Innan góðtemplarareglunnar á Akureyri starfaði söngfélag um nokkurra áratuga skeið á fyrri hluta síðustu aldar undir forystu og stjórn Sigurgeirs Jónssonar söngkennara og organista, líklega var um að ræða nokkra kóra.
Góðtemplarastúkan Brynja hafði verið stofnuð á Akureyri árið 1904 og gekk þá Sigurgeir til liðs við stúkuna en hann var þá nýfluttur til Akureyrar, fljótlega var sett á stofn söngfélag innan hennar og stjórnaði Sigurgeir því. Ekki er að finna neinar heimildir um að kórinn hafi starfað alveg samfleytt en leiða má líkur að því að það hafi yfirleitt sungið við samkomur innan stúkunnar og einnig utan, þannig eru t.a.m. upplýsingar um að Sigurgeir hafi stjórnað söng reglulega allt til 1939 og var þar um ýmis konar kóra að ræða, bæði karlakóra, blandaða kóra og tvöfalda kvartetta. Síðasta heimildin um söngstjórn hans er frá 1939 en þá var hann kominn á áttræðisaldur. Þegar Sigurgeir varð áttræður árið 1944 var hann heiðraður af akureyskum templurum og virðist þá hafa verið hættur allri söngstjórn innan stúkufélagsins.