Landslagið [tónlistarviðburður] (1989-92 / 2001)

Landslagið 1991 - Ýmsir

Umslag Landslagsplötunnar 1991

Sönglagakeppnin Landslagið var haldin í fjórgang á árunum 1989-92 og í fimmta skiptið árið 2001. Keppnin átti að verða eins konar svar við Eurovision undankeppninni sem haldin var í fyrsta skiptið hérlendis 1986 á vegum Ríkissjónvarpsins, en Stöð 2 og Bylgjan voru meðal þeirra sem héldu keppnina að frumkvæði Axels Einarssonar hjá útgáfufyrirtækinu og hljóðverinu Stöðinni.

Árið á undan hafði Ríkissjónvarpið boðið nokkrum útvöldum lagahöfundum að senda lög í Eurovision þannig að almenningur hafði ekki kost á að taka þátt, það varð ein ástæða þess að Landslagskeppnin var haldin.

1989 – Við eigum samleið
Keppnin fyrsta árið bar heitið Sönglagakeppni Íslands 1989 – Landslagið, og bárust um fjögur hundruð lög í hana, tíu þeirra kepptu til úrslita um vorið en það voru eftirfarandi lög: Brotnar myndir (samið af Rúnari Þór Péturssyni en hann flutti sjálfur ásamt Kynslóðinni), Dúnmjúka dimma (flutt og samið af Ólafi Ragnarssyni), Ég útiloka ekkert (eftir Bjarna Hafþór Helgason en Inga Eydal flutti), Ég sigli í nótt (eftir Bjarna Hafþór Helgason og flutt af Júlíusi Guðmundssyni), Fugl í búri (flutt og samið af Bergþóru Árnadóttur), Prinsippmál (eftir Þórhall Sigurðsson (Ladda) en hann flutti sjálfur), Ráðhúsið (lag og texti Ágústs Ragnarssonar við flutning hljómsveitarinnar Sveitin milli sanda), Við eigum samleið (lag Jóhanns G. Jóhannssonar og flutt af Sigríði Beinteinsdóttur og Stjórninni), Við fljótið (eftir Sigfús E. Arnþórsson en Júlíus Guðmundsson söng) og Við tvö (eftir Inga Gunnar Jóhannsson en hann flutti lagið sjálfur ásamt Evu Ásrúnu Albertsdóttur).

Lögin tíu kepptu til úrslit laugardagskvöldið 28. apríl og var keppnin sýnd í beinni útsetningu Stöðvar 2 eins og æ síðan, þar bar sigur úr bítum lagið Við eigum samleið með Sigríði Beinteinsdóttur og Stjórninni, lag Rúnars Þórs, Brotnar myndir varð í öðru sæti og Sveitin milli sanda og Ráðhúsið lenti í þriðja sæti. Heiðursverðlaun Landslagsins (Gullfjöðrin) voru veitt við þetta tækifæri en þau féllu í skaut Sigfúss Halldórssonar.
Lögin tíu komu út á plötu sem hljóðverið Stöðin gaf út en Stöðin var eitt þeirra fyrirtækja sem héldu keppnina, platan bar heitið Landslagið: sönglagakeppni Íslands ´89. Auk þess að koma út á Landslagsplötunni hefur sigurlagið, Við eigum samleið, komið út á ýmsum safnplötum í gegnum tíðina, t.d. Gullkornum Jóhanns G. Jóhannssonar (2003), plötu Halldórs Pálssonar, Gullinn sax (1993) auk annarra, lag Rúnars Þórs, Brotnar myndir kom síðan út á plötu hans Tryggð, (1989) og hefur komið nokkrum sinnum út á safnplötum Rúnars síðan, lag Bergþóru Árnadóttur, Fugl í búri kom út á safnplötunni Bergþóra Árnadóttir: heildarútgáfa (2008), Prinsippmál Ladda kom út á safnplötunni Hver er sinnar kæfu smiður (2006) en önnur lög keppninnar hafa ekki komið út á öðrum plötum.

1990 – Álfheiður Björk
Landslagskeppnin 1989 þótti takast með ágætum og var afráðið að hún yrði aftur haldin að ári, fyrirkomulagið var hið sama og árið á undan, tíu lög voru valin úr hópi aðsendra laga sem voru á fjórða hundrað og þau leikin í sjónvarpi, þau kepptu síðan til úrslita á sviði Hótels Íslands og í beinni útsetningu Stöðvar 2, föstudagskvöldið 23. mars.

