Söngfélag Hlínar (1899-1903)

Söngfélag Hlínar eða Hlínarsöngfélagið var líkast til fyrsta söngfélagið eða kórinn sem starfaði innan bindindisfélags (stúku) hérlendis en stúkan Hlín var stofnuð haustið 1899 af Halldóri Lárussyni presti, og var söngfélagið líklega sett á laggirnar mjög fljótlega.

Þetta var blandaður kór sem mikið orð fór af enda munu einhverjir hafa gengið í Hlínar-stúkuna einvörðungu til að geta tekið þátt í söngstarfinu. Söngfélag Hlínar söng á fundum stúkunnar og gæti einnig hafa komið fram utan hennar en Ottó Guðjónsson var söngstjóri félagsins.

Þegar aðal hvatamaðurinn og forkólfurinn Halldór Lárusson var orðinn veikur vorið 1903 hætti söngfélagið störfum en hann lést svo um haustið.