar 201l með lagið Aftur heim, við texta eiginkonu sinnar Þórunnar – lagið hugðist hann þó flytja einn.

Enginn veit sín örlög og það átti við í þessu samhengi því Sigurjón steig aldrei á svið undankeppninnar en hann lést eftir að hafa fengið heilablóðfall á heimili sínu mánudaginn 17. janúar, nokkrum dögum fyrir undankeppnina en hann varð aðeins þrjátíu og sex ára gamall. Fráfall Sigurjóns var íslenska tónlistarsamfélaginu mikið áfall því hann var vinamargur og vinsæll innan þess, og reyndar setti þjóðina hljóða. Þá setti þetta framkvæmd undankeppni Eurovision einnig í uppnám því ekki var ljóst hvernig færi með framlag Sigurjóns, hvort það yrði dregið út úr keppninni eða hver myndi þá flytja lagið Aftur heim. Fáeinum dögum fyrir keppnina var það svo ákveðið af Þórunni í samráði við fjölskyldu sína og nokkra af nánustu vinum Sigurjóns að þeir Vignir, Hreimur, Gunnar, Benedikt, Matthías og Pálmi myndu flytja lagið undir nafninu Vinir Sjonna. Lítill tími var til stefnu mitt í miðju sorgarferlinu, Sigurjón var jarðsettur 27. janúar tveimur dögum fyrir undankeppnina en svo fór að þeir vinirnir skiluðu laginu frá sér með miklum sóma á tilfinningaþrungnu kvöldi og lagið komst í úrslit keppninnar sem haldin var 14. febrúar. Eðlilega hafði málið hlotið mikla athygli og svo fór að stjórn keppninnar hafði ákveðið að þrjú lög myndu komast í úrslitin úr undankvöldinu í stað tveggja enda var þá talið nokkuð öruggt að lagið kæmist áfram eftir það sem á undan hafði gengið.

Vinir Sjonna

Aftur heim gerði svo í framhaldinu það sem kannski flestir bjuggust við, sigraði undankeppnina og fór því í lokakeppni Eurovision 2011 sem haldin var í Düsseldorf í Þýskalandi í maí. Þar fékk saga lagsins og höfunda þess einnig sinn skerf af athyglinni og víst er að það hefur bæði verið erfitt fyrir aðstandendur lagsins – en einnig hjálpað til. Lagið, sem nú hafði enska titilinn Coming home (við enskan texta Þórunnar) komst áfram úr undankvöldinu, var í síðasta umslaginu sem lesið var upp úr og hafnaði að lokum í 20. sæti Eurovision keppninnar.

Aftur heim / Coming home kom eins og vænta mátti út á smáskífu fyrir Eurovision-keppnina í Þýskalandi en þá var einnig gefin út stærri og viðameiri útgáfa sem hafði jafnframt að geyma Waterslide (frá keppninni 2010) auk nokkurra laga með Flavors.

Sigurjóns Brink hefur verið minnst með margs konar hætti, haldnir voru t.d. minningartónleikar um hann á afmæli hans 2012, stofnaður var sjóður til minningar um hann og Þórunn sendi svo frá sér plötu (My darkest place) tíu árum eftir andlát Sigurjóns (2021) með frumsömdu efni sem hún hafði samið til að vinna úr sorginni.

Nokkur lög Sigurjóns, einkum þau Eurovision-tengdu hafa komið út á safnplötum.

Efni á plötum