Lögin tíu voru eftirfarandi; Álfheiður Björk í flutningi Björns Jr. Friðbjarnarsonar og Eyjólfs Kristjánssonar (lag og texti Eyjólfur Kristjánsson), Draumadansinn með Sigurði Dagbjartssyni (lag og texti Sigurður Dagbjartsson og Birgir J. Birgisson), Ég féll í stafi flutt af Sigrúnu Evu Ármannsdóttur (lag og texti Hilmar Hlíðberg Gunnarsson), Gluggaást með Helgu Möller og Ívari Halldórssyni (lag Ívar Halldórson, texti Ívar Halldórsson og Halldór Lárusson), Haltu mér fast með Bjarna Arasyni (lag Torfi Ólafsson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson), Kinn við kinn í flutningi Jóhannesar Eiðssonar (lag Nick Cathcart Jones, texti Jóhannes Eiðsson), Lag og ljóð með Ara Jónssyni og Pálma Sigurhjartarsyni (lag Eiríkur Hilmisson, texti Hilmir Jóhannesson), Má ég þig keyra flutt af Guðmundi Viðari Friðrikssyni (lag og texti Guðmundur Viðar Friðriksson), Óþörf orð með Hauki Haukssyni (lag Þórður Guðmundsson og Hafþór Guðmundsson, texti Haukur Hauksson) og Vangaveltur með Ellen Kristjánsdóttur (lag Friðrik Karlsson, texti Friðrik Karlsson og Ingólfur Steinsson).
Lagið Álfheiður Björk með þeim Birni Jr. Friðbjörnssyni og höfundinum Eyjólfi Kristjánssyni sigraði. Í þetta skiptið voru fleiri verðlaun veitt, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hlaut verðlaun fyrir besta textann, Friðrik Karlsson fyrir bestu útsetninguna, Sigrún Eva Ármannsdóttir var kjörin besti flytjandinn og Nick Cathcart Jones fékk viðurkenningu fyrir athyglisverðasta lagið. Haukur Morthens hlaut síðan Gullfjöðrina, heiðurverðlaun Landslagsins.

Sigurlagið naut nokkurra vinsælda í kjölfarið eins og reyndar lagið sem sigrað hafði árið áður, en höfundurinn Eyjólfur sagði frá því í blaðaviðtali að Björn hefði fengist til að syngja lagið með honum í keppninni með því skilyrði að hann myndi láta klippa sig en Eyjólfur hafði þá verið með sítt ár um nokkurt skeið, Eyjólfur lét auðvitað verða af því og því fór sem fór.

Lögin tíu voru gefin út á plötunni Landslagið 1990 en auk laganna tíu voru fjögur aukalög úr keppninni frá árinu áður á plötunni, sigurlagið Álfheiður Björk kom eðlilega út á nokkrum safnplötum í framhaldinu, auk platna Eyjólfs Kristjánssonar en auk þess gerði Hundur í óskilum laginu ágæt skil á plötu frá 2002. Önnur lög úrslitanna komu ekki út á öðrum plötum. Platan seldist mjög vel, hún var í toppsæti lista yfir söluhæstu plöturnar um nokkurra vikna skeið en hlaut þó slaka dóma í DV.

Menn voru nú farnir að rýna í þessa keppni af heilmikilli alvöru enda þótti hún um margt nokkuð vel heppnuð og enginn eftirbátur undankeppni Eurovision sem fram fór um svipað leyti, það var því ákveðið að gera þær breytingar að halda Landslagið næst að hausti til í stað vors, svo keppnirnar tvær stönguðust hreinlega ekki á.

Þegar farið var að skoða samband og samanburð Eurovision og Landslagsins kom í ljós að sigurvegarar Landslagsins fyrstu tveggja skiptanna sigruðu Eurovision-undankeppnina árið eftir, Sigríður Beinteinsdóttir og Stjórnin höfðu sigrað Landslagið 1989 með lagið Við eigum samleið og undankeppni Eurovision árið eftir með lagið Eitt lag enn, Eyjólfur Kristjánsson sigraði Landslagið 1990 með Álfheiði Björku og Eurovision 1991 með Nínu. Einnig má nefna að í tvö fyrstu skiptin sem keppnin var haldin sigraði lag númer eitt á hlið B (en þetta var í þann tíma er vínylplöturnar voru enn við lýði þótt geisladiskar væru vissulega farnir að koma út) en plöturnar með lögum keppninna komu út nokkrum dögum fyrir úrslitin. Menn biðu því spenntir eftir næstu Landslagskeppni.

