Félag íslenskra einsöngvara [félagsskapur] (1954-80)

Auglýsing frá Félagi íslenskra einsöngvara

Um nokkurra áratuga skeið frá því um miðja síðustu öld og fram til 1980 var hérlendis starfandi félag undir heitinu Félag íslenskra einsöngvara (F.Í.E.) en gekk einnig undir nafninu Einsöngvarafélag Íslands eða Einsöngvarafélagið.

Félagið var stofnað vorið 1954 og hafði m.a. þann tilgang að efla einsöngstónlist á Íslandi en var jafnframt hagsmunafélag fyrir þessa stétt söngvara s.s. réttindamálum gagnvart Ríkisútvarpinu og launatengdum málefnum. Félagið var mjög virkt til að byrja með og á sjötta áratugnum kom það að ýmsum uppákomum s.s. tónleikahaldi, stóð það t.d. fyrir kabarettsýningum á vorin undir heitinu Syngjandi páskar en þar skiptust á söngatriði og önnur skemmtiatriði, þessar sýningar nutu gríðarlegra vinsælda. Þá stóð félagið ásamt Tónlistarfélaginu í Reykjavík fyrir sýningu á óperunni La Bohéme árið 1955, einni fyrstu óperusýningunni sem sett var á svið hér á landi.

Miklu minna fór fyrir Félagi íslenskra einsöngvara á tónleikasviðinu á sjöunda áratugnum og framan af þeim áttunda en félagið var þó alltaf starfandi og innan þess var m.a. starfandi kór undir stjórn Garðars Cortes – Einsöngvarakórinn, um og eftir miðjan áttunda áratuginn fór aftur að kveða nokkuð að félaginu og það hélt utan um svokallaðar Söngvökur sem var tónleikaröð með einsöngvurum. Þegar nær dró 1980 voru hræringar í íslensku óperulífi en þá var Íslenska óperan stofnuð, reyndar án nokkurs samráðs eða samvinnu við einsöngvarana sem olli nokkru kurri innan félagsins og var líklega upphafið að endalokum félagsins en það mun svo hafa lognað útaf árið 1980.

Fáar heimildir og litlar upplýsingar finnast um félagið, fyrir liggur að Bjarni Bjarnason, Þuríður Pálsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir og Anna Þórhallsdóttir gegndu öll formannsembættinu en ekki finnast upplýsingar um aðra formenn. Sömu sögu má segja um heiðursfélaga félagsins, Pétur Á. Jónsson, María Markan og Kristín Einarsdóttir Syre hlutu þá heiðursnafnbót en ekki finnast upplýsingar um fleiri slíka og er því hér með óskað eftir þeim.