Sveitin milli sanda (1987-95)

Sveitin milli sanda

Sveitin milli sanda

Hljómsveitin Sveitin milli sanda starfaði um nokkurra ára skeið og spilaði gamalt rokk fyrir skemmtanaþyrsta gesti á ballstöðum borgarinnar.

Sveitin var stofnuð snemma árs 1987 og var tríó fyrst um sinn, þeirra bræðra Arnars gítarleikara og Rafns trommuleikara Sigurbjörnssona, auk Ágústs Ragnarssonar bassaleikara en allir þremenninganna sungu.

Um haustið bættist fjórði meðlimurinn við, Þórður Árnason gítarleikari en sveit hans, Stuðmenn, voru þá í tímabundinni pásu. Einhverjir fleiri komu við sögu sveitarinnar s.s. Pálmi Sigurhjartarson hljómborðsleikari og Magnús Einarsson gítar- og mandólínleikari en upphaflegu meðlimir sveitarinnar stóðu alltaf vaktina.

Þegar sönglagakeppnin Landslagið var haldin í fyrsta skiptið 1989 sendi Ágúst bassaleikari inn lag sem komst í úrslit keppninnar, lagið sem hét Ráðhúsið var flutt af hljómsveitinni í keppninni og hafnaði reyndar í þriðja sæti, naut meira að segja nokkurra vinsælda í útvarpi. Ráðhúsið kom því út á plötu, Landslagið: sönglagakeppni Íslands ´89 en það er eina framlag Sveitarinnar milli sanda sem fest var á plast.

Sveitin starfaði áfram og þetta sama haust, 1989, lék hún undir söngskemmtun sem HLH flokkurinn stóð fyrir í tilefni af tíu ára afmælis síns. Þar fyrir utan spilaði sveitin mest á höfuðborgarsvæðinu og var nokkuð áberandi til 1992 þegar minna fór fyrir spilamennsku. Hún kom á fullum krafti á ballmarkaðinn ári síðar en upp úr því kom hún æ sjaldnar fram. Sveitin var hætt störfum 1995 og menn sneru sér að öðrum verkefnum.