Landslagið 1991 - Ýmsir1991 – Ég aldrei þorði
Árið 1991 var Landslagið haldin í þriðja sinn og í þetta skiptið að haustlagi eins og fyrr er nefnt. Útgáfufyrirtækið og hljóðverið Stöðin í eigu Axels Einarssonar hafði haft veg og vanda af fyrstu keppnunum tveimur en nú var komið nýtt fyrirtæki til skjalanna, PS-músík sem einnig kom að útgáfunni.
Fyrirkomulag úrslitakeppninnar sjálfrar átti að vera með sama sniði og áður, tíu lög kepptu til úrslita sem áttu að fara fram á Hótel Íslandi að kvöldi 25. október en þau voru valin úr hópi laga sem töldu á fjórða hundrað. Hlutirnir fóru þó öðruvísi en ætlað var og svo fór að keppninni var frestað um mánuð og var sjónvarpað föstudagskvöldið 29. nóvember af Ríkissjónvarpinu en Stöð 2 hafði til þessa sýnt keppnina í beinni útsetningu. Ástæðan fyrir þessum breytingum með svo litlum fyrirvara var sú að Jón Ólafsson, þá nýr eignaraðili að Stöð 2, setti sig upp á móti keppninni á sjónvarpsstöð sinni enda var nýi útgefandinn, PS-músík tengdur plötuútgáfunni Steinari, aðal keppinautar útgáfufyrirtækisins Skífunnar sem Jón var eigandi að. Jón hafði ætlað Skífunni stórt hlutverk við útgáfu laganna en Axel Einarsson, hugmyndasmiður keppninnar og rétthafi að einhverju leyti, sætti sig ekki við það. Honum varð ekki bolað svo auðveldlega í burtu og því fór sem fór.

Lögin voru kynnt dagana á undan í Sjónvarpinu og á Rás 2 en þar sem hlutirnir gerðust hratt fékk Landslagið ekki nándar nærri jafn mikla athygli og áður, fór reyndar nokkuð fyrir ofan garð og neðan hjá landsmönnum.

Lögin tíu voru: Dansaðu við mig með hljómsveitinni Eldfuglinum (lag Þórður Guðmundsson og Hafþór Guðmundsson, texti Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson), Enginn eins og þú með Ruth Reginalds og Herramönnum (Hörður G. Ólafsson, texti Jónas Friðrik Guðnason), Ég aldrei þorði með Önnu Mjöll Ólafsdóttur (lag og texti Anna Mjöll Ólafsdóttir), Ég vil dufla og daðra flutt af Eddu Borg (lag Ingvi Þór Kormáksson, texti Pétur Eggerz), Hlustaðu með Ruth Reginalds (lag og texti Ingi Gunnar Jóhannsson), Reykjavík flutt af Ágústi Ragnarssyni (lag og texti Ágúst Ragnarsson), Sigrún ríka með hljómsveitinni Íslandsvinum (lag og texti Pálmi Sigurhjartarson), Svo lengi flutt af Sigríði Guðnadóttur (lag og texti Ingvi Þór Kormáksson), Vængbrotin ást með hljómsveitinni Þúsund andlit (lag Friðrik Karlsson og Birgir J. Birgisson, texti Eiríkur Hauksson) og Það er ekki hægt annað í flutningi Ómars Ragnarssonar og Þuríðar Sigurðardóttur (lag og texti Ómar Ragnarsson).

Lag Önnu Mjallar, Ég aldrei þorði, bar sigur úr bítum í þetta skipti en varð aldrei sá smellur sem sigurvegarar fyrri keppna nutu. Lögin komu að sjálfsögðu út á plötu sem hafði að geyma öll lögin og hét Landslagið 1991: sönglagakeppni Íslands en minna fór fyrir henni en fyrri plötum. Sigurlagið, Ég aldrei þorði kom síðar út á safnplötunni Stelpurnar okkar (1998) undir titlinum Aldrei ég þorði, á sömu plötu var að finna lagið Hlustaðu, með Ruth Reginalds sem kom einnig út á plötu höfundarins, Inga Gunnars Jóhannssonar, Undir fjögur augu árið 1992. Lífseigasta lagið í keppninni var í raun Vængbrotin ást af samnefndri plötu með Þúsund andlitum sem kom út 1994 og síðar á nokkrum safnplötum en önnur lög Landslagskeppninnar 1991 hafa ekki komið út á plötum svo kunnugt sé.

