Langbrók (1993-96)

Langbrók1

Langbrók

Langbrók var sveitaballaband sem gerði garðinn frægan um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Sveitin lék víða um land fjölbreytilega tónlist og viðhafði ýmsar uppákomur, hvort sem það var á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins eða úti á landsbyggðinni.

Sveitin var stofnuð snemma árs 1993 og hafði sama kjarnann að mestu á að skipa þann tíma er hún starfaði þótt margir bassa- og gítarleikarar rynnu í gegnum hana, hljómborðsleikarann Baldur Sigurðarson (Ofur Baldur), Aðalstein Bjarnþórsson söngvara og gítarleikara (Alla Langbrók) og Braga Norðdahl gítarleikara, aðrir stöldruðu við um lengri eða skemmri tíma og þá lengst Flosi Þorgeirsson bassaleikari (Ham o.fl.) en aðrir sem komu við sögu Langbrókar voru Alfreð Lilliendahl og Pétur Jensen bassaleikarar og trommuleikararnir Ríkharður Jensen, Haraldur Leonardsson, Andri Hrannar Einarsson (Áttavillt), Trausti Jónsson og Sigurvald Ívar Helgason.

Ennfremur komu við sögu Langbrókar tvær söngkonur sem áður höfðu verið í hljómsveitinni Kandís, Ásdís Guðmundsdóttir og Anna Karen Kristinsdóttir en þær stöldruðu stutt við í sveitinni. Einnig segir ein heimild Oddnýju Sturludóttur hafa leikið eitthvað með sveitinni en það er óstaðfest. Fleiri gætu hafa komið við sögu hennar.

Langbrók hætti reyndar haustið 1993, tók sér árs frí en hóf störf aftur ári síðar og starfaði þá samfleytt fram í mars 1996 þegar hún hætti endanlega, einhverjir meðlima hennar héldu þó áfram að starfa undir nafninu Doría, sem varð einhvers konar undanfari hljómsveitarinnar Áttavillt. Langbrók hafði einmitt leikið undir á söngskemmtunum hjá Söngsystrum sem síðar voru viðriðnar þá sveit, Áttavillt.

Á starfstíma sínum náði sveitin að senda frá sér að minnsta kosti eitt lag á safnplötu (Gæðamolar 1996) en einnig varð hún þekkt fyrir útgáfu sína af Bítlalaginu I feel fine [í lundu], sem kom þó líklega hvergi út á plötu.