1992 – Ég man hverja stund
Landslagskeppnin var haldin í fjórða skiptið haustið 1992 og nú var haldið til Akureyrar í Sjallann. Eftir átökin um keppnina árið á undan var hún nú komin á Stöð 2 aftur og Japis var nú orðinn útgefandi væntanlegrar Landslagsplötu í stað PS-músík. Um 250 lög bárust í keppnina að þessu sinni og voru tíu lög valin til að keppa í úrslitunum eins og áður, lögin voru kynnt á Stöð 2 og úrslitakvöldið var föstudaginn 20. nóvember.

Eftirtalin lög voru kjörin af dómnefnd til að keppa til úrslita; Aðeins þú eftir Eyjólf Kristjánsson (flytjendur voru Eyjólfur og Richard Scobie), Ég fer eftir Þröst Þorbjörnsson, (flytjandi Haukur Hauksson), Ég man hverja stund eftir Jon Kjell Seljeseth og Jónas Friðrik Guðnason, (flytjendur voru Guðrún Gunnarsdóttir og Pálmi Gunnarsson), Í ævintýraheimi eftir Þröst Þorbjarnarson (flytjandi Haukur Hauksson), Leiktækjasalur eftir Magnús Þór Sigmundsson (flytjendur Pétur W. Kristjánsson, Jóhann Helgason og Magnús Þór), Mishapp eftir Ara Einarsson (flytjandi Margrét Eir Hjartardóttir), Stelpur eftir Hörpu Þórðardóttur (flytjandi Harpa sjálf), Til botns eftir Jón Andra Sigurðarson og Trausta Heiðar Haraldsson (flytjandi Sigrún Sif Jóelsdóttir), Um miðja nótt eftir Friðrik Karlsson (flytjandi Sigrún Eva Ármannsdóttir) og Yndi, Indý eftir Magnús Þór Sigmundsson (flytjandi Magnús Þór sjálfur).

Skemmst er frá því að segja að þau Guðrún Gunnarsdóttir og Pálmi Gunnarsson sigruðu með lagið Ég man hverja stund eftir Jon Kjell Seljeseth en þau hlutu einnig nafnbótina bestu flytjendurnir. Athyglisverðasta lagið var kjörið Til botns í flutningi Sigrúnar Sifjar Jóelsdóttur en Jón Andri Sigurðarson og Trausti Haraldsson voru höfundar þess. Einnig voru heiðursverðlaun Skrautfjöðrin veitt en þau hlutu Ingimar Eydal fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, Ingimar var jafnfram formaður dómnefndar Landslagsins að þessu sinni en keppnin var haldin á Akureyri sem fyrr segir.

Eins og áður kom plata út með lögunum í keppninni og hét hún einfaldlega Landslagið á Akureyri 1992. Hún fékk fremur neikvæða gagnrýni í fjölmiðlum, mjög slaka í DV og jafnvel enn neikvæðari í Pressunni. Hvort sem það var gagnrýni blaðamanna að kenna eða öðru seldist platan ekki jafn vel og fyrri plötur en nokkur laganna poppuðu upp á öðrum plötum, sigurlagið Ég man hverja stund hefur komið út á nokkrum safnplötum sem er ágætur mælikvarði á vinsældir laga en auk þess kom lagið út á plötu Jónasar Þóris, Til Elísu (1998) og plötu Kórs Menntaskólans á Laugarvatni, Upp með þúsund radda brag. Lög Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Leiktækjasalur og Yndi Indý kom út á plötu Magnúsar og Jóhanns Helgasonar, Lífsmyndir (1993), Aðeins þú kom út á tónleikaplötu Eyjólfs Kristjánssonar, Eyfi: Engan jazz hér! en önnur lög keppninnar komu ekki út á plötum svo kunnugt sé.

Áhugi á Landslaginu hafði dvínað, e.t.v. rúmaði markaðurinn ekki tvær stórar sönglagakeppnir og því fór að þessi sönglagakeppni var ekki haldin að ári, og ekki næstu árin.

Landslag Bylgjunnar 2001 - Ýmsir2001 – Beint í hjartastað
Landslagskeppnin var flestum gleymd þegar þeim á fjölmiðlaveldinu Norðurljósum (síðar 365 miðlum) datt í hug í byrjun nýrrar aldar (árið 2001) að vekja upp þennan gamla draug, rykið var dustað af helstu reglum fyrri keppna og auglýst var eftir lögum. Alls bárust tæplega fjögur hundruð lög í keppnina, sem nú hét Landslag Bylgjunnar, og voru eins og venjulega tíu lög valin til að keppa til úrslita á Broadway í beinni útsetningu á Stöð 2 og Bylgjunni, föstudagskvöldið 27. apríl. Skífan kom nú að útgáfu plötu tengdri keppninni. Ein var sú breyting á reglum keppninnar sem lagahöfundar nýttu sér en hún var að nú mátti senda inn lög með erlendum texta en það mátti ekki í undankeppni Eurovision. Fjögur af tíu lögum voru því á ensku í þetta skiptið.

Lögin tíu sem kepptu til úrslita um Landslag Bylgjunnar voru: Annar dagur í flutningi bræðranna Örlygs og Bergþórs Smára (lag Örlygur Smári, texti Sigurður Örn Jónsson), Bara þú með Páli Rósinkrans (lag og texti Sigurður Ægisson), Beint í hjartastað með Einari Ágúst Víðissyni (lag Grétar Örvarsson, texti Ingibjörg Gunnarsdóttir), Engum nema þér í flutningi Friðriks Ómars og Heru Bjarkar (lag Friðrik Ómar Hjörleifsson, texti Gunnar Þór Þórisson), Héðan í frá flutt af Ragnheiði Gröndal (lag Friðrik Júlíusson, texti Sigurður Örn Jónsson), I see you there með Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur og Páli Rósinkrans (lag Þórir Úlfarsson, texti Kristján Hreinsson), Loving you sungið af Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur (lag Grétar Örvarsson, texti Ingibjörg Gunnarsdóttir), Right there í flutningi Regínu Óskar Óskarsdóttur og Gospelkompanísins (lag Jon Kjell Seljeseth, texti Kristján Hreinsson), What am I supposed to do með Öldu (lag og texti Alda Björk Ólafsdóttir) og Þú lýgur ekki lengur flutt af Magna Ásgeirssyni (lag Þórir Úlfarsson, texti Kristján Hreinsson).

Sigurvegarar Landslags Bylgjunnar 2001 urðu hjónin Grétar Örvarsson og Ingibjörg Gunnarsdóttir með lagið Beint í hjartastað með söngvaranum Einari Ágúst Víðissyni en hann hafði einmitt keppt fyrir hönd Íslands í Eurovision árið áður, ásamt Telmu Ágústsdóttur. Í öðru sæti lenti Jon Kjell Seljeseth (við texta Kristjáns Hreinssonar) með lagið Right there í flutningi Regínu Óskar Óskarsdóttur og Gospelkompaníinu. Ragnheiður Gröndal söng lagið Héðanífrá sem varð í þriðja sæti og var eftir Friðrik Júlíusson en textann átti Sigurður Örn Jónsson.

Platan Landslag Bylgjunnar 2001 kom út um svipað leyti og keppnin fór fram en hún hafði að geyma lögin tíu sem kepptu til úrslita, hún hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Lögin voru mest leikin á Bylgjunni sem hélt utan um keppnina og hlutu því ekki eins almenna útbreiðslu og vinsældir og ella hefði getað orðið, ekkert laganna hefur komið út á öðrum plötum.

Norðurljós sem hélt utan um keppnin notaði tækifærið og heiðraði Björgvin Halldórsson og Þorgeir Ástvaldsson fyrir starf þeirra í þágu íslenskrar dægurtónlistar. Ekki voru allir á eitt sáttir með þá framkvæmd og keppnina í heild, sem sumum keppendum og F.T.T (Félagi tónskálda og textahöfunda) fannst fremur vera innanhússhátíð. Einnig risu upp gagnrýnisraddir sem sögðu úrslitin hafa verið ákveðin fyrirfram og bentu á að búið hefði verið að raða niður lögunum á plötuna áður en keppnin fór fram.

Hvort sem það var því að kenna eða einhverju öðru varð fljótlega ljóst að keppnin yrði ekki haldin aftur, a.m.k. ekki í bráð, og því hefur Landslagið líklega runnið sitt skeið á enda fyrir fullt og allt.

Efni á